Útflutningur hrossa

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:17:39 (2951)


[17:17]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hefði kannski átt að beina þessu andsvari til frsm. nefndarinnar, hv. þm. Egils Jónssonar, en þar sem hv. þm. Guðni Ágústsson skrifar einnig undir nál. þá tel ég kannski ekkert óeðlilegt þó ég beini þessum spurningum til hans áður en umræðan heldur áfram. Þær eru auðvitað þess eðlis að hægt er að svara þeim í andsvari.
    Í fyrsta lagi langar mig til að vita hvort sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda hefur ekki einhver áhrif á þá áhrifastöðu og hlutverk sem Búnaðarfélagi Íslands er ætlað í þessu frv. Mér finnst satt að segja óeðlilegt að vera að afgreiða frá þinginu frv. með þessum hætti og tilgreina aðila sem, að því er ég best veit, er verið að leggja niður. Ég vildi þess vegna spyrja: Kom það ekki til umræðu í nefndinni að breyta þessu í samræmi við þá skipan sem er að verða í landbúnaðinum?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hvort það breytir ekki hagsmunagæslu í málinu að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélagið eru að sameinast, vegna þess að í 6. gr. frv. er bæði Búnaðarfélaginu og síðan Félagi hrossabænda ætlað að tilnefna sinn manninn hvort í þessa fimmmannanefnd.
    Í þriðja lagi vildi ég spyrja að því hvort það hafi ekki komið til tals í nefndinni í tengslum við þetta frv. það vandamál sem nokkuð hefur verið rætt um og m.a. hv. þm. Guðrún Helgadóttir borið fram fyrirspurn um í þinginu og snertir verðlag og skattskyldu af útfluttum hrossum. Það er auðvitað dálítið sérkennilegt að vera hér með sérstaka tekjuöflun, útflutningsgjald, ef það er síðan rétt sem margir fullyrða að það viðgangist að á engan hátt sé gefið rétt upp til skatts söluverðmæti hrossa sem fara úr landinu. Mér

þætti vænt um ef hv. þm. gæti svarað þessum spurningum áður en umræðan heldur lengra áfram fyrst ég missti af ræðulokum hv. þm. Egils Jónssonar til þess að geta borið þessar spurningar upp við hann.