Útflutningur hrossa

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:22:59 (2953)


[17:22]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru greinilega mörg hitamálin í gangi í þinginu ef ekki er hægt að bera fram svona saklausar spurningar um þetta frv. um útflutning hrossa án þess að jafnágætur vinur minn og hv. þm. Guðni Ágústsson fari nánast í baklás og hefji einhverjar árásarræður á fjmrh. svona ,,überhaupt``. Það má vel vera að ég hafi átt í embættistíð minni að standa fyrir sérstakri herferð til þess að kanna hugsanleg skattsvik vegna útflutnings hrossa. Það var margt á þeirri könnu í fjmrn. og ýmsar aðgerðir gerðar til þess að fyrirbyggja skattsvik, en ég skal alveg játa það að útflutningur hrossa var kannski ekki mjög ofarlega á forgangslistanum. En það mátti skilja hv. þm. þannig að ég hefði átt að hafa útflutning hrossa mjög hátt á forgangslistanum yfir rannsókn á hugsanlegum skattsvikum. Hann er auðvitað miklu kunnugri þessum málum heldur en ég.
    Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi verið með þetta orðalag, hestamenn, í þessu samhengi. Ég sagði ekkert um það. Og hv. þm. sem starfar í landbn. á auðvitað að vita það að í þessu frv. er sérstaklega tiltekið það sem snýr að hrossaútflytjendum. Hrossaútflytjendur eru auðvitað allt annað heldur en hestamenn. Hv. þm. Svavar Gestsson er t.d. hestamaður, en mér er ekki kunnugt um að hann sé hrossaútflytjandi. ( PP: En hrossakaupmaður?) Svo ég bið hv. þm. að vera ekki að rugla þessu svona saman.
    Fyrirspurn mín um Búnaðarfélagið snerti ekki eingöngu það að ég gerði mér ekki grein fyrir því að við yrðum að tala í núinu heldur vegna þess að hingað til hefur verið greint á milli Búnaðarfélags Íslands annars vegar og stéttarsamtaka bænda hins vegar. Í þessu frv. til laga er Búnaðarfélaginu ætlað eftirlitshlutverk og vottorðahlutverk og framkvæmdahlutverk með þessum málum sem er ekki alveg sjálfgefið að stéttarsamtök bænda eigi að annast. Þetta er þess vegna kannski fyrsta dæmið um þann vanda sem við lendum í þegar búið er að sameina Búnaðarfélagið og Stéttarsamband bænda.