Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:30:59 (2958)


[17:30]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessari umræðu hefur verið frestað hvað eftir annað vegna anna á þinginu og annarra orsaka, en ég fagna því að hún skuli nú komast að enda er um alvarlegt mál að ræða. Kveikjan að þessari umræðu er rán og árás sem gerð var um hábjartan dag á konu í bílskýli 6. des. sl. og fréttir fjölmiðla í kjölfar hennar. Þetta ofbeldisverk vakti mikinn óhug enda gerðist það í kjölfar nokkurra árása, rána og ógnana sem greint hefur verið frá að undanförnu. Í umfjöllun Dagblaðsins hinn 9. des. sl. var dregin upp mjög dökk mynd af stöðu ofbeldismála undir fyrirsögninni Ofbeldið hrottalegra og tilgangsleysið einkennandi. Í fréttinni kemur fram að ofbeldiskærum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins hefur lítið fjölgað á undanförnum árum en að ofbeldi hefur breyst og að æ meira sé um tilefnislausar og hrottalegar árásir á fólk.
Ég hygg að það sé tilfinning margra borgarbúa að ofbeldi, rán og nauðganir séu orðnar meiri háttar vandamál í borginni og meðal kvennasamstaka ber æ meira á umræðu um það að tryggja verði öryggi fólks á götum úti, ekki síst kvenna, betur en nú er gert.
    Í september sl. átti ég þess kost að ferðast um Bandaríkin ásamt hópi kvenna sem var að kynna sér bandarísk stjórnmál. Hvarvetna þar sem spurt var um brýnustu viðfangsefni stjórnmálamanna og félagasamtaka fékkst sama svarið: Barátta gegn vaxandi ofbeldi. Ofbeldi gegn konum, ofbeldi gegn börnum, ofbeldi á götum úti. Bandaríkin búa við nokkra sérstöðu hvað glæpatíðni varðar í samanburði við önnur vestræn ríki, en því má ekki gleyma að þaðan berast mikil áhrif, m.a. í gegnum kvikmyndir.
    Í Skandinavíu eru einnig vaxandi áhyggjur vegna aukins ofbeldis og höfum við nýlega orðið vitni að hörmulegum ofbeldisverkum meðal frændþjóða okkar þar sem í hlut áttu börn, unglingar og vopnaðir menn sem létu skothríð dynja á saklausum vegfarendum. Það sem vekur hvað mesta athygli þegar ofbeldi á Norðurlöndunum, utan Íslands, er skoðað er það hve notkun vopna af ýmsu tagi hefur aukist þegar ofbeldi er framið. Það sem þar er á ferð eru eflaust þjóðfélagsbreytingar, atvinnuleysi með vaxandi félagslegum vandamálum, fíkniefnaneysla, glæpahringir, hópar innflytjenda sem vanir eru vopnaburði og loks áhrif frá fréttum og ofbeldismyndum í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi.
    Aðstoðaryfirlögregluþjónninn í Reykjavík varpaði fram þeirri spurningu í samtali sem ég átti við hann, hvort svipuð þróun væri fram undan hér, þ.e. ofbeldi þar sem vopnum er beitt. Við værum svo sem eins og fimm árum á eftir hinum Norðurlöndunum og þyrftum heldur betur að halda vöku okkar, var mat hans.
    Glæpatíðni á Íslandi er blessunarlega mjög lág samanborið við aðrar þjóðir en þó hefur hér verið um verulega fjölgun skráðra ofbeldisverka og árása að ræða ef litið er til lengri tíma. Til að gefa hugmynd um muninn milli einstakra borga á Norðurlöndum má geta þess að rán og ránstilraunir í Reykjavík eru nú um 14 á hverja 100 þús. íbúa en þau eru 331 í Kaupmannahöfn og 268 í Stokkhólmi.
    Í nýlegri úttekt þriggja lækna á Slysadeild Borgarspítalans, sem nær til áranna 1980 til 1991, kemur fram að ofbeldisáverkum sem komið hafa til kasta slysadeildar hefur fjölgað um tæplega helming á tímabilinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík hefur skráðum ofbeldisverkum fjölgað lítillega frá 1991 en alvarlegum líkamsárásum hefur fækkað úr 39 árið 1989 í 21 árið 1993 og ofbeldi færst frá miðborg Reykjavíkur til skemmtistaða, inn á heimili og út í úthverfin.
    Hér ber að staldra við og geta þess að árið 1989 var gert verulegt átak í löggæslu í miðbænum, auk umræðna og fræðslu í skólum borgarinnar. Bætt löggæsla leiddi til þess að mati lögreglunnar að gripið var fyrr inn í átök þannig að meiðsli urðu minni en einnig að lögreglan varð oftar vitni að árásum og skráði þær. Tölur um vaxandi ofbeldi segja því ekki alla söguna en þó ættu tölur slysadeildar Borgarspítalans að gefa til kynna að áverkum hefur fjölgað.
    Það er athyglisvert að árið 1993 voru kærðar til lögreglunnar í Reykjavík 509 líkamsmeiðingar meðan skýrsla Borgarspítalans, þ.e. slysadeildarinnar, fyrir sama ár segir að 1.661 hafi komið á Slysadeild vegna áverka af völdum annarra og ofbeldis. Þá er vert að geta þess að sama ár, 1993, voru kærðar 600 líkamsmeiðingar utan Reykjavíkur, þar af 35 sem flokkast sem alvarlegar. Á því ári sem nú er að renna sitt skeið, eða fram til 2. des., hafa verið skráðar 496 líkamsárásir í Reykjavík, 279 tilvik þar sem um heimilisófrið var að ræða, 129 tilvik vegna ofsókna og ónæðis og 25 rán. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu.
    Hvað sem um það er að segja, hvort ofbeldi er mikið eða lítið, þá er það áhyggjuefni og við því ber að sporna. Við á hinu háa Alþingi eigum að sýna að okkur er annt um öryggi borgaranna og að við höldum vöku okkar, ekki síst í ljósi þess að ofbeldi er vaxandi vandamál meðal annarra þjóða. Því vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.: Hefur verið leitað skýringa á því hvers vegna ofbeldi hefur aukist á götum borgarinnar á undanförnum árum? Hefur verið greint hverjir það eru sem beita ofbeldi? Tengjast þeir glæpastarfsemi eða á áfengisneysla oftast hlut að máli? Færist aldur ofbeldismanna niður, stendur hann í stað eða hækkar? Er sjáanleg breyting á kynjahlutföllum? Og loks, virðulegi forseti, hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að draga úr ofbeldi á götum Reykjavíkur þannig að auka megi öryggi borgaranna?