Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:37:08 (2959)


[17:37]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hv. þm. bar hér fram er rétt að minna á það að rannsóknir á ástæðum og bakgrunni afbrota og skýrslugerð um afbrot og miðlun slíkra upplýsinga er ekki fullkomin hér á landi, a.m.k. ekki enn sem komið er. Þó er það svo að nokkur lögregluembætti hafa haft uppi mjög virðingarverða viðleitni í þá veru að bæta hér úr en slíkt starf þarf að efla og það á að vera unnt með nútímaupplýsingatækni. Lögreglan í Reykjavík hefur m.a. unnið að því nú að undanförnu að bæta hér úr. Og ég minni á að það var eitt meginmarkmið frv. til lögreglulaga, sem lagt var fram á Alþingi á síðasta þingi, að efla yfirstjórn lögreglunnar með embætti ríkislögreglustjóra, sem m.a. hefði slíkar afbrotarannsóknir og upplýsingavinnu með höndum. Auk þess raunar að bæta nýtingu fjármuna sem til löggæslu fara með hagfelldari skiptingu verkefna. En þær breytingar sem þetta frv. fjallaði um hafa því miður ekki náð fram að ganga.
    Þær tölur sem fyrir liggja um þróun afbrota eru að sjálfsögðu enginn stóri sannleikur en þær þarf að skoða vel áður en endanlegir dómar eru felldir um árangur af starfi lögreglunnar. Tölur frá lögreglunni í Reykjavík sýna t.d. að frá árinu 1989 til 1993 hefur ránum fækkað úr 23 í 16, eða um 43%, þar af fækkaði ránum í miðbæ úr 11 í 3. Líkamsmeiðingum á tímabilinu hefur hins vegar fjölgað úr 380 í 509, eða um 34%, en alvarlegum líkamsmeiðingum, sem svo eru skilgreindar og eru inni í þessari tölu, hefur fækkað úr 39 í 21, eða um 46%. Aukning hefur mest orðið í innbrotum og þjófnuðum á þessu tímabili, um 37 og 40%, og hefur innbrotum í bíla þar af fjölgað mest.
    Alvarlegum ofbeldisbrotum sem send eru til Rannsóknarlögreglu ríkisins hefur heldur fækkað undanfarin ár samkvæmt þeim yfirlitum sem liggja fyrir frá þeirri stofnun, fækkaði t.d. úr 100 árið 1989 í tæplega 70 árið 1992 og það sem af er þessu ári eru slík brot orðin 64. Þeim allra alvarlegustu fækkar úr 39 árið 1989 í 23 árið 1992. Hér er ekki verið að gera lítið úr því vandamáli sem er til umræðu með því að benda á að samkvæmt tölum hefur alvarlegum ofbeldisbrotum fækkað. Einstök afbrot virðast til að mynda oft vera hrottalegri nú en áður og ástæða til þess að gefa þeirri þróun gaum. En ofbeldismál eru og eiga að vera forgangsmál hjá lögreglunni og það er raunar margt sem bendir til að lögregla hafi nú að eigin frumkvæði afskipti af fleiri málum og því sé m.a. hærra hlutfall afbrota skráð en áður var.
    Þessar upplýsingar sem hér hafa komið fram gefa auðvitað ekki neina tæmandi mynd af ástandi löggæslunnar eða þeirri þróun afbrotamála sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. En þær gefa þó tilefni til að vara við alhæfingum um að allt þróist til verri vegar á þessum sviðum. Á undanförnum árum hefur líka orðið jákvæð þróun í löggæslumálum sem ástæða er til að vekja athygli á og styðja við bakið á. Í stórum sveitarfélögum er meginstefnan að löggæslan flytjist meira út í svokallaðar hverfastöðvar sem stefnan er að fjölga. Árangurinn af þessum hverfastöðvum hefur verið mjög góður. Lögreglan í Reykjavík hefur t.d. komist að þeirri niðurstöðu að síðan 1989 hafi afbrotum fækkað um 16% í Breiðholti, 24% á Seltjarnarnesi og 13% í Mosfellsbæ en á þessum stöðum hafa sérstakar lögreglustöðvar verið reknar á þessum tíma. Það er mín skoðun að fjölga eigi slíkum stöðvum og sú þróun að færa löggæsluna nær fólkinu eigi að verða á næstu árum þannig að löggæslan verði nær því umhverfi og þeim vettvangi þar sem þeir atburðir verða sem hér er verið að fjalla um. Þjóðfélagið krefst þess að réttarvörslukerfið upplýsi afbrot og refsi afbrotamönnum en til að hafa áhrif á afbrotatíðni framtíðarinnar þurfum við að hafa áhrif á tilhneiginguna til að fremja afbrot og að þeirri baráttu þurfa flest svið þjóðfélagsins að koma og slík markmið þarf að taka með í reikninginn við stefnumótun jafnt í efnahagsmálum sem félags-, uppeldis-, skóla- og íþróttamálum.