Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:49:41 (2963)


[17:49]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað þakka fyrir það að þetta mál skyldi vera tekið til umræðu. Ég held að það sé tímabært að gera það því að ástandið í miðbæ Reykjavíkur um helgar er vægast sagt ömurlegt. Þar hafa skapast undirheimar þar sem spilling og ofbeldi þrífst og almennum borgurum er tæpast fært í gegnum kjarna miðbæjarins um helgar. Þar tíðkast það sem hér var nefnt hrottalegt götuofbeldi. Þetta er ekki bara mál höfuðborgarbúa því að höfuðborgin er okkar allra og kannski kemur þetta ekki síður við landsbyggðarmenn sem koma tiltölulega grunlausir um þetta ástand. Þetta hefur skapast á skömmum tíma, á undanförnum fáum árum. Ég hef heyrt fjölmörg dæmi og það nýjasta er af manni sem kom hingað utan af landi og vann ekki annað til saka en það að ganga við annan mann í gegnum miðbæinn þar sem ráðist var á hann. Hann var barinn í götuna, síðan var sparkað í hann og reyndar þá báða. Sá maður ber varanleg örkuml því hann missti sjón á öðru auga og mun ekki fá hana aftur. Þar kom engin lögregla við sögu, hún var hvergi nærri, og engar bætur að hafa fyrir þetta mál.
    Umhverfi þar sem svona lagað þrífst er ekki sæmandi á Íslandi og ekki sæmandi í höfuðborginni. Ég tel nauðsynlegt að dómsmálayfirvöld skeri upp herör gegn þessum ófögnuði og láti kanna ástæður fyrir því að þetta er svona og ráðist í ljósi þeirra kannana af miklum krafti að rótum þessa vanda sem ég tel vera orðinn mjög verulegan.