Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:51:49 (2964)


[17:51]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þessa umræðu á ekki að hafa við hæstv. dómsmrh. Það er ekki hæstv. dómsmrh. sem á að ala upp börnin okkar. Það er heldur ekki lögreglan. Og það eru ekki alltaf áfengi og fíkniefni með í þeim afbrotum sem hér er rætt um.
    Það er, hæstv. forseti, uppeldisumhverfi barna og unglinga á Íslandi sem er laskað. Afarnir og ömmurnar hafa verið fjarlægð úr lífi ungra barna, foreldrarnir hafa engan tíma fyrir þau og þess vegna líður börnunum í landinu ekki vel. Börn og unglingar sem líður vel og búa við ástúðlegan aga byrja ekki að neyta ávanaefna né hafa í frammi ofbeldi. Ofbeldi er niðurbæld reiði, það er ofsi sem börnin ráða ekkert við. Og sá ofsi á sér auðvitað sínar skýringar.
    Önnur börn búa við ofbeldi á heimilum og mæðurnar leita hvað eftir annað ásjár og fá bót sinna

meina. Og fagfólk lyftir ekki litla fingri til að hjálpa börnunum sem horfa upp á slíkt. Þetta er auðvitað lögbrot sem viðgengst aftur og aftur án þess að nokkur sinni því þó það sé lögum samkvæmt þegnskylda að bjarga börnum úr slíku umhverfi. Skólinn þjálfar ekki börn til að hafa ofan af fyrir sjálfum sér eftir allt of stutta skólagöngu. Og afþreyingarefnið sem börnin hafa byggist að mestu leyti á ofbeldi. Við hverju búast menn? Við hverju búast menn?
    Íslendingar eru vondir við börnin sín, stjórnvöld eru vond við börnin okkar og við þurfum að breyta þessu.