Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 21:32:02 (2968)


[21:32]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti og breytingartillögum meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1995. Breytingartillögurnar eru á þskj. 450 og nefndarálit á þskj. 449.
    Nefndin gerir nokkrar brtt. við frv. Þær eru í fjórum liðum og ég vil fyrst benda á brtt. við 3. gr. frv. Þar er lögð til lækkun á lántöku til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þarna er ekki um að ræða niðurskurð eða slíkt vegna breyttra útlánareglna heldur er þetta einungis uppreikningur á fjárþörf sjóðsins sem hefur minnkað sem þessu nemur.
    Í 4. gr. eru breytingartillögur við Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þar er lögð til hækkun á lántökuheimildum í samræmi við endurskoðaða greiðsluáætlun sjóðanna. Þá er lögð til hækkun á lántökuheimild til Stofnlánadeildar landbúnaðarins um 900 millj. kr. úr 700 í 1.600. Þetta er gert vegna skuldbreytingar á rekstrarlánum bænda. Þessi hækkun á lántökuheimild vegna stofnlánadeildarinnar nær til skuldbreytingar samkvæmt 2. tölul. 5. gr. laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins, þ.e. verið er að breyta lausaskuldum bænda í föst lán og þessar lausaskuldir eru vegna fjárfestingar í búrekstri á jörðum þeirra, svo og lausaskuldum vegna rekstrarins, jarðakaupa, véla, bústofns-, áburðar- og fóðurkaupa. Því er ekki verið að skuldbreyta neyslulánum heldur lánum sem fyrst og fremst er stofnað til vegna búrekstrarins.
    Miðað er við að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins semji tillögur að reglum um framkvæmd þessarar skuldbreytingar og ráðherra staðfesti þær síðan.
    Í þriðja lagi eru brtt. við 5. gr. frv. Þar er verið að bæta við heimild til fjmrh. til að ábyrgjast lántökur fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar allt að 800 millj. til skuldbreytinga eldri lána, til Undirbúningsfélags Orkubús Borgarfjarðar, allt að 380 millj. til skuldbreytingar eldri lána. Það er heimild fyrir Innheimtustofnun sveitarfélaga allt að 150 millj. til greiðsluflæðisjöfnunar. Það er heimild til Hita- og Vatnsveitu Akureyrar, allt að 2.200 millj. til skuldbreytingar eldri lána og heimild til bæjarveitna Vestmannaeyja, allt að 61 millj. til skuldbreytinga eldri lána.
    Síðan leggur nefndin til að bæta nýrri grein við lánsfjárlögin þar sem Vegagerðinni, vélamiðstöð, er heimilt að yfirtaka skuldir Hríseyjarhrepps vegna kaupa á jörðinni Sæfara en þessar skuldir nema alls 102,6 millj. kr.
    Þá vill nefndin taka fram að endurlán skv. 11. gr. frv. miðist við stöðu ábyrgðarheimilda 5. júlí 1994 og yfirtaka lána skv. 12. gr. við 31. maí 1994.
    Efh.- og viðskn. hyggst koma saman milli 2. og 3. umr. um frv. til þess að fjalla m.a. um hugsanlegar breytingar á 1. gr. í ljósi niðurstöðu fjárlaga og eins til þess að ræða sérstaklega um mál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en í 3. gr. lánsfjárlagafrv. er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að endurlána allt að 1.980 millj. kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og meiningin er að fjalla sérstaklega um það mál milli umræðna.