Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 21:36:58 (2969)


[21:36]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst spyrja að því hvar hæstv. fjmrh. sé niðurkominn, hvort ekki sé ætlunin að hann verði viðstaddur þessa umræðu.
    ( Forseti (SalÞ): Hæstv. fjmrh. er í húsinu og forseti mun gera honum viðvart.)
    Hæstv. forseti. Það er mikið fagnaðarefni ef hæstv. fjmrh. lætur svo lítið að vera hér nálægur okkur. Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé, hæstv. forseti, að byrja á því að fara nokkrum orðum um svona aðstæður sem eru í kringum þessa afgreiðslu ef afgreiðslu skyldi kalla á frv. til lánsfjárlaga út úr efh.- og viðskn. og til 2. umr. og vinnubrögð og ýmislegt fleira í þeim efnum. Það kom reyndar fram í máli hv. frsm. meiri hlutans, varaformanns efh.- og viðskn. að málið væri að nokkru leyti hálfkarað þegar það væri afgreitt út úr nefndinni samanber það að ekki lágu fyrir niðurstöðutölur um tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv. þegar frv. til lánsfjárlaga var afgreitt út sem þýðir að ekki er hægt að stemma af lántökurammann og þar með 1. gr. frv., fá þar niðurstöðutölu. Sömuleiðis voru nokkrir aðrir þættir frv. lítt eða ekki kannaðir og er ætlunin að reyna að bæta úr því við 3. umr. En auðvitað eru ekki, hæstv. forseti, eins og ég veit að ég þarf ekki að rekja fyrir hæstv. forseta, þær aðstæður við afgreiðslu mála af þessu tagi sem menn telja æskilegar eða til eftirbreytni. Rík áhersla var lögð á það á sínum tíma þegar þinginu var breytt í eina málstofu að það hlyti að þýða og leiða af sjálfu að menn mundu vanda sín vinnubrögð og vinna mál betur áður en þau kæmu frá nefnd og til 2. umr. í því ljósi að þar með væri bara ein umræða eftir til að lagfæra það sem úrskeiðis kynni að hafa farið ef það þyrfti að taka breytingum.
    Hæstv. forseti. Einhvern veginn finnst mér að þess sé farið að sjá harla lítinn stað í vinnubrögðunum að menn muni eftir því að nú eru ekki lengur sex umræður og sex umferðir sem hvert einasta lagafrv. þarf að fara í gegnum þingið heldur þrjár og engin sía er eftir til að vinsa út mistökin þar sem er seinni deildin eins og var gjarnan í gamla daga. Nú eru mál vísvitandi afgreidd þannig milli umræðna að búið er að ljúka einhverjum hluta af umfjöllun um þau, það er búið að fá botn í sumt og annað ekki og þá er því sullað inn til afgreiðslu sem komið er og látið ráðast hvernig tekst að klára afganginn. Svona er þetta nú orðið, hv. 1. þm. Vestf. ( MB: Það er ljótt að heyra.) Já, ljótt er að heyra, það veit ég að hv. þm. telur þetta ekki til eftirbreytni.
    Svoleiðis verður eiginlega að segja söguna um þetta mál enda þótt það sé nú orðið að sumu leyti einfaldara í sniðum en lánsfjárlagafrumvörp voru þegar þau höfðu í sér ýmis skerðingarákvæði og fleira sem nú er horfið þaðan þá er nú eftir sem áður verið að stilla af lántökur ríkissjóðs á því ári sem fer í hönd. Það er verið að reyna að átta sig á því hvernig horfur eru á innlendum fjármagnsmarkaði og verið er að reyna að líta á megindrætti efnahagsstefnunnar. --- Það er óskaplegur óróleiki á þessum einkafundi menntmrh. í hliðarsal., hæstv. forseti. Það er spurning hvort hæstv. ráðherra getur ekki fundið fundarsal uppi í menntmrn. til að útkljá þessi deilumál en þarf ekki að gera það í reykherberginu. --- Ég sé að við þessum tilmælum er orðið og hæstv. ráðherra heldur á braut með fundarmenn sína. (Gripið fram í.) Eða lokar a.m.k. hurðinni. Hæstv. forseti. Þannig standa mál við upphaf þessarar 2. umr. lánsfjárlaga á þingi.
    Ég vil einnig að það komi fram að þetta er auðvitað ekki sú röð á hlutunum sem að mörgu leyti er eðlilegust, þ.e. að lánsfjárlagafrv. sé síðast til umfjöllunar af þessum málum sem tengjast afgreiðslu fjárlaga, tekjuöflunarfrumvörpum og útgjaldaákvörðunum ríkissjóðs á komandi ári. Að sjálfsögðu er í raun og veru eðlilegasta lánsfjáráætlunin að lánsfjárlagafrv. sé síðasta málið sem fær hér efnislega umfjöllun því að þar ræðst niðurstaðan í formi niðurstöðutölu um lántökur opinberra aðila á næsta ári. Það er mismunur tekna og gjalda sem er brúaður með lántökum og að sjálfsögðu er ekki hægt að stemma það af fyrr en allri annarri vinnu er lokið.
    Ég ætla þá, hæstv. forseti, að fara yfir einstaka liði í nefndaráliti minni hluta á þskj. 458 og þá sem þar eru taldir upp undir millifyrirsögnum eftir að hafa gert grein fyrir þessum vinnubrögðum sem hafa farið hríðversnandi ár frá ári í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar þannig að nú hefur aldeilis tekið steininn úr á þinginu á þessum vetri. Ég minnist þess alla vega ekki að menn hafi verið með öll þessi mál í höndunum þegar komið er fram á 20. des. og sum þeirra á frumstigi umræðu eða athugunar í þingnefndum eins og á við núna. Má þar til að mynda nefna afgreiðslu á frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er ekki enn komið til umræðu og frv. um álagningu skatta, tekjuskatt og eignarskatt á næsta ári sem enn hefur verið til umfjöllunar í efh.- og viðskn. enda sér þess auðvitað stað í þeim afleiðingum þessara vinnubragða sem hv. þm. þekkja og voru m.a. til umræðu í dag, þ.e. lánsfjáraukalagafrv. Fjáraukalagafrumvörpin og lánsfjáraukalagafrumvörpin hafa orðið umfangsmeiri með hverju ári í tíð hæstv. ríkisstjórnar þar sem verið er að reyna að leiðrétta skekkjurnar og klóra í bakkann þegar allar forsendur fyrir spilaborginni eru hrundar, fjárlagafrv. hvers árs.
    Einnig hefur þessi ríkisstjórn miklu oftar en nokkur önnur í lýðveldinu orðið að grípa til þess óyndisúrræðis að setja bráðabirgðalög um framkvæmd laga á miðju sumri vegna klúðurslegra vinnubragða á því þingi sem undan fór. Ætli bráðabirgðalögin séu ekki að verða þrenn eða fern, sem hæstv. ríkisstjórn hefur orðið að setja, fyrst og fremst vegna vinnubragða af þessu tagi. Ekki er hægt að afgreiða svo einfaldan hlut eins og lyfjalög án þess að þar komi upp reginklúður, ýmist lögbrot eða framkvæmdalegir vankantar sem kalla á setningu bráðabirgðalaga. Auðvitað verða menn að reyna að hafa þessa hluti aðeins í huga ef þeir vilja eitthvað vanda virðingu sína í þessum efnum.
    Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að gera aðeins grein fyrir þeim breyttu þjóðhagsforsendum eða þeim upplýsingum um þjóðhagsforsendur sem lagðar voru fram í efh.- og viðskn. sl. föstudag og eru forsenda þeirra tillagna sem nú liggja fyrir um tekjuhlið fjárlagafrv. og áætlunar um tekjur og gjöld ríkissjóðs og halla á næsta ári.
    Efh.- og viðskn. voru, eins og áður segir, kynntar þessar forsendur sl. föstudag og þar er skemmst frá að segja að framvinda efnahagsmála á síðari hluta ársins 1994 og horfur fyrir árið 1995 hafa hvortveggja reynst nokkru hagstæðari en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þar kemur auðvitað margt til. Þar má sérstaklega nefna stórauknar útflutningstekjur, aukinn útflutning vöru og þjónustu. Aukningin þar hefur orðið talsvert meiri en búist var við milli áranna 1993 og 1994 og munar þar langmestu um framleiðsluverðmæti sjávarútvegsins. Þær ástæður eru náttúrlega þekktar að mestu leyti. Það liggur fyrir að síðasta loðnuvertíð var óvenju gjöful, mikil framleiðsla og hátt verð á frystum loðnufurðum. Það eru stóraukin verðmæti afla utan landhelgi, einkum úr Smugunni eða úr Barentshafi og af Reykjaneshrygg. Það er hækkandi afurðaverð á framleiðslu sjávarafurða almennt, einkum nú á síðari hluta ársins þar sem umtalsverð hækkun hefur orðið til að mynda á rækju. Einnig er ljóst síðast en ekki síst að bati í efnahagslífi okkar helstu viðskiptalanda almennt séð er að skila sér í nokkrum mæli inn í okkar hagkerfi.
    Þessi breyting, hæstv. forseti, er að sjálfsögðu fagnaðarefni svo langt sem það nær, en hitt ber að undirstrika og það hefur Þjóhagsstofnun líka gert í sínu áliti að þessir þættir eru margir hverjir mikilli óvissu undirorpnir. Það eru til að mynda miklar blikur á lofti nú þegar um yfirstandandi loðnuvertíð og aflaleysi allt frá síðasta sumri hefur auðvitað valdið mönnum miklum vonbrigðum. Það er óvissa um áframhaldandi veiðar eða kannski réttara sagt um það verðmæti sem við náum úr Barentshafi á næsta ári, bæði af náttúrulegum ástæðum en líka hugsanlega vegna samninga sem kynnu að takast um réttindi okkar á þessu svæði. Þetta á einkum og sér í lagi við um Svalbarðasvæðið, en það er óopinbert leyndarmál að drjúgur hluti aflaverðmætisins á sl. sumri kom af fiskverndarsvæðinu við Svalbarða og þar er að sjálfsögðu ekki á vísan að róa eins og kunnugt er. Sama má segja um verðlag á sjávarafurðum. Við njótum þess í augnablikinu að það er óvenjuhátt. Það er nálægt sögulegu hámarki á vissum tegundum og reynslan hefur sýnt að slíkt verð getur reynst óstöðugt.
    En það er því miður ekki svo, hæstv. forseti, að þessar horfur séu allar saman jákvæðar og það séu bara sólargeislar í hverju horni. Það er ekki svo. Staðreyndin er að það sama virðist vera að gerast á Íslandi og í mörgum nálægum löndum, sem hafa fengið yfir sig atvinnuleysi, að jafnvel þó að efnahagslífið taki fjörkipp, þá kemur það ekki fram í því að atvinnuleysisvofan náist niður. Þvert á móti er spá Þjóðhagsstofnunar í þeim efnum allt annað en uppörvandi. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi reynist á þessu ári verða um 4,8% og spáin gerir ekki ráð fyrir umtalsverðum breytingum á næsta ári hvað þetta snertir. Ef til vill eru þarna vonir um eitthvern örlítinn bata, að þessi tala, 4,8%, gæti farið niður í 4,6% og er það nánast innan skekkjumarka, því miður. Að þessu leyti til er þjóðhagsspáin áfram svört og ljót og ég held að það sé óhjákvæmilegt að undirstrika það, því miður.
    Sama má segja um afkomu aðila eins og sveitarfélaganna og heimilanna. Þó að ljóst sé að ríkissjóður geti átt von í nokkrum tekjuauka vegna ívið hagstæðari þjóðhagsforsendna eða þjóðhagshorfa þá er alveg ljóst að afkoma sveitarfélaganna stefnir í að verða áfram mjög erfið. Mjög erfið. Þau eru að verða fyrir auknum útgjöldum af ýmsum ástæðum, svo ekki sé nú minnst á stöðu heimilanna, gífurlegir greiðsluerfiðleikar og skuldasöfnun fara vaxandi nú milli mánaða með ógnvænlegum hraða. Vilji menn ekki taka þetta trúanlegt þá er því miður nærtækt að benda á ýmis töluleg gögn sem m.a. fylgja þessu nefndaráliti, en einnig má benda á skýrslu Seðlabankans frá því í byrjun nóvembermánaðar sl. og fleiri gögn þar um þar sem er ítarlega fjallað í sérstökum kafla um skuldir heimilanna.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, vil ég nefna stöðu ríkisfjármálanna og stöðu ríkissjóðs. Það liggur nú fyrir með því að forsendur fyrir afgreiðslu fjárlagafrv. ársins 1995 eru að skýrast, að heildarmyndin á þessu kjörtímabili er að verða ljós með þeirri óvissu að sjálfsögðu sem alltaf er innan ársins. Og hver er staðan, hæstv. forseti, þegar þetta kjörtímabil sem hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hefur farið með ríkisfjármálin er nú að verða ljóst í heild? Hún er sú að ríkisfjármálin eru í raun og veru í fullkomnum ólestri. Öll áform um það að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs, að ná honum niður í núll og skila síðan ríkissjóði með afgangi, eru að engu orðin og miklu, miklu meiri en það, því miður. Og verður nú ekki lengur sagt að ástæðan séu sérstakir erfiðleikar og kreppa þar sem ljóst er að sl. ár, yfirstandandi ár og það ár sem í hönd fer, eru öll að reynast hagstæðari en spár höfðu gert ráð fyrir. Þannig að sú vörn og sú afsökun sem hæstv. fjmrh. hefur borið á borð hér á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu undanfarin ár, yfirstandandi ár og það síðasta, heldur ekki lengur. Það er engin afsökun fyrir þeirri uppgjöf í ríkisfjármálum sem blasir við okkur, að við sérstaka erfiðleika sé að þessu leyti við að glíma t.d. um þessar mundir eða hvað varðar horfurnar á árinu 1995. Það er ekki svo. En niðurstaðan er sú, samkvæmt tölum sem ég var að reyna að leggja

saman hér í dag þegar brtt. meiri hluta við fjáraukalög yfirstandandi árs litu dagsins ljós og aðrar upplýsingar komu fram, að hallinn á kjörtímabili Friðriks Sophussonar, halli ríkissjóðs, ef honum eru reiknuð árin 1992 og til og með árinu 1995, sem ég tel að sé pólitískt eðlilegra að gera þegar stjórnarskipti verða á miðju ári eða á öndverðu ári að reikna fráfarandi ríkisstjórn það ár sem þá liður, þar sem gengið er frá fjárlögum á ábyrgð fráfarandi stjórnar fyrir það ár sem í hönd fer, þá er staðan í hnotskurn þannig, hæstv. forseti, að hallinn í tíð hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar stefnir í a.m.k. 38--40 milljarða kr. á kjörtímabilinu, 38--40 milljarða kr. Hann skiptist þannig að hann var um 9,5 milljarðar á árinu 1992, 10,6 milljarðar á árinu 1993 og eru þó ekki öll kurl komin til grafar þar, vegna þess að mér er ekki grunlaust um að þegar ríkisreikningur birtist hér á borðum þingmanna, vonandi fljótlega --- reyndar hefur orðið furðulegur dráttur á því að hæstv. fjmrh. kæmi frá sér ríkisreikningnum því að mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur fengið ríkisreikninginn með áritun yfirskoðunarmanna fyrir alllöngu síðan --- þá gæti nú farið svo að niðurstöðutalan upp á 10,6 milljarða á árinu 1993 ætti enn eftir að versna.
    Hallinn samkvæmt fjáraukalagafrv. og framreikningi tekna er, eftir því sem mér skilst, að stefna í um 10,5 milljarða á árinu sem nú er að líða og samkvæmt endurmati á tekjuhlið og fram komnum útgjaldatillögum við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1995 standa þau mál í augnablikinu, eftir því sem ég kemst næst miðað við upplýsingar m.a. frá nefndarmönnum í fjárln., þannig að hallinn verði 7,4 milljarðar á næsta ári. --- Ég sé að hv. formaður fjárln. kinkar kolli þannig að þá er það í grófum dráttum staðfest.
    Og þetta, hæstv. forseti, 9,5 milljarðar, 10,6 milljarðar, 10,5 milljarðar og 7,4 milljarðar eru 38--40 milljarðar kr. Það er nú þannig. Og eins og við vitum er því miður ekki hægt að útiloka að enn eigi eftir að syrta í álinn, að árið 1993 verði samkvæmt ríkisreikningi verra en þetta, árið 1994 eigi eftir að bregðast í einhverjum mæli, t.d. þannig að sparnaðaráform með útgjöld valdi meiri ríkisútgjöldum eins og oft hefur viljað verða, ég nefni sem dæmi rekstur stóru sjúkrahúsanna, og að árið 1995 eigi einnig eftir að versna í þessum efnum.
    Þetta, hæstv. forseti, er staðan í hnotskurn. Þetta er upgjörið á ríkisfjármálum á kjörtímabili hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar. Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs, algert Íslandsmet og hefur þó líklega engin ríkisstjórn, a.m.k. ekki í seinni tíð, farið af stað með meiri sperringi í þessum efnum en einmitt sú sem nú fer senn að teygja upp tærnar. Því það átti aldeilis að taka hallann á klofbragði og dengja honum flötum á tveimur árum, skila ríkissjóði í jafnvægi á þriðja árinu og með verulegum tekjuafgangi á því fjórða. Þannig var nú Viðeyjaráætlunin í ríkisfjármálum, en hún eins og fleira hefur farið fyrir lítið.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að það má auðvitað lengi deila um það hvað sé réttlætanlegt og gerlegt í sambandi við ríkisfjármál þegar erfiðleikar ganga yfir og enginn neitar því að þessi ríkisstjórn hefur út af fyrir sig fengið sinn skammt af erfiðleikum. Ég er t.d. alveg hreinskilinn hvað það snertir að árið 1992 er mjög lélegt ár í okkar þjóðarbúskap, það er lélegt. Þá verður umtalsvert tekjufall og það er ekkert annað um það að segja en það að það er erfitt að fá slíkt á sig. Þetta er með ljótari árum í síðari áratuga efnahagssögu. En það er líka eina árið, eina árið sem hæstv. ríkisstjórn býr við erfiðleika af þessu tagi svo umtalsverðir séu. Á árinu 1991 er, ef ég man rétt, um 1% hagvöxtur. Árið 1993, þegar upp er staðið, reyndist ágætisár. Árið 1994 stefnir hraðbyri í að verða gott ár og árið 1995 einnig samkvæmt þessum nýju eða endurmetnu þjóðhagsforsendum. Þannig að það er ekki sú afsökun fólgin í málinu að þarna hafi verið um einhverja sérstaka, afbrigðilega og langvarandi erfiðleika að ræða. Það kom eitt erfitt ár og það viðurkenna allir, en það er mönnum ekki afsökun fyrir því að klúðra þessum málum algerlega, gefast upp á heilu kjörtímabili þó að þeir lendi í mótbyr á einu einasta ári.
    Það alvarlegasta við stöðuna núna, hæstv. forseti, er hins vegar það, að þegar liggja fyrir að mörgu leyti jákvæðari þjóðhagsforsendur en gert hafa um skeið, hvað gerir þá hæstv. ríkisstjórn með þann bata? Hvert er hann að fara? Er hann að koma fram í minni hallarekstri ríkissjóðs? Svarið er nei. Er hann að koma fram í minni skuldasöfnun hins opinbera? Svarið er nei. Staðreyndin er sú að uppgjöfin í ríkisfjármálum hefur aldrei orðið jafnaugljós eins og núna þegar ríkissjóður hefði haft möguleika til að styrkja stöðu sína ef af einhverjum myndugleik hefði verið haldið á þeim málum. Tekjuauki upp á nokkra milljarða er að skila sér inn án þess að nokkrir nýir skattar séu lagðir á. En hvað verður þá um þann bata? Hvað gerir hæstv. ríkisstjórn, þessi sérstaklega ábyrga ríkisstjórn, sem ætlaði aldeilis ekki að breyta fjmrn. í kosningaskrifstofu að sögn hæstv. utanrrh., sem hefur verið í Rússlandi. Hvað gerir hún? Jú, hún ráðstafar þeim bata og rúmlega það. Hún eykur hallann, en minnkar hann ekki. Hún eykur lántökurnar, en minnkar þær ekki frá því sem áður var áætlað. Og það gerist með því að annars vegar velur ríkisstjórnin sér gæluverkefni til þess að setja í útgjöld og hins vegar afsalar hún ríkissjóði tekjum. Hún sleppir fyrir borð umtalsverðum tekjustofnum sem hefðu getað skilað meiri tekjum inn ef þeir hefðu verið lagðir á óbreyttir, eins og sérstakt stóreignaálag í eignarskatti og óbreyttur hátekjuskattur. En þessi ábyrga ríkisstjórn ætlar ekki að nota slíka möguleika til að ná tökum á ríkisfjármálunum við þær aðstæður að allar forsendur eru til þess. Nei, þvert á móti er hallinn aukinn af hreinu ábyrgðarleysi við aðstæður þegar allar formúlur mæla með því að reyna að ná tökum á ríkisfjármálum á nýjan leik. Það á ekki að vera til svo aum ríkisstjórn að hún láti tækifæri af þessu tagi sér úr greipum ganga. En það er það sem er að gerast.
    Er þetta í samræmi við einhverja skynsamlega efnahagsstefnu? Hvað segja helstu ráðgjafar í efnahagsmálum um svona hluti? Ætli menn fái háa einkunn hjá Efnahags- og framfarastofnun eða öðrum slíkum aðilum fyrir svona framferði? Nei, aldeilis ekki. Þar hafa menn deilt um það og rifist um það hvort það væri yfir höfuð nokkurn tíma réttlætanlegt að reka ríkissjóð með halla. Það hafa að vísu alltaf verið uppi þau sjónarmið að það gætu verið þeir tímar að það væri réttlætanlegt miðað við viðráðanlega skuldastöðu að fleyta ríkissjóði yfir erfið ár eins og öðrum aðilum með lántökum. Stundum kallaður Keyneismi, að leyfa sér það að nota ríkissjóð þannig til þess að jafnvægisstilla ástandið. En frjálshyggjumennirnir og haukarnir hjá Alþjóðabankanum og gjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni og víðar hafa samt ekki verið hrifnir af þeirri hugsun. En það þarf ekki þá til. Við skulum bara fara í íslenska Seðlabankann og heyra hvað hann segir um þetta mál, hvað helsta sérfræðistofnun og ráðgjafarstofnun ríkisstjórna í landinu segir um aðstæður af þessu tagi. Ég vil þar, með leyfi hæstv. forseta, vitna í skýrslu Seðlabankans frá því 2. nóv. sl., en þar sagði um þetta atriði og ég tek upp orðrétt þann kafla undir fyrirsögninni Skuldastaða hins opinbera:
    ,,Skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga hafa vaxið jafnt og þétt sem hlutfall af landsframleiðslu undanfarin ár eins og glöggt sést af meðfylgjandi mynd`` og hún er birt með nefndarálitinu. ,,Hreinar skuldir ríkissjóðs voru einungis um 0,5% af vergri landsframleiðslu í árslok 1982, en stefna í meira en 30% af vergri landsframleiðslu og í um 120% af tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Sveitarfélögin áttu sömuleiðis kröfur upp í skuldir í upphafi 9. áratugarins,`` með öðrum orðum, þau voru í raun skuldlaus ,,en um næstu áramót er áætlað að hreinar skuldir þeirra nemi um 3,7% af vergri landsframleiðslu eða 48% af tekjum.`` Á þessum skamma tíma hafa sem sagt skuldir sveitarfélaganna vaxið úr núlli og í helming af tekjum. ,,Þótt færa megi rök fyrir því að bregðast við vanda sem virðist tímabundinn með því að slaka á aðhaldi og reka ríkissjóð með halla eykst áhættan af slíku atferli eftir því sem skuldastaðan verður erfiðari. Við það bætist að vaxtabyrðar verða æ þyngri. Í upphafi 9. áratugarins voru vaxtatekjur meiri en vaxtagjöld, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum og raunar fram eftir áratugnum hjá sveitarfélögunum. Síðan hefur sigið verulega á ógæfuhliðina og hreinar vaxtagreiðslur eru nú um 7% af tekjum hjá ríkinu en einungis um 2,5% hjá sveitarfélögunum. Hin mikla vaxtabyrði ríkisins þrengir óumflýjanlega svigrúm til athafna og viðbragða við utanaðkomandi áföllum. Öllu alvarlegra er að vaxtagjöldin geta breyst mjög mikið vegna breytinga á vöxtum þótt reynt hafi verið að draga úr þessari áhættu ríkissjóðs á undanförnum missirum með því að breyta erlendum lánum á breytilegum vöxtum í fast vaxtalán. Gangi áætlanir fjárlagafrv. eftir verður hallinn á næsta ári eingöngu vegna vaxtahallans.`` Það sýnir mönnum í hvert óefni er þarna komið með vaxtakostnaðinn.
    Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Seðlabankanum, skilaboðin til hæstv. ríkisstjórnar:
    ,,Það hlýtur að vera ofarlega á forgangslista stjórnvalda að nota næstu uppsveiflu til að létta á þeirri skuldabyrði, enda er öruggari fjárfesting vandfundin.`` --- Að nota næstu uppsveiflu til að létta á þeirri skuldabyrði, enda er öruggari fjárfesting vandfundin, segir þar.
    Þetta er nú vísdómur Seðlabankans að það hljóti að vera nánast algert forgangsatriði hjá mönnum að nota fyrstu möguleika þegar afkoma ríkissjóðs batnar --- til þess að gera hvað? Til að greiða þessar skuldir niður, til að lækka vaxtakostnaðinn og til að styrkja stöðu ríkisfjármálanna inn í framtíðina. En hvað er að gerast? Það er verið að segja okkur að uppsveiflan sé komin og hún er það í vissum mæli, um það vitna bættar þjóðhagsforsendur. En hvað á þá að gera við batann? Hvað ætlar þessi ábyrga ríkisstjórn að gera við hann? Ekki að fara að ráðum Seðlabankans, ekki að greiða niður skuldirnar, ekki einu sinni að halda hallanum óbreyttum, hún ætlar að auka hann. Það er nú öll ábyrgðin. Svo halda menn endalausar ræður hér um það í upphöfnum stíl, eins og hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. hafa báðir gert í fjölmiðlum á undanförnum vikum, hvað þeir séu einstaklega ábyrgir, alveg sérstaklega ábyrgir. Það sé nú eitthvað annað en var hérna áður. Ja, svei, segi ég nú bara. Þvílíkur málflutningur.
    Ég hvet hv. þm. til að taka sér þetta litla nál. sér í hönd og fletta upp á bls. 3. Þar er pínulítið línurit sem menn hafa gott af því að skoða og sem ég held að hæstv. fjmrh. ætti aðeins að skoða áður en hann heldur næstu sjálfhólsræðu. Þetta línurit sést bara því miður ekki mjög vel á löngu færi, hæstv. forseti, en hvað segir það? Það er allt í lagi að fara aðeins yfir það.
    Þetta línurit er yfir hreinar skuldir hins opinbera sundurliðað í súlunum í ríki og sveitarfélög og hvernig er það? Hvernig er staðan? Hver var hin óábyrga stjórn 1988--1991, hvernig hún skildi við? Hún lækkaði skuldir ríkissjóðs á kosningaárinu 1991 sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er nú staðreynd, hæstv. fjmrh., eftir öll ræðuhöldin, eftir allt gasprið um hinn vonda viðskilnað, um ábyrgðarleysi sem menn höfðu sýnt, eftir allt talið um að fjmrn. hafi verið breytt í kosningaskrifstofu, þá liggur sú niðurstaða Seðlabankans fyrir að skuldir ríkissjóðs lækkuðu á árinu sem hlutfall af landsframleiðslu. Þær voru vel innan við 20%, reyndar aðeins rétt liðlega 15% á því ári. En þær uxu upp yfir 20% á árinu 1992, fyrsta heila árinu sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson bar ábyrgð á og á sama ári uxu skuldir sveitarfélaganna líka óðfluga, m.a. vegna þess að ríkið velti byrðum yfir á sveitarfélögin einhliða eins og kunnugt er og þau urðu að taka lán í stórum stíl, 600 millj. í lögguskattinn og fleira.
    Síðan er það einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að þessar skuldir vaxa hröðum skrefum úr liðlega 15% miðað við landsframleiðslu samkvæmt árslokaverðlagi 1991 og í yfir 30% á árinu 1994 og vaxa enn á árinu 1995 samkvæmt þessari áætlun Seðlabankans. Hún er að vísu frá því í byrjun nóvember þannig að ég þori ekki að fullyrða um það að sú tala gæti ekki breyst, en þó er það þannig að ef fjárlagafrv. verður afgreitt hér með meiri halla en það var lagt fram með í upphafi þá er þess varla að vænta að skuldir

ríkisins minnki miðað við það, er það?
    Þannig er nú staða, hæstv. forseti, og ég held að þetta línurit segi í raun og veru allt sem segja þarf. Menn geta haldið þessar ræður alveg endalaust um ábyrgðarleysið og um vondan viðskilnað annarra og hvað þeir séu sjálfir óskaplega ábyrgir. En þegar þeir eru svo berháttaðir með tölum af þessu tagi sem liggja fyrir frá helstu sérfræðistofnun þjóðarinnar um þessar mundir --- og ætlast þó varla nokkur maður til að við trúum því að Seðlabankin sé sérstaklega hlutdrægur í málinu þessari ríkisstjórn í óhag eða hvað? Ætli það séu nú margir toppar þar inni sem hafi ástæðu til þess að vera að fegra sérstaklega hlut ráðherra Alþb. til að mynda. Þeir hafa aðallega komið úr öðrum flokkum, snillingarnir, sem hefur verið plantað þangað inn upp á síðkastið eins og kunnugt er.
    Þannig er nú þetta, hæstv. forseti. Ég hvet hv. þm. til að fara aðeins yfir þessa stöðu varðandi ríkisfjármálin og skuldir hins opinbera. Það er hrikalegt satt best að segja vegna þess að það er augljóst mál að svona getur þetta ekki gengið lengur. Það er verið að stofna hér framtíðargrundvelli velferðarkerfisins í landinu í stórkostlega hættu með þessari skuldasöfnun og þess vegna ber ábyrgum stjórnmálamönnum að taka það fyrir af alvöru þegar breytingar eru vonandi í vændum eins og þær sem nú eru, að það séu einhver batamerki til að mynda í tekjumöguleikum ríkissjóðs, að þeir séu þá nýttir á skynsamlegan máta en ekki látnir vaða áfram í ábyrgðarleysi af þessu tagi.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, ætla ég að víkja nokkuð að fjármagnsmarkaði og vöxtum, sem er auðvitað ein af stóru breytunum í þessu sem við í efh.- og viðskn. höfum eðlilega verið að reyna að skoða í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlagafrv. Það er að vísu svo að samkvæmt hinu nýja og fína frjálsræði í þessum efnum er nú sá siður upp tekinn að hverfa frá sundurliðun í innlendar og erlendar lántökur og þurfti að draga það beinlínis út úr fjmrn. með töngum hvernig þær lántökur hefðu skipst á árinu það sem liðið er. Svo heilagt er mönnum það að geta helst bara farið með það sem mannsmorð hvort verið er að safna skuldum erlendis eða taka fjármuni að láni hjá sjálfum sér, sem auðvitað skiptir gríðarlegu máli upp á framtíðina litið og það þarf varla að útskýra fyrir hv. þm. hver munur er á því þegar að skuldadögunum kemur hvort við borgum þau verðmæti þá inn í íslenska þjóðarbúið eða til útlanda. En það er eins og menn fjalla orðið um þetta þannig að það skiptir ekki nokkru máli hvort skuldasöfnunin fer fram erlendis eða innan lands.
    En staðan er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að sé óvissa hér um ýmsa hluti í sambandi við afgreiðslu frumvarpa, tekjuhlið og gjaldahlið fjárlaga, álagningu skatta og annað því um líkt, þá er hún eins og hjóm eitt borið saman við þá upplausn sem ríkir á innlenda fjármagnsmarkaðnum og þá óvissu sem þar er, því þar, satt best að segja, vita menn ekki sitt rjúkandi ráð að best verður séð. Það er staðreynd, liggur fyrir í gögnum sem m.a. fylgja þessu nefndaráliti að vextir hafa verið á uppleið nánast samfellt allt þetta ár. Ríkisstjórnin knúði vexti niður með handafli í nóvember á sl. ári, fyrir rétt liðlega ári síðan og það var vissulega aðgerð sem menn fögnuðu að stjórnin loksins hafði sig í. En það var eins og fleira hjá þessari ríkisstjórn eftir að hafa haldið hér uppi mjög háum vöxtum, okurháum vöxtum, þá voru þeir skyndilega keyrðir niður með handafli á einum degi og átti að telja mönnum trú um að það væri markaðsaðgerð og þetta væri allt saman í góðu jafnvægi því að nú væru menn hættir svona ofbeldi eins og því að beita handafli á vexti. Þetta væru allt saman markaðsstilltar aðgerðir. Það voru að vísu fundin upp ný hugtök eins og handleiðsla, sem þótti fínna orð yfir það að ríkisstjórnin einfaldlega ákvað að vextir á ríkisskuldabréfum og húsbréfum skyldu vera 5%. Það var svo einfalt mál. Hún bara tók gamaldags miðstýrða ákvörðun um það að vextirnir skyldu vera 5% og beitti svo handafli meðan hún hafði það til að halda þeim þar og handaflið heitir Seðlabankinn. Og heitir enn, að svo miklu leyti sem það er virt, Seðlabankinn. Vextirnir voru settir niður í þetta. Því var lýst yfir að það yrði ekki tekið kauptilboðum sem færu upp fyrir þessi 5% í ávöxtunarkröfu og síðan var Seðlabankanum beitt á meðan peningar hans entust til þess að kaupa bréf á þessu verði. Húsbréf lengi framan af, síðan ríkisskuldabréf þangað til Seðlabankinn sprakk og sagði: Ekki meir, ekki meir.
    Og hver er staðan, hæstv. forseti? Hún er sú að í raun og veru hefur innlend fjármögnun þessara helstu opinberu lántakenda alls ekki gengið eftir á árinu, alls ekki. Trúi menn því ekki þá bið ég menn að fletta upp á bls. 8 í fylgiskjali með þessu nál. Þetta er vel að merkja, hæstv. forseti, það er rétt að það komi fram, þetta kunna að vera gögn sem ekki hafa birst áður opinberlega. Þetta eru gögn sem efh.- og viðskn. fékk í heimsókn sinni til Seðlabankans fyrir nokkrum vikum síðan. Afar gagnlegri og góðri heimsókn þar sem við áttum fund með Seðlabankanum um stöðuna í þessum málum og fengum m.a. ýmis gagnleg gögn um stöðuna á fjármagnsmarkaði, í peningamálum, vexti og annað því um líkt.
    Hér er ég sem sagt með yfirlit yfir uppboð á ríkispappírum alllangt aftur í tímann. Og hvernig er staðan á síðari hluta þessa árs? Hvernig hefur þetta gengið? Hún er sú að frá og með 8. nema vera skyldi 12. júlí sl. hafa engin húsbréf selst í frumútboði, engin ( Gripið fram í: Húsnæðisbréf.) húsnæðisbréf. Húsnæðisbréf. Nú verður að hafa rétt nöfn á hlutunum. Mönnum hættir stundum til að ruglast í allri þessari ,,tátólógíu``. En það er nefnilega þannig að hvert einasta útboð á húsnæðisbréfum síðan 12. júlí hefur verið fellt niður af þeirri ástæðu --- og þar á undan seldist sáralítið --- af þeirri ástæðu að engin kauptilboð sem standa undir nafni hafa borist. 12. júlí, útboð fellt niður á tíu ára, á 15 ára og 20 ára húsnæðisbréfum. 2. ágúst, útboð fellt niður, 16. ágúst, útboð fellt niður, 30. ágúst, útboð fellt niður, 13. sept., útboð fellt niður, 27. sept., útboð fellt niður, 4. okt., útboð fellt niður og 18. okt., útboð fellt niður. Og síðan hefur

þetta ekki verið reynt.
    Þetta voru nú húsnæðisbréfin. Og þá kemur að spariskírteinum ríkissjóðs, þ.e. hinum hefðbundnu spariskírteinum til lengri tíma en 24 mánaða, fimm og tíu ára bréfum. Jú, þau seldust framan af árinu meðan Seðlabankinn hafði andrúm til þess að éta þau og hlóðust þar upp. En hvað hefur gerst síðan? Jú, 10. ágúst er fellt niður útboð á tíu ára skírteinum, seljast ekki lengur. Þá selst að vísu svolítið af fimm ára bréfum. 7. sept. er fellt niður útboð af tíu ára bréfum, seljast ekki. Smáræði selst af fimm ára bréfum. 12. okt., útboð fellt niður á fimm ára bréfum og tíu ára bréfum. ( ÓRG: Það er búið að leggja markaðinn niður.) 26. okt., útboð fellt niður. 9. nóv., útboð fellt niður, útboð fellt niður og hefur ekki verið reynt síðan.
    Sem sagt tekur með öllu fyrir sölu á húsnæðisbréfum í fyrri hluta júlímánaðar og hafa síðan ekki selst og í byrjun september tekur fyrir sölu á ríkisskuldabréfum. Það eina sem selst í einhverjum mæli nú síðustu dagana eru erlendu veðbréfin, ECU-tengdu bréfin, sem eru í eðli sínu eins og erlend verðbréf hvað viðmiðunina snertir.
    Ofan í kaupið falla svo niður af og til á síðari hluta ársins útboð á ríkisbréfum, til að mynda falla niður útboð á ríkisbréfum til eins til tveggja ára, 22. júní, 17. ágúst og 14. sept. Og meira að segja 12 mánaða ríkisvíxlar seljast ekki 2. nóv. sl., útboð fellt niður. Þessi þróun er því komin niður í skammtímapappírana. Það eina sem gengur núna síðustu dagana, í síðari hluta nóvembermánaðar, eru þriggja mánaða ríkisvíxlar, algjörir skammtímapappírar og eitthvað smáræði sem selst af ECU-tengdum bréfum, sem menn eru sennilega aðallega að kaupa í reynsluskyni til að máta það aðeins. Þetta er nú staðan, hæstv. forseti, með þeim afleiðingum að fjármögnunarkerfi t.d. byggingarsjóðanna, húsnæðismála, hrynur. Og þeir hafa verið algjörlega upp á ríkissjóð komnir sem hefur beitt heimildum sínum í gegnum Lánasýsluna til að taka lán og endurlána Húsnæðisstofnun.
    Þetta er nauðsynlegt að rekja, hæstv. forseti, til þess að gera mönnum grein fyrir því hvernig staðan er þegar hrint er úr vör með ný lánsfjárlög og nýja lánsfjáráætlun, ný plön um innlenda fjármögnun og allt þetta fínerí. Þá er þetta nú svona. Að ógleymdu því að þessi staða er órjúfanlega tengd þeim aðstæðum í vaxtamálum sem hanga að nokkru leyti á spýtunni.
    Við þessum hlutum var reyndar, hæstv. forseti, sérstaklega varað í nál. minni hluta efh.- og viðskn. frá 15. des. 1993. Ég tel rétt að láta það koma fram svona til þess að geta nú stundum samhengis hlutanna að það var alveg sérstaklega varað við því í okkar nál. í fyrra að þessar áætlanir væru byggðar á sandi. Það væri því miður stórkostleg hætta á því að þetta gengi ekki eftir eins og menn ætluðu sér. En trú manna var slík á handleiðsluna og á frelsið og þetta fínerí að menn lögðu gallharðir upp með að þetta ætti allt saman að blessast. Hæstv. fyrrv. félmrh. beitti sér sérstaklega í því að segja upp samningum við lífeyrissjóðina um samningsbundna fjármögnun í húsnæðismálum sem að mínu mati eru einhver mestu afglöp sem menn hafa lengi gert í þessum efnum, að missa algjörlega út úr höndunum samninga við langstærsta fjármagnseiganda landsins, þann eina sem á ráðstöfunarfé sem einhverju nemur, 40 milljarða, lífeyrissjóðina. Nei, nei, markaðurinn var svo fínn og frelsið svo dýrlegt í þessum efnum að það var horfið frá því að ganga til samninga um reglubundna þátttöku lífeyrissjóðanna í þessari fjármögnun. Og ætli menn séu betur settir fyrir vikið eða hvað? Það er nú trúlegt. Já, já, ég hugsa að fjmrh. kinki kolli fram í rauðan dauðann. Þó hann yrði að fara að gefa út gúmmítékka úr eigin hefti þá mundi hann samt telja að þetta væri allt á uppleið. (Gripið fram í.) Já. Nei, hæstv. forseti, þetta er alveg ótrúlegt.
    Í nál. er á bls. 4 tafla sem á sér nokkuð skondna sögu, svo ekki sé nú meira sagt. Ég held það sé rétt að rekja það aðeins fyrir hv. þm. svona til gamans um vinnuaðstæður þarna inni að ég hafði óskað eftir því og við fleiri í efh.- og viðskn. að fá yfirlit yfir það á blaði hvernig lántökur ríkissjóðs hefðu gengið fyrir sig á árinu, heildarlántökur og fjármögnun ríkissjóðs. En þær tölur fengust ekki. Og meiri hlutinn heimtaði að málið yrði afgreitt út úr nefnd í fyrrakvöld. Og það mun hafa verið einhvern tíma . . .   ( Gripið fram í: Í gærkvöldi.) Já, í gærkvöldi. Maður er náttúrlega farinn að missa úr sólarhringa í þessu ati öllu. ( Fjmrh.: Eins og heyra má.) Eins og heyra má, já, þakka þér fyrir þessa vinsamlegu athugasemd, hæstv. fjmrh., þú ert að leggja gott til málanna eins og venjulega. Það er gott að vita að þú hefur ekki breytt um eðli á síðustu dögunum. Það væri mikið hryggðarefni okkur sem þekkjum þig vel ef þú tækir nú upp á því að vera einhvern veginn öðruvísi, ( Fjmrh.: Hæstv. ráðherra.) Hæstv. ráðherra.
    ( Forseti (KE) : Hæstv. ráðherra og forseti vill einnig benda hv. þm. á hvernig þingmenn og ráðherrar eru ávarpaðir og það er ekki gert ráð fyrir að ávarpa í 2. persónu.)
    Nei. En hvernig eiga ráðherrar að ávarpa þingmenn í frammíkalli, hæstv. forseti?
    ( Forseti (KE) : Það á ekki að vera með frammíköll.)
    Nei og eiga þeir þá ekki að nota titla, hæstv. ráðherrar, ef þeir eru að kalla fram í? En það er nú þannig, hæstv. forseti, svo við höfum þetta allt rétt og tek ég þó fram að mér finnst alltaf heldur óviðurkvæmilegt þegar forseti er ávarpaður virðulegur forseti því auðvitað erum við öll virðuleg, hv. þingmenn. En forsetinn er hæstvirtur eins og kunnugt er. ( Fjmrh.: Misjafnlega þó.) Það kann að vera en hæstv. fyrrv. forseti sameinaðs þings, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, vildi gera skýran greinarmun á þessu tvennu og ætlaðist til þess að hann yrði jafnan ávarpaður hæstv. forseti og var það gert. ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.)
    En þannig er, hæstv. forseti, að ég ætlaði að fara að greina frá því hvernig tafla þessi á bls. 4 er til komin þegar nokkur truflun varð á fundinum. Það er sem sagt þannig að undir kvöld mánudagsins 19. des., sem að bestu manna yfirsýn mun hafa verið í gær, þá höfðu engar upplýsingar komið fram um þetta

efni. Og þess var krafist að þær kæmu fram áður en málið yrði afgreitt úr nefnd. Þá var brugðið á það ráð að það var komið á símsambandi upp í fjmrn. og einn af starfsmönnum ráðuneytisins flutti munnlega gegnum síma tölur um þetta efni og voru þær skrifaðar niður. Og nú verður að vona að svo vel hafi tekist til að ekki skakki miklu í meðferð talna við þessar óvenjulegu aðstæður, en þannig er nú yfirlit þetta um lántökur ríkissjóðs á árinu sem er að líða til komið. Og held ég að þetta sé nokkuð í óvenjulegri kantinum. En ég treysti því að þessar tölur séu í grófum dráttum réttar og gefi alla veganna sæmilega mynd af því hvernig þetta hefur gengið fyrir sig og þá mynd er nauðsynlegt að hafa.
    Það er sem sagt þannig, hæstv. forseti, eins og þingmenn geta e.t.v. séð á þessu blaði að erlendar lántökur í heild eru 20,5 milljarðar, erlendar lántökur ríkissjóðs það sem af er árinu 20,5 milljarðar. Þar af hafa farið í afborganir erlendra lána 9,5 milljarðar. Mismunurinn er þá erlend lántaka ríkissjóðs nettó það sem af er upp á 11 milljarða kr. Spariskírteini ríkissjóðs, á meðan þau seldust, náðu því að seljast upp á 9,5 milljarða en innlausn á móti voru 4,5 milljarðar. Tekjuöflun ríkissjóðs nettó út úr þessari sölu eru 5,5 milljarðar. Skammtímabréf ríkissjóðs, sem er nýr flokkur, seldust fyrir 3,4 milljarða, innlausn engin þannig að tekjuöflun nettó eru þessir 3,4 milljarðar. Ríkisvíxlar seldust hins vegar upp á mínus 3 milljarða, þ.e. það vantar 3 milljarða upp á að ríkisvíxlastabbinn, sem mun, ef ég man rétt, hafa verið upp á einhverja 17,6 milljarða, héldi verðmæti sínu. Hann rýrnaði um 3 milljarða vegna þess að meira kom til innlausnar en seldist og tekjuöflun er því neikvæð um 3 milljarða. Ef síðan er bætt við afborgunum annarra innlendra skuldbindinga ríkissjóðs eða lána upp á 1,7 milljarða þá er þetta í grófum dráttum komið þannig að brúttó lántökur eru upp á liðlega 30 milljarða og afborganir upp á 18. Niðurstaðan er nettó lántaka ríkissjóðs upp á u.þ.b. 15 milljarða þar af 11 erlendis. Þetta er í grófum dráttum myndin. Og þetta er ríkissjóður sem hér er verið að tala um.
    Það er því alveg ljóst, hæstv. forseti, að áform um innlenda fjármögnun hafa brugðist og ríkissjóður hefur að langmestu leyti orðið að reiða sig á erlendar lántökur. Þetta hljóta að vera mönnum nokkur áhyggjuefni, hæstv. forseti, nema við fáum kannski að heyra aftur ræðuna hjá hæstv. fjmrh. um að það sé úrelt og ekki í tísku lengur að vera að hafa áhyggjur af því hvort skuldasöfnun þjóðarbúsins, ríkissjóðs þar með talin, fer fram erlendis, innan lands eða hvort hún er að eiga sér stað yfir höfuð sem auðvitað ætti að vera aðalumræðuefnið.
    Nei, hæstv. forseti. Það er sama hvar borið er niður í þessum efnum að þá verður lítið úr glansmyndinni um hinn glæsta árangur og mikla bata, a.m.k. á þessu sviði. Því að það er svo sannarlega ekki þannig að hann sé í ríkisfjármálunum og hann sé í efnahagslífinu og það sé efnahagsstefnan sem sé að skila árangri. Þar er allt á kolgræna kafi. Það er hins vegar íslenskur sjávarútvegur sem eina ferðina enn er að sýna hvað í honum býr um þessar mundir og skila stórauknum verðmætum inn í þjóðarbúið. Og það er þar sem batamerkin eru eða á grundvelli þeirra sem staðan er skárri en áður var talið en ekki vegna fjármálasnilldar hæstv. fjmrh. Það verður að hafa alveg á hreinu. ( HÁ: Það er kvótakerfið.) Ég veit ekki hvort það er kvótakerfið á Reykjaneshrygg eða í Smugunni, hv. 1. þm. Austurl. Þó ég viti að hv. þm. hafi mikla náttúru til þess að eigna kvótakerfinu allt sem jákvætt er í henni veröld þá er ég ekki viss um að það sé sanngjarnt að skrifa til að mynda stórauknar veiðar Íslendinga í Smugunni og annars staðar á úthafinu jákvæðu megin á reikning kvótakerfisins.
    En svona er staðan hvað varðar hinn innlenda fjármagnsmarkað, hvað varðar fjármögnun ríkissjóðs og húsnæðislánasjóðanna og hvað vaxtamálin snertir. Það er eins og ég segi, hæstv. forseti, þannig að vextirnir hafa verið stanslaust á uppleið núna nærfellt í heilt ár. Ég held að það sé fróðlegt fyrir hv. þm., svo ég leyfi mér enn að tíunda ágæti þessara gagna sem við fengum frá Seðlabankanum, að líta m.a. í töflur um vaxtamál. Ég sé að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er að lesa Hagtölur mánaðarins. Ég held að þetta séu miklu merkilegri plögg sem ég veit að hann á að vísu um vexti o.fl. frá Seðlabankanum. Og ég bendi mönnum til að mynda á línurit á bls. 11, hæstv. forseti, um skammtímavexti á árabilinu 1991--1994 og langtímavexti á sama tíma hins vegar. Það er afar fróðlegt fyrir menn að sjá til að mynda hvernig vaxtamálin hafa gengið fyrir sig í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. fjmrh. hann er viðkvæmur fyrir ýmsum hlutum. Og eitt af því sem ég veit að honum er voðalega sárt um að menn séu að tala um er vaxtahækkunin mikla í maí og júní 1991 þegar hæstv. fjmrh. beitti sér sjálfur sérstaklega fyrir því að hækka vaxtastigið í landinu, vaxtagólfið í landinu um liðlega fimmtung, nærfellt fjórðung.
    En hvað segja þessi línurit frá Seðlabankanum? Þau sýna það algjörlega svart á hvítu, hæstv. fjmrh., hvað gerðist. Ríkispappírarnir æða hér upp og í kjölfarið sigla verðtryggð bankalán og aðrir langtímavextir. Það verður risastökk í vöxtum á þessum tíma og vaxtastigið helst uppi í 9--9,5 og liðlega það á verðtryggðum lánum í bankakerfinu allt fram á síðustu mánuði sl. árs. Þá eru að vísu vextirnir keyrðir niður með handafli og síðan reynt að halda þeim þar með afli Seðlabankans en það tekst þó ekki betur en svo að strax í janúarmánuði á þessu ári, strax í janúar 1994 byrja bankavextirnir að hækka og hafa hækkað síðan. Og auðvitað er það ískyggilegt hvernig langtímaávöxtun í bankalánum hefur þróast á þessu ári og skuggalegt, sérstaklega þegar það er haft í huga, og það skal þó viðurkennt, að það hefur dregið í sundur með bönkunum í þessu efni og spariskírteinum og húsbréfum. Það hefur þó þrátt fyrir allt eðlilega með þessum handaflsaðgerðum tekist að halda vaxtastiginu nokkuð niðri hér á þessum tveimur meginflokkum enda hafa þeir verið undir vaxtaþaki. Ávöxtunarkrafan hefur þó hækkað og viðskipti á eftirmarkaði hafa

auðvitað endurspeglað það, sérstaklega á það við um húsbréf sem eru í umferð.
    En vaxtaþróunin að öðru leyti er svona. Hún er á fullri ferð upp á leið og núna síðustu mánuðina og vikurnar má náttúrlega taka m.a. til marks um það þróunina í bæði vaxtaákvörðunum bankanna og að nokkru leyti í vaxtaákvörðunum Seðlabankans sem er upp að vissu marki sprungin á því að reyna að halda niðri vöxtum eins og ríkisstjórnin ákvað að þeir skyldu vera.
    Ég held, hæstv. forseti, að það sé líka ástæða til að líta á bls. 12 í nál. og fara þar aðeins yfir tölur sem eru einnig mjög lýsandi um þessa stöðu. Það eru kröfur Seðlabankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir. Og það er athyglisvert til að mynda að taka níuna dálkinn sem eru nettó kröfur á ríkið af því að hæstv. ríkisstjórn hefur talað svo mikið um ábyrgðarleysið á árinu 1991 og hvað þetta hafi allt verið voðalegt þá. En staðreyndin er sú að kröfurnar núna eru miklu meiri en þær voru þá. Og það er til að mynda fróðlegt að sjá líka þessi súlurit, hvernig þetta hefur ætt áfram á síðustu mánuðum, hæstv. fjmrh. Þetta er kannski ekki allt alveg eins fínt og sumir vilja vera láta eða hvað? Ég er nefnilega ansi hræddur um ekki, því miður, hæstv. forseti.
    Margt fleira mætti tína til í þessum efnum og liggur svo sem fyrir af ýmsu tagi í gögnum sem gerir það að verkum að þessi glansmynd sem reynt hefur verið að draga upp á sér því miður ekki stoð. Ekki að því leytinu til a.m.k. og alls ekki hvað snertir stöðu ríkisfjármála og tök hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum. Þar er alveg ljóst að það er sú deyfð og sá hægagangur efnahagslífsins sem sigldi í kjölfar samdráttar og afturhaldsstefnu hæstv. ríkisstjórnar í anda frjálshyggjunnar sem hefur leitt af sér ýmiss konar samdráttar- og kreppueinkenni sem ríkisstjórnin er svo sjálf að slást við eða hefur lengst af verið. Vakti þar upp draug sem hún hefur ekki ráðið við með tilheyrandi atvinnuleysi og öðru slíku. Og nú á seinni hluta tímabilsins má þó kannski ekki síður segja að það sé algjör uppgjöf hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum og hallareksturinn á ríkissjóði sem setur þrýsting á vextina og veldur miklu um þessa stöðu. Um það eru flestir sammála. Við aðstæður eins og nú eru ætti þess vegna að vera tvöfalt kappsmál manna að reyna að draga úr þeim þrýstingi með öllum tiltækum ráðum. Og ég held að flestir efnahagsspekingar yrðu sammála um það ef á þá væri gengið.
    Nú ég hvet hv. þm., þá sem á annað borð hafa áhuga á eða nennu til þess að setja sig inn í þessi mál við afgreiðslu þessara frumvarpa að fara yfir þessi gögn. Þau eru um margt mjög fróðleg og auðvitað má benda á ýmislegt fleira eins og desemberhefti Hagtalna mánaðarins, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er nú að lesa í salnum, og skýrslu Seðlabankans frá 2. nóv. sl. o.fl. Sumpart er það þó þannig að þau gögn sem hæstv. ríkisstjórn reiddi fram við framlagningu þessara mála í haust eru orðin úrelt. Ég hló t.d. að því í nótt þegar ég sá það, hæstv. forseti, ég var auðvitað að skemmta mér við að lesa þetta í nótt þegar ég var að undirbúa nál., að í grg. með frv. til lánsfjárlaga eru á bls. 4 þegar úreltar upplýsingar um ríkisfjármál. Því þar er verið að miklast af því að spariskírteini ríkissjóðs seljist nú með 5% vöxtum. Þar eru það taldar alveg gagnmerkar upplýsingar en það er bara því miður úrelt, hæstv. fjmrh. Þau gera það ekki lengur og hafa reyndar ekki gert frá því u.þ.b. að þessi orð hafa verið sett á prent í lok septembermánaðar sl., eða hvenær það nú var nákvæmlega sem frv. til lánsfjárlaga kom hér fram, en það var væntanlega byggt á þeim hinum sama grunni og fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun sem voru lögð fram í byrjun þings.
    Hæstv. forseti. Ég vil svo að lokum þessarar framsögu fyrir nál. minni hlutans ítreka á nýjan leik þá óvissu og þær aðstæður sem eru við afgreiðslu málsins, bæði varðandi það sem áður var nefnt um 1. gr. lánsfjárlagafrv. þar sem niðurstöðutölur liggja ekki fyrir, um þessa fullkomnu óvissu á hinum innlenda fjármagnsmarkaði og hvað vaxtaþróunina snertir. Ég vil geta þess að miklir lántökuliðir eins og til að mynda málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar vannst ekki tími til þess að fara yfir. Reyndar bárust þær furðulegu fréttir til efh.- og viðskn. að utanrrn. hefði, ég segi nú ekki neitað að koma á fund nefndarinnar, en ekki séð sér það fært þegar eftir því var óskað til þess að gefa upplýsingar um þá stöðu. Verður að treysta því að það hafi verið vegna þess að annríkið sé svona ofboðslegt í utanrrn. að þeir nái bara með engu móti að bregða sér þessa bæjarleið frá Hlemmi, eða hvar það nú er sem þeir eru til húsa núna, og niður í Þórshamar. En það verður alla vega að bíða betri tíma og eru það þó litlar 1.980 milljónir sem á að taka að láni til að skuldbreyta óráðsíunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Og hafi nú einhvern tíma verið gjaldfallinn kosningavíxill þá er það þessi gamli frá 1987. Hann er aldeilis kominn á gjalddaga, kosningavíxill þeirra höfðingjanna þá. En eins og kunnugt er þá hefur ekki verið tekið á þessum málum allt frá þeim tíma að þar var eytt hrottalega um efni fram til þess að pína það fram með góðu eða illu og aðallega með illu að unnt yrði að opna flugstöðina fyrir kosningar svo menn gætu montað sig af því sem voru í framboði á Reykjanesi og látið mynda sig framan við flugstöðina. ( VE: Það eru nú svo sem fleiri víxlar svo sem eins og Hríseyjarferjan.) Nú kallar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson eitthvað fram í sem ég heyri ekki glöggt, hæstv. forseti, og er örugglega mjög málefnalegt og merkilegt innlegg í umræðuna. ( StB: Þú vilt alls ekki heyra það.) Ég er alveg til í að heyra það ef hv. þm. vill endurtaka það. Eins getur hv. þm. komið upp í ræðustólinn og staðið fyrir frammíkallinu og rætt það og rökstutt hvað hann á við ef það er verið að leggja hér að jöfnu einhverja sambærilega hluti.
    Ég tel líka, hæstv. forseti, að það sé rétt að það komi hér fram að nefndinni vannst ekki tími til og/eða sá í sumum tilvikum reyndar ekki ástæðu til að kalla alla þessa aðila fyrir sig, sem oftast hefur þó verið gert, sem hér eiga hlut að máli. Það var einkum ákveðið að kalla í þá aðila þar sem ætla mætti að

umtalsverðar breytingar væru á ferðinni eða nýmæli væru að eiga sér stað og má þar til að mynda nefna Stofnlánadeild landbúnaðarins vegna þeirra skuldbreytinga sem standa fyrir dyrum hjá bændum o.s.frv. En auðvitað eru þarna líka á ferðinni liðir sem svo sem fullkomin ástæða væri til að fara betur ofan í saumana á og hefði einhvern tíma verið gert við aðrar og betri aðstæður.
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, láta þess getið að við þessar aðstæður má segja að af sjálfu leiði að til þess getur komið að minni hlutinn í efh.- og viðskn. áskilji sér rétt til þess að skila framhaldsnál. við þetta mál þegar fyrir liggur endanlega niðurstöðutala lánsfjáráætlunar og fyrstu greinar frv. með því að niðurstöðutölur tekna og gjalda í fjárlagafrv. séu fram komnar og sömuleiðis aðrir þeir þættir hafa verið kannaðir sem eftir eru og hér hafa verið nefndir.
    Að lokum, hæstv. forseti, er það svo okkar niðurstaða, og ég þykist hafa rökstutt það hér, að það sé óhjákvæmilegt að ítreka gagnrýni á losaraleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hvað varðar alla stjórn efnahagsmála og lýsa ábyrgð á þessum efnum, sérstaklega hallarekstri ríkissjóðs, skuldasöfnun og óvissu og upplausn á innlendum fjármagnsmarkaði, á hendur ríkisstjórninni og mislukkaðri stefnu hennar í efnahagsmálum.
    Minni hlutinn vísar því allri ábyrgð á afgreiðslu málsins á hendur ríkisstjórninni og mun sitja hjá við afgreiðslu þess. Og þetta er gjört á Alþingi 20. des. 1994, hæstv. forseti, og undir nál. rita Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Finnur Ingólfsson.