Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 22:42:45 (2970)


[22:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :     Virðulegi forseti. Hv. þm. reynir að draga upp mjög dökka mynd af ástandinu en eftirfarandi atriði blasa þó við samkvæmt gögnum sem hann leggur sjálfur fram: Í fyrsta lagi: Fjárlög á næsta ári eru afgreidd með 7,4 milljarða halla. Það er 2 milljörðum minni halli en á fjárlögum yfirstandandi árs. Hallinn á yfirstandandi ári samkvæmt fjárlögum átti að vera 9,6 milljarðar. Það stefnir í það í fyrsta skipti að hallinn verði undir fjárlagatölunni. Í þriðja lagi hefur komið í ljós að það er viðskiptaafgangur en ekki gífurlegur viðskiptahalli eins og var 1991. Sá viðskiptahalli var þá skattlagður og útvegaðar tekjur í ríkissjóð. Nú er verið að greiða niður erlendar skuldir þjóðarinnar í fyrsta skipti í langan tíma og líkast til þrjú ár í röð. Aðalatriðið er þó það að bæði tekjur og gjöld hafa farið minnkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
    Og loks það sem hv. þm. sleppti að tala um þegar hann ræddi um vextina að þessar myndir sem koma fram í hans eigin gögnum og hann fékk hjá Seðlabankanum sýna svo ekki verður um villst að vextir af húsbréfum og spariskírteinum á Verðbréfaþingi Íslands eru mun lægri nú en á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar. Ef menn vilja vera sanngjarnir í málflutningi kemur í ljós að það er engin leið, þrátt fyrir það sem hv. þm. reynir aftur aftur og aftur, að koma í veg fyrir það að fólk sjái að um bata er að ræða og gífurlegan árangur.