Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 23:14:24 (2975)


[23:14]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýddi af athygli á ræðu hv. formanns efh.- og viðskn., Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar. Ég vil taka það fram vegna þess að hann segir að vinna nefndarinnar hafi öll verið í skötulíki en það er ekki honum að kenna sem formanni nefndarinnar, hann hefur gert sitt besta til þess að vinna vel og stýra nefndinni í gegnum þessa erfiðu tíma sem nefndin hefur verið að vinna í.
    Ég vil hins vegar vekja athygli hans á því að eitt grundvallaratriðið varðandi fjármagnsmarkaðinn og stöðuna þar núna er að við erum með viðskiptajöfnuð í afgangi sem hefur skapað algjörlega nýjar forsendur til jafnvægis á fjármagnsmarkaðnum. Vextirnir hafa lækkað og það sem menn eru að tala um að þeir geti sveiflast upp og niður eru nú ekki stórar og háar fjárhæðir. Það er athyglisvert að lífeyrissjóðirnir hafa stórt séð á þessu ári verið að kaupa sama magn af skuldabréfum af opinberum aðilum, bæði ríkissjóði, ríkisstofnunum, bæjar- og sveitarfélögum og fjárfestingarlánasjóðum, en þeir hafa líka verið að feta sig inn á það að lána erlendum aðilum peninga, þ.e. að kaupa erlend verðbréf. Og fjármagnsmarkaðurinn er að breytast mikið í þá átt að innlendir aðilar eru farnir að lána útlendingum peninga og þess vegna er ekki ástæða til þess að hafa sambærilegar áhyggjur af því hvort að lán ríkissjóðs eru innlend eða erlend eins og kannski áður var þegar fjármagnsmarkaðurinn var allur hólfaður niður og ekki eins frjáls og hann er í dag.
    Ég vil líka vekja athygli hv. þm. vegna áhyggna hans af stórri innlausn skuldabréfa núna eftir áramótin að slík innlausn kallar einmitt líka oft á mikla eftirspurn eftir nýjum pappírum vegna þess að þeir sem eru að fá peningana í hendur, sem eru að leysa inn sín bréf, þeir þurfa að koma þeim einhvers staðar í lóg. ( ÓRG: Þeir fara með þá beint út.)