Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 23:23:35 (2979)


[23:23]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu var afgreitt út úr hv. efh.- og viðskn. rétt fyrir kl. 10 í gærkvöldi, ( JGS: Með handafli.) með handafli, já, svo að það hefur ekki gefist mjög mikill tími til þess að undirbúa þessa umræðu, reyndar ekki frekar en aðrar umræður sem hér hafa verið undanfarna daga og reyndar eru fram undan. En hvað um það, við höfum verið að fara yfir þessi mál í hv. efh.- og viðskn. og þar hafa komið fram margar mjög athyglisverðar upplýsingar. En áður en ég vík að málinu sjálfu þá vil ég aðeins koma nánar inn á vinnubrögð og stöðuna í þinginu sem hlýtur að valda okkur nokkrum áhyggjum.
    Það líður nú að miðnætti þegar við erum í miðjum klíðum með 2. umr. um lánsfjárlög fyrir 1995. Og eins og ég sé það þá er gríðarlega mikil umræða eftir um ríkisfjármálin. Hvort sem menn reyna að ná samkomulagi og stytta mál sitt, þá verður ekkert hjá því komist að ræða þessi mál nokkuð ítarlega. Og þannig er nú staðan, frú forseti, að jafnvel í þessu máli var ákveðið efnisatriði skilið eftir sem við þurfum að kanna á milli 2. og 3. umr. og ég ætla reyndar að koma að því á eftir. Þannig að öll sú vinna sem hér fer fram einkennist af því hvað mál ríkisstjórnarinnar hafa komið seint fram og því hve mikill hraði hefur verið í vinnunni í þessum málum og hefur kostað nokkur átök í nefndinni þegar maður hefur það svo sterklega á tilfinningunni að það sé verið að keyra málin í gegn og þau séu ekki skoðuð almennilega og það er erfitt að fá einhverja yfirsýn yfir málin í heild. Það leiðir okkur einmitt að því að enn er ekki einu sinni komin niðurstöðutala í þetta frumvarp, við höfum ekki einu sinni niðurstöðutöluna, ekki frekar en í halla ríkissjóðs á þessu ári eða þá tölu sem menn ætla að setja fram sem spá um halla næsta árs.
    En það er nokkur ástæða til þess að ræða útkomu ársins sem nú er að renna sitt skeið á enda en í nefndinni höfum við einmitt farið yfir spár Þjóðhagsstofnunar og útreikninga fjmrn. í framhaldi af þeirri spá. Myndin af þessu ári er að skýrast og þær niðurstöður sýna að útkoma ársins er miklu betri eða nokkuð betri en menn höfðu reiknað með. Þar ræður auðvitað að ýmislegt hefur gengið betur en búist var við, tekjur ríkissjóðs hafa aukist töluvert umfram það sem spáð hafði verið og það ræðst fyrst og fremst af því að veiðar hafa verið meiri en gert var ráð fyrir, bæði á loðnu og það sem veiddist í Smugunni, og einnig hefur verð á ýmsum útflutningsvörum farið hækkandi. Ég nefni þar t.d. rækju og einnig hefur álverð farið hækkandi þannig að hér hafa margir þættir spilað saman og leitt til þess að tekjur ríkissjóðs verða meiri á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir. Það leiðir til þess að hallinn á árinu 1994 eykst ekki jafnmikið og t.d. við í stjórnarandstöðunni spáðum fyrir síðustu jól.
    Það ber auðvitað að fagna þessari þróun en það breytir ekki því að ég held að menn þurfi að fara varlega í það að spá fyrir næsta ár. Og eins og Þjóðhagsstofnun bendir á í sinni úttekt þá eru mjög stórir óvissuþættir sem geta gjörsamlega breytt þessari mynd og orðið til þess að sá efnahagsbati sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera út á í aðdraganda kosningabaráttunnar skili sér ekki. Nú verð ég að segja það að ég vona svo sannarlega að hann geri það því að það veitir nú ekki af að byggja upp í okkar þjóðfélagi og að útrýma því atvinnuleysi sem hér hefur ríkt um árabil og að við snúum okkur í alvöru að því að skapa vinnu til frambúðar í okkar samfélagi og reynum að leysa þann stóra vanda sem ég lít á sem langstærsta viðfangsefni íslensks samfélags, að ráða fram úr því við hvað fólk á að vinna hér á landi í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið, bæði samdráttar í afla og tæknibreytinga og fleiri atriða sem verða til þess að störfum fækkar.
    En þessir óvissuþættir sem Þjóðhagsstofnun bendir á og við höfum svo sem bent á í umræðum um ríkisfjármálin á þessu hausti eru í fyrsta lagi óvissan hvað varðar fiskveiðar bæði innan og utan landhelgi.

Þjóðhagsstofnun bendir á að bæði hafa nýlegar mælingar á loðnustofninum kveikt efasemdir, eins og þeir segja, um að stofninn sé jafnsterkur og menn höfðu áður spáð, og eins benda þeir á það að ár eftir ár hefur verið farið langt fram úr ráðleggingum fiskifræðinga. Og við höfum einmitt glænýtt dæmi um það að einn af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, einn helsti sérfræðingur stofnunarinnar í þorskveiðum, hefur bent á hve þessar veiðar hafa farið mikið fram úr því sem leyft hafði verið. Og þetta vekur spurningar um stöðu þorskstofnsins og hvað hann þoli. Þeir benda einnig á að þarna kann að koma á móti bæði sókn í nýja stofna og eins t.d. mikill rækjuafli. En þá ber líka að benda á að sú hækkun sem orðið hefur á rækju kann að vera tímabundin, alla vega hefur það komið fram í fréttum að sú hækkun á m.a. rætur að rekja til sjúkdóma sem herjað hafa á eldisrækju í Asíu og það vandamál verður nú áreiðanlega leyst fyrr en síðar af þeim klóku viðskiptamönnum sem þar eru. Þannig að veiðarnar bæði innan landhelgi sem utan eru alltaf óvissuþáttur í íslensku efnahagslífi.
    Síðan benda þeir á verðlagið á sjávarafurðum sem bæði getur hækkað meira en spáð hefur verið og eins getur það lækkað. Síðan er það atriði sem kannski ríkir nú hvað mest óvissa um á þessu augnabliki en það eru þeir kjarasamningar sem fram undan eru. Eins og þau mál horfa núna þá virðist nú stefna í veruleg átök á vinnumarkaði þó að það sé erfitt um það að spá og spurningin er sú hvaða leiðir menn finna út úr þeim vanda. En eins og hér hefur komið fram að þá telja menn að sá boðskapur sem ríkisstjórnin hefur látið frá sér fara, bæði í skattamálum og öðru, dugi skammt til þess að auka líkur á friðsamlegum kjarasamningum.
    Í kjölfar þessarar endurskoðuðu spár Þjóðhagsstofnunar hefur fjmrn. farið ofan í tekjuáætlanir ríkisins sem hafa áhrif á lánsfjárþörfina. Það er spurningin hvort menn fara varlega í að spá eða hvort að menn eru að gefa sér of mikið en þessar niðurstöðutölur benda allar til að óhætt sé að gefa sér heldur meiri tekjur en menn höfðu reiknað með. En þetta verður allt að koma í ljós og eins og ég nefndi þá veltur þetta líka á útkomunni úr skattadæminu sem við erum að fást við akkúrat þessa dagana og ekki síður þróuninni á lánsfjármarkaðnum eins og hefur verið rakið í þessari umræðu.
    Sú stóra spurning vaknar hvað á að gera við þennan efnahagsbata ef hann skilar sér. Eins og kemur fram í nál. minni hluta efh.- og viðskn. þá verður ekki betur séð en að hann sé nú gripinn jafnóðum og ausið út í ýmsar áttir og einkum til þeirra sem betur mega sín. Það er verið að slaka út hundruðum milljóna í þeim frumvörpum sem við höfum til meðferðar, t.d. í skattamálum og eins í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er verið að slaka mjög mikið á í ríkisfjármálunum og þarf ekki að endurtaka umræður um skuldastöðu ríkissjóðs og þann mikla vanda sem þar er við að glíma. Þar með erum við komin að því efni sem hér er til umræðu, þ.e. lánsfjárþörf ríkissjóðs og þær lántökur sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir og þá spurningu hvaða áhrif lánsfjárþörf ríkisins hefur á vexti og eftirspurn eftir lánsfé í landinu.
    Nú hefur það gerst að ríkissjóður sem hefur á undanförnum árum verið langsamlega stærsti lántakandinn á markaðnum fær má segja stöðugt vaxandi samkeppni. Lánsfjárþörf sveitarfélaga hefur aukist alveg gríðarlega. Og það er auðvitað mikið áhyggjuefni hvað stærstu sveitarfélögin í landinu standa illa, t.d. Reykjavík, Hafnarfjörður og Kópavogur. Þetta eru sveitarfélög sem hafa staðið í miklum fjárfestingum, verið á hálfgerðu fjárfestingarfylleríi og eytt um efni fram og voru ekki undirbúin undir það mikla tekjutap sem t.d. Reykjavík varð fyrir við það að aðstöðugjaldið var afnumið. Og það er staðreynd að Reykjavíkurborg hefur alls ekki fengið það bætt. Og hins vegar hefur samdrátturinn í þjóðfélaginu haft gríðarleg áhrif á fjármál þessara sveitarfélaga. Eins og ég hef nefnt áður þá er sú blákalda staðreynd frammi fyrir okkur að þeir peningar sem Reykjavíkurborg ver til félagslegrar aðstoðar hafa tvöfaldast núna á tveimur árum. Og þetta eru engir smápeningar sem sveitarfélögin eru að verja til félagslegrar aðstoðar, 530 millj. kr. á þessu ári hjá Reykjavíkurborg.
    Staða margra sveitarfélaga er erfið og leiðir til þess að vilji þau halda uppi atvinnu í sínum bæjarfélögum þá þurfa þau meira og minna að taka til þess lán. Jafnframt er verið að velta yfir á sveitarfélögin og reyna að sækja í þeirra vasa. Ég bendi t.d. á það sem fram undan er í skólamálum. Ef núverandi ríkisstjórn ætlar að keyra í gegn frv. til laga um grunnskóla þá kostar það sveitarfélögin milljarða til viðbótar því sem nú fer í rekstur grunnskóla. Það er sífellt verið að velta yfir á sveitarfélögin og ætlast til þess að þau standi undir framförum, atvinnusköpun og öðru án þess að þau fái til þess tekjustofna. Það er bara óleyst mál hvernig og hvort sveitarfélögin geta staðið undir þessu.
    Sennilega leiðir efnahagsbatinn til þess að fyrirtæki fari nú heldur að taka við sér og að fjárfesta og það gæti líka leitt til aukinnar eftirspurnar eftir lánsfé. En núverandi ríkisstjórn hefur reynt að skera niður lánsfjárþörfina hjá sér og hún hefur reynt að halda niðri vöxtum. En ég vil taka undir það sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 6. þm. Norðurl. e., að það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun vaxtamála og streymi peninga út úr landinu. Það er alveg ljóst að þessa mánuðina er ríkissjóður að fjármagna Húsnæðisstofnun í þeim tilgangi fyrst og fremst að halda vöxtum niðri. Það er bannað að hækka vexti á húsbréfum, húsnæðisbréfum og öðru því sem Húsnæðisstofnun er að bjóða til þess að fjármagna sína starfsemi. Og í ríkissjóð eru nú sóttir milljarðar króna til þess að fjármagna Húsnæðisstofnun.
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að víkja að einstökum liðum þessa frv. en það væri hægt að hafa langt mál um þessi vaxtamál og það hvað fram undan er í þeim en það er vissulega líka ástæða til þess að fara ofan í einstaka liði þessa frv. sem þeir sem hafa talað á undan mér hafa ekki gert að neinu ráði.

    Fyrst er að nefna Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég vil einmitt minna á í því sambandi þegar menn eru að tala um skuldir heimilanna og lánsfjárþörf heimilanna, sem hefur vaxið alveg gríðarlega, að á fundi efh.- og viðskn. í morgun var einmitt minnt á þessa nýju kynslóð skuldara sem kemur inn á næstu árum og eru þeir námsmenn sem verða með gríðarlega skuldabagga og mikla greiðslubyrði eftir þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn gerði á Lánasjóði ísl. námsmanna. Þeir sem núna eru að borga sín námslán finna töluvert fyrir þeim. Þeir sem eru með námslán í kerfinu sem var í gildi til 1992 á verðtryggingartímanum finna töluvert fyrir þessu. En þarna mun skapast mikill vandi á næstu árum.
    Mér barst í dag bæklingur frá lánasjóðnum þar sem er úttekt á lánamálum og þar kemur vel í ljós það sem við höfum verið að benda á í umræðunni að framlag ríkisins til sjóðsins hefur lækkað stórlega á undanförnum árum og það var tilgangur breytinganna. Jafnframt hefur lánasjóðnum verið vísað út á lánamarkaðinn í æ ríkara mæli. Og samkvæmt því sem hér kemur fram og samkvæmt frv. fyrir næsta ár er verið að veita heimild til þess að lánasjóðurinn taki rúmlega 4 milljarða kr. í lán. Á móti kemur 1.550 millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Reyndar hefur farið fram mikil endurskipulagning á sjóðnum og þeir hafa verið að breyta eldri skammtímalánum í lengri lán til þess að reyna að létta vaxtabyrði af sjóðnum. En við hljótum að spyrja okkur hvað af þessu kerfi muni leiða. Og hvað leiðir af því að vísa þessum sjóðum eins og námslánasjóði út á hinn almenna lánamarkað? Þetta er stefna núv. ríkisstjórnar en þetta verður allt saman miklu dýrara og kemur verr niður á þeim námsmönnum sem eru að taka lán hjá sjóðnum.
    Þá er hér nýtt fyrirbæri í lánsfjárlögum. Nú er hér kominn hinn margræddi og umdeildi Þróunarsjóður sjávarútvegsins sem fær heimild upp á 2.380 millj. kr. Það var fróðlegt að heyra í starfsmanni þess sjóðs um áætlanir í lánum sjóðsins og hvað þar er að gerast. --- Það eru svo miklir pappírar sem fylgja þessum málum að það er erfitt að finna þessa punkta. --- Samkvæmt því sem fram kom á fundi efh.- og viðskn. hefur verið sótt um lán til þess að úrelda u.þ.b. 10% af fiskiskipaflotanum. Það verður afar fróðlegt að sjá hvort það kemur fram sem menn spáðu í fyrra þegar umræðan stóð um þennan sjóð að hann yrði orðinn gjaldþrota innan tíðar. En þau lán sem hingað til hafa verið veitt eru þeir peningar sem komu úr Hagræðingarsjóði. Og það kom einnig fram að það hefur verið sótt um úreldingu á sex fiskvinnslustöðvum en enn þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort og hvernig verður við því orðið. Þarna er því að fara af stað enn einn sjóðurinn sem við vitum ekkert um hvernig muni þróast.
    Síðan er hér Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er nú það mál sem var frestað milli umræðna í efh.- og viðskn. vegna þess að fulltrúar utanrrn. gátu ekki komið á fund efh.- og viðskn. Ég gat ekki betur skilið en að þeir sem sjá um rekstur flugstöðvarinnar hafi hafnað því að koma á fund nefndarinnar. Þetta var mjög sérkennilegt. En þetta flugstöðvardæmi er líka eitt af þessu sem virkilega þarf að huga að því að eins og fram kemur í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 á bls. 358 þá eru þær tölur sem þar koma fram á þann veg að ekki verður betur séð en að þarna sé algjörlega óleysanlegt dæmi á ferðinni. Tekjur flugstöðvarinnar eru svo litlar að hún er rekin með halla en það eru að falla í gjalddaga gríðarleg lán og á næsta ári þarf að taka að láni 1.980 millj. kr. til þess að endurfjármagna eldri lán. Við vildum kalla fram upplýsingar um það hversu miklar skuldir flugstöðvarinnar eru, hvað er fram undan í því máli, en þær upplýsingar hafa ekki enn þá fengist. Þarna er mál sem vissulega þarf að skoða mjög rækilega.
    Ég vil einnig benda á það að við kölluðum ekki til Landsvirkjun en eins og við vitum þá er Landsvirkjun gríðarlega skuldugt fyrirtæki og er sífellt að taka lán til að borga eldri lán. Og það er líka nokkuð sem getur ekki gengið til eilífðar og kallar á endurskipulagningu á orkusölu og að hugað sé að því hvernig nýta má þá orku sem til er í landinu. Þar með er ég ekki að mæla með þeim stóriðjuáformum sem virðast vera að blossa upp rétt einu sinni en eru í og með orsök þeirra miklu skulda sem Landsvirkjun stendur frammi fyrir.
    Ég var búin að nefna Húsnæðisstofnun en hér er verið að taka mikil lán fyrir bæði Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, annars vegar til þess að fjármagna eldri lán en hins vegar er enn um það að ræða að Byggingarsjóður ríkisins er að lána til sérstakra verkefna og Byggingarsjóður verkamanna er auðvitað að fjármagna byggingu félagslegra íbúða en þeim fækkar nú um hundrað á næsta ári, m.a. vegna þess að það er skorið niður í félagslega húsnæðiskerfinu til þess að mæta húsaleigubótunum. Eins og ég nefndi áðan þá er staðan í Húsnæðisstofnun mikið áhyggjuefni vegna þess að það þarf að taka peninga beint úr ríkissjóði til þess að fjármagna þá stofnun.
    Fulltrúar Húsnæðisstofnunar voru spurðir um þessa 13 milljarða sem gert er ráð fyrir í frv. Og svörin voru þau, sem reyndar koma fram í athugasemdum, að mönnum er uppálagt að herða reglurnar til þess að þessir 13 milljarðar standist og verður fróðlegt að sjá hvernig það mál gengur.
    Þá vil ég líka að lokum, virðulegi forseti, nefna Stofnlánadeild landbúnaðarins sem er gert ráð fyrir að taki að láni 700 milljónir samkvæmt frv. Hér liggja fyrir tillögur til breytinga þannig að lántökurnar verða 1.600 millj. Þar liggja á bak við áform um skuldbreytingar til bænda, skuldbreytingar upp á 900 millj. kr., vegna hins alvarlega ástands sem ríkir í íslenskum landbúnaði. En það kom fram á fundi nefndarinnar að það er tillaga þeirra sem vinna hjá Stofnlánadeildinni að setja ströng skilyrði um þessar lánveitingar þannig að það standi þar veð að baki og að menn geti staðið undir þessum lánum. En það kom líka fram að 1984 fór fram gríðarleg skuldbreyting hjá bændum og það er spurningin hvort ekki þyrfti að skoða rækilega þá þróun sem þarna liggur að baki og það hversu vel bændur eru í stakk búnir til þess að skuldbreyta hjá sér og standa undir þessum lánum. Ég vil taka fram að 1984 var skuldbreytt hjá 700 bændum og það var gert með svokölluðum bankavaxtabréfum en það liggur ekki fyrir hversu margir bændur það eru núna sem geta nýtt sér þessa skuldbreytingu en því er ekki að leyna að staða margra bænda hefur versnað verulega.
    Virðulegi forseti. Það eru fleiri brtt. sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. leggur til við þessa umræðu og er svo sem ekkert sérstakt um þær að segja. Þar eru á ferð hitaveitur og ýmislegt sem er gamalkunnugt. Þó er hér nokkuð sérstakt mál sem er þannig vaxið að Vegagerðin er að taka yfir allar skuldir Hríseyjarhrepps vegna kaupa á ferjunni Sæfara. Þetta eru skuldir upp á u.þ.b. 100 millj. kr. og þá vakna spurningar hvort ekki sé um sama vanda að ræða víðar. En þetta er eitt af þeim málum sem komu inn á síðustu stundu og var lítið farið ofan í.
    Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í upphafi minnar ræðu liggur ekki enn þá fyrir niðurstöðutala þessa frv. og verður líklega ekki ljós fyrr en eftir að nefndin hefur komið saman milli 2. og 3. umr. Ef að líkum lætur á eitthvað fleira eftir að dúkka upp í þessari umræðu allri saman og ekki ólíklegt að eitthvað hafi gleymst í öllum látunum. En staðreyndin er sú að hér er um miklar lántökur að ræða. Í sumum atriðum er verið að fara út á eða halda áfram á nokkuð hálum brautum og hér eru ýmis mál sem ég hygg að komandi ríkisstjórn, hverjir sem hana skipa, þurfi að fara rækilega ofan í eins og það dæmi sem ég nefndi sérstaklega, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem var nokkuð ævintýri á sínum tíma og á eftir að verða þjóðinni dýrkeypt.
    En það er einnig ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun skuldamála ríkisins og af vaxtamálum eins og hér hefur komið fram. Það er áhyggjuefni hversu dregið hefur úr fjármögnun ríkisins á innlendum lánamarkaði og spurning hvað þar liggur að baki. Ég hygg að menn séu að halda að sér höndum og það kom m.a. fram á fundi efh.- og viðskn. með fulltrúum Seðlabankans að það hefur dregið mjög úr fjárstreymi úr landi á seinni hluta ársins. Það væri gaman að vita hvernig varaformaður hv. efh.- og viðskn. túlkar það hver ástæðan er fyrir því. Eru menn að halda að sér höndum eða hvað eru menn að hugsa í þeim málum? Eru menn að bíða eftir innlendri vaxtahækkun eða er einfaldlega búið að fylla mælinn í þeirri bylgju í bili?
    Framtíðin mun leiða í ljós hvernig þessi mál þróast en það er augljóst að það er mikil samkeppni um lánsfé og staða ríkissjóðs í þeirri samkeppni er engan veginn nægilega góð.