Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 23:55:33 (2980)


[23:55]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði um niðurstöðutölu A-hluta í fjárlögum þá var það rétt að ekki var komin niðurstaða sem kemur væntanlega inn í 1. gr. lánsfjárlaganna. Það skeikar reyndar ekki mjög miklu miðað við þá tölu sem liggur fyrir, sem er á tuttugasta og annan milljarð, en sú tala hækkar væntanlega um í kringum milljarð og nokkuð fyrirsjáanlegt hver talan nákvæmlega verður. Það er því ekki svo sem verið að tala um að sú breyting raski í einhverjum verulegum atriðum þeim forsendum sem verið er að vinna út frá.
    Það má líka segja sem svo að lánsfjárþörf hins opinbera í heild með þeirri breytingu sem þar verður gerð og öðrum þeim breytingum sem verið er að gera er að dragast saman miðað við það sem menn eru að reikna með að verði á þessu ári. Ríkissjóður í heild og ríkisstofnanir eru í sjálfu sér að stefna í jafnvægisátt á þessum markaði. Það er að sjálfsögðu ljóst að við lifum á miklum umbrotatímum á fjármagnsmarkaðnum. Það eru margir hlutir að gerast og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þótt það komi upp sú staða að ríkissjóður þurfi að fjármagna Húsnæðisstofnun um einhvern tíma meira en kannski hefur verið gert ráð fyrir, en ríkissjóður verður að taka þátt í þessum breytingum og haga seglum eftir þeim vindum sem blása á þessum markaði. Ég held að sá árangur sem hefur náðst á fjármagnsmarkaðnum sé í sjálfu sér ágætur og það ríkir á honum jafnvægi þegar á heildina er litið. Við erum að byggja upp eignir erlendis og greiða niður erlendar skuldir og það er það sem skiptir mestu máli.