Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 00:01:36 (2983)


[00:01]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að það þarf að taka á málum en það er verið að taka á þessu öllu upp á krít, þetta er allt með lánum. Við erum stöðugt að taka lán til að fjármagna okkar samfélag og það er sá vandi sem við þurfum fyrst og fremst að komast út úr, hvernig við getum dregið úr þessum lántökum. Leiðin til þess er ekkert síður að afla meiri tekna heldur en að leita fyrir sér á lánamarkaði og leita að hagkvæmum leiðum þar. Það er það sem þessi ríkisstjórn er ekki að gera. Hún er ekki að leita að leiðum til tekjujöfnunar. Hún er t.d. að leggja niður stóreignaskatt, sem fyrst og fremst kemur stóreignafólki til góða og það eru fleiri ráðstafanir í farvatninu sem við munum væntanlega ræða hér á næstu dögum sem fyrst og fremst ganga út á að færa þeim sem betur mega sín peninga. Þetta eru ekki leiðirnar til að taka á vandanum.