Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 00:02:56 (2984)




[00:02]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar við þennan merkilega ,,díalóg`` sem farið hefur fram hér í kvöld rétt á undan mínum orðum. Það er ekki hægt að segja annað en að það sé gott og blessað að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd sé heldur skárri en verið hefur. Það eru góðar fréttir og ýmsar góðar fréttir höfum við heyrt í kvöld. En við höfum líka heyrt afskaplega margt sem eru vond teikn og varhugaverð.
    Ég ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að þessum viðskiptajöfnuði sem við vitum að kemur t.d. af því að framkvæmdir eru nánast engar hjá okkur. Við fjárfestum ekkert og þar af leiðandi eyðum við engu í það. Það þýðir líka að atvinnuleysi vex. Þá erum við komin að hinum þættinum sem ég vildi benda á og undirstrika, að ein af ástæðunum fyrir því að viðskiptajöfnuður við útlönd er hagstæður er sá að hluti þjóðarinnar er svo örbjarga að hann getur ekkert keypt. Þar af leiðandi er ekkert flutt inn af því sem hann mundi annars kaupa. Hann er þar af leiðandi í vissri gildru. Hann fær ekki vinnu vegna þess að það eru engar fjárfestingar eða framkvæmdir og hann er komin á atvinnuleysisbætur sem eru við hungurmörk, eins og fólk sjálfsagt veit, 50--60 þús. kr. á mánuði. Þetta fólk er í slíkum vanda að það er eiginlega skammarlegt að vera að tala um að það sé einhver efnahagsbati hjá okkur vitandi það að á sama tíma er fé ausið í þá sem betur mega sín, eins og hinn frægi hátekjuskattur sem verið er að rýmka núna er dæmi um og annað dæmi um það sem við gerum ekki, þ.e. fjármagnstekjuskatturinn er ekki settur á, sem við hefðum auðvitað þurft að gera. Það er ekki hægt annað en að mótmæla þeirri fjármálastjórn sem svona fer að.
    Í annan stað getur almennur þingmaður, sem úti í sal hlustar á hv. nefndarmenn ræða hér af miklum vísdómi, ekki annað en lagt eyrun við því og rekið augun í það hvernig salan hefur verið að undanförnu á ríkisvíxlum og spariskírteinum ríkisins, að ríkið getur ekki selt spariskírteinin sín nema ECU-skírteinin sem eru með miklu hærri vöxtum heldur en hin. Þetta þýðir auðvitað að það eru þeir vextir sem fjármagnið á Íslandi í dag vill fá. Það eru líka þeir vextir sem fjármagnið á Íslandi er að bíða eftir að geta

eytt í og fengið úr eftir áramótin. Þess vegna held ég að þessir lágu vextir sem verið er að gorta pínulítið af hér í kvöld séu bara eins og hver önnur pótemkíntjöld, ekkert annað en fals.
    Það er íhugunarvert hvað gerist núna um áramótin þegar stíflurnar verða teknar úr flóði fjármagnsins. Hvert mun það flæða, hvar mun það fossa? Ég efast ekkert um að það mun fossa að einhverju leyti til útlanda. Ef það gerir það ekki þá gerir það það ekki af því að það verður búið að hækka vextina eða hugsanlega fella gengið. Það hefur ekki verið nefnt hér í kvöld hvort það geti ekki líka verið orsök þess eða leið til þess að stoppa fjármagnsflæði út úr landinu eða til þess að fá erlent fjármagn inn í landið.
    Það er því þetta tvennt sem mér finnst vera íhugunarvert fyrir hinn almenna þingmann sem á okkur hlustar: Hvers vegna er verið að stritast við að hafa falska vaxtaskráningu þegar við vitum að hún getur ekki gengið? Hvers vegna hefur þeim sem minnst hafa í þjóðfélaginu ekki verið að einhverju leyti bætt það fé sem raunverulega hefur verið af þeim tekið? Af hverju er ekki samið við sjúkraliða? Af hverju eru ekki hækkuð skattleysismörk þannig að a.m.k. þeir sem allralægst kaup hafa séu alveg skattfrjálsir? Það eru ótal hlutir sem hægt væri að gera til að bæta aðstöðu þeirra sem minnst hafa en það er bara ekkert gert. Það læðist að manni sá grunur að það sé enginn vilji til að gera það því það á ekkert að láta þetta blessaða fólk fá meiri möguleika á að sólunda fé svo farið verði að flytja meira inn aftur.