Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa

65. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 00:46:13 (2985)

[00:46]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er eins og venjulega hér í kvöld að hæstv. fjmrh. er ekki í salnum þó hann gangi nú í salinn. Hann rúllar hérna inn og út þannig að erfitt er að henda reiður á því hvað hægt er að segja hverju sinni. Hæstv. forsrh. hefur ekki sést hér í salnum enn sem komið er nema í mýflugumynd, kallandi fjmrh. út úr salnum.
    Við erum hér að ræða annað mikilvægasta efnahagsmál þessarar ríkisstjórnar á lokaþingi fyrir kosningar. Frv. til lánsfjárlaga er ásamt fjárlögunum annað af tveimur mikilvægustu efnahagsfrumvörpum ríkisstjórnar. Í þessari umræðu hafa nú þegar komið fram mjög veigamiklar upplýsingar um stöðu mála. Veigamiklum spurningum hefur verið beint til hæstv. fjmrh. Hann hafði þann sið eftir fyrstu ræðuna sem flutt var af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna í nefndinni að svara eingöngu í andsvörum, hætti því síðan þegar hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson flutti sína ræðu og gerði það ekki heldur þegar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir flutti sína ræðu. Ef hér á að fara fram umræða í þinginu um þessi mál þá er óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. svari þeim spurningum sem til hans er beint. Hann hefur verið beðinn um að svara hér lykilspurningum um aðgerðir fjmrn. á fjármagnsmarkaði á næstu vikum. Afstaða sem getur haft afgerandi áhrif á vaxtastigið í landinu. Afgerandi áhrif á fjárstreymi peninga sem nemur milljörðum út úr íslenska hagkerfinu á fyrstu vikum næsta árs, þannig að í aðdraganda kosninga kunni kannski að streyma 6--9 milljarðar á fyrstu mánuðum næsta árs út úr íslenska hagkerfinu vegna þess að þeir sem fái peninga frá ríkissjóði, um 9 milljarða í febrúarmánuði á næsta ári, muni fara með þá beint úr landinu.
    ( Forseti (KE) : Ekki efnisumræða.)
    Ég er að flytja hér, virðulegi forseti, rökstuðning fyrir því að ef þessi umræða á að halda hér áfram að nóttu til þá sé nauðsynlegt að í fyrsta lagi þá svari hæstv. fjmrh. þeim spurningum sem til hans er beint og í öðru lagi þá mæti hæstv. forsrh. til þessarar umræðu. Nema það sé þannig komið fyrir hæstv. forsrh. að hann þori ekki að vera hér í umræðu um annað meiri háttar efnahagsmál þessarar ríkisstjórnar á síðasta þingi fyrir kosningar og hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, leggi ekki í að hlusta á rökstudda gagnrýni talsmanna Alþb., Framsfl. og Kvennalistans í þessari umræðu. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta að annaðhvort bíði menn morgundagsins með þessa umræðu eða að það verði tryggt í fyrsta lagi að hæstv. fjmrh. svari þeim spurningum sem til hans er beint og í öðru lagi að hæstv. forsrh. mæti hér til umræðunnar.