Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:38:16 (3012)


[12:38]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Það er svo með þá sem sitja á þingi að þeir geta auðvitað ekki gefið yfirlýsingar nema gagnvart sjálfum sér og sinni stefnu og hefur löngum verið svo. Lögum er breytt, þeim er aftur breytt og þeim er breytt í þriðja sinn eða þau felld niður þannig að ekkert er eilíft í henni veröld og það hélt ég að hv. þm. vissi, en það kemur alveg skýrt fram hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og þarf ekki að snúa út úr því.
    Í annan stað vil ég segja að það er alveg ljóst hver var tilgangur lagabreytingarinnar og hvað orðalag hennar þýðir frá lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hvað varðar breytingu á jarðræktarlögum og var rætt á þeim tíma milli mín og ég hygg hv. þm. Lagatextinn er svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.``
    Það þýðir auðvitað að ekki er hægt að sækja neinn rétt með lögum né með öðrum hætti. Það safnast ekki upp nein skuld en á hinn bóginn kveða jarðræktarlögin á um hver séu skilyrði til styrkveitinga ef svo háttar. Lögin eru því alveg afdráttarlaus í þessu efni að rétturinn skapast ekki. Ég er algerlega ósammála hv. þm. um að ekki megi taka haughúsin og vatnsveiturnar út úr. Ég minni raunar á að hið opinbera setti á sínum tíma fram þá kvöð um haughúsin og þau hafa orðið bændum mjög þungur baggi og ég er satt að segja mjög undrandi á því ef hv. þm. ætlar að reyna að bregða fæti fyrir að hægt sé að koma til móts við þá bændur sem hafa staðið í dýrum haughúsbyggingum.