Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:42:34 (3014)


[12:42]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er hálfhissa á hv. þm. sem er mjög þingreyndur maður og hefur lengi verið í ríkisstjórn og stuðningsmaður ríkisstjórnar. Það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að stefnumarkmið og yfirlýsingar ríkisstjórna eru við það bundnar. Í öðru lagi liggur líka alveg ljóst fyrir að fjölmörg lög eru þess háttar að framkvæmdir úti í þjóðfélaginu eru ekki skuldbindandi fyrir ríkissjóð þótt ríkissjóður hafi á hinn bóginn hafi í heimildarlögum kveðið á um það hvernig farið skuli með ef fjárlagavaldið kýs að veita styrki til slíkra framkvæmda. Og svo er um þetta hér. Það er mjög þröngt um opinbert fé nú. Við erum að berjast við mikinn fjárlagahalla og ég hygg að a.m.k. sumir hv. þm. stjórnarflokka hafi verið að tala um fjárlagahalla. Síðan virðist vera nákvæmlega sama hvar borið er niður. Alltaf er hægt að auka útgjöldin hjá sumum hv. þm.
    Hér erum við að tala um það að taka út úr einn þáttinn. Við erum að tala um að koma til móts við þá bændur sem hafa ráðist í haughúsbyggingar eða vatnsveitur. Það er alls ekki í fyrsta skiptið nú svo að ég tali bara um vatnsveiturnar sem Alþingi kemur til móts við bændur í þeim efnum og með sérstökum hætti ef um mjög fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. Ég er því hálfundrandi á því að hv. þm. skuli taka málið upp með þessum hætti. Auðvitað væri gott að geta gengið á mörgum sviðum lengra í útgjöldunum. En það eru takmörk fyrir skattþolinu og það eru takmörk fyrir því til langs tíma hversu við getum endalaust haldið áfram að vera með ríkishalla á fjárlögum. Það eru takmörk fyrir því og auðvitað er alveg laukrétt ef hv. þm. vill bera það saman að hann hafði meðan hann var landbrh. meiri fjárráð í sínu ráðuneyti en ég í mínu.