Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 13:31:53 (3017)

[13:31]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að byrja þessa umræðu án þess að spyrja um hina sjaldséðu hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Eru þeir . . .  ( Landbrh.: Þegar maður heyrir þessa fallegu rödd þá reynir maður nú að koma í salinn.) Þakka þér fyrir, hæstv. landbrh. Það gleður mig að sjá þig við þessa umræðu þó að boðskapur minn sé enginn fagnaðarboðskapur í þinn garð vegna þeirrar stöðu . . .  
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki ávarpa beint í 2. persónu.)
. . .  sé enginn fagnaðarboðskapur, hæstv. forseti, í garð hæstv. ráðherra. Því miður verð ég að gagnrýna hann. Það eru brostnar vonir sem fylgja starfi þessarar ríkisstjórnar og það eru mörg mál skilin eftir í mikilli óvissu. Auðvitað sakna ég þess að hv. þm. Egill Jónsson, sem hér hefur haft uppi stóryrði á þessum drottins morgni, skuli ekki heldur vera hér staddur nú. Svo margt hefur hann sagt við þessa umræðu að ég óska eftir því, hæstv. forseti, að gera honum boð.
    En áður en ég kem að landbúnaðarmálunum sem ég ætla aðeins að fara yfir þá ætla ég að mæla fyrir brtt. við fjáraukalagafrv. sem flutt er, hæstv. forseti, af þeim er hér stendur og hv. þm. Eggert Haukdal, Guðmundi Bjarnasyni, Margréti Frímannsdóttur og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Þetta er brtt. við 3. gr. 11-399 Ýmis orkumál. Nýr liður: 118 Ýmis framlög, 19 millj. kr. Í grg. með þessu máli segir:
    ,,Á undanförnum árum hafa margar hitaveitur, einkum smærri veitur í dreifbýli, sótt um það til fjármálaráðuneytisins að nýta heimild í lögum um tollskrá til að fella niður aðflutningsgjöld af aðveituæðum og dreifikerfi eða fá gjaldfrest á greiðslum þessum.
    Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru 2. desember 1991, var fjárveiting að upphæð 5,5 millj. kr. til að fella niður skuldir Hitaveitu Varmahlíðar og Hitaveitu Hvalfjarðar. Í ljós hefur komið samkvæmt athugun, sem Ríkisendurskoðun gerði að beiðni fjárlaganefndar Alþingis, að svipað er ástatt með nokkrar aðrar hitaveitur eins og þær tvær sem fengu niðurfellingu skulda á árinu 1991.`` --- Fyrirgefið, hæstv. ráðherra, ég mæli hér fyrst fyrir brtt. þannig að ég kem síðar að landbúnaðarmálunum. En ég býst við því að hæstv. ráðherra verði við umræðuna, ég á ekki von á öðru.
    Síðan segir: ,,Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu var skuld þessara veitna 13. maí 1994 um 18 millj. kr. samkvæmt meðfylgjandi lista.`` Og það eru þessar hitaveitur: Hitaveita Hlíðarmanna, Hitaveita Aðaldæla, Hitaveita Hraungerðishrepps, Hitaveita Gnúpverja, Hitaveita Suður-Skeiða, Hitaveita Langholts og Unnarholts, Hitaveita Frambæja, Hitaveita Reykholtshrepps, Hitaveita Eyjólfs Ágústssonar í Hvammi.
    Í viðbót við þennan lista er getið um hitaveitu í Hjaltadal í athugun Ríkisendurskoðunar en þar sem sú hitaveita er að mestu í eigu ríkissjóðs er ekki flutt tillaga um niðurfellingu þeirrar skuldar.
    Breytingartillaga þessi er flutt til að létta á fjárhagsvanda framangreindra hitaveitna auk þess sem eðlilegt hlýtur að teljast að þær sitji við sama borð gagnvart ríkinu og þær tvær veitur sem fengu niðurfelldar skuldir með samþykki Alþingis á fjáraukalögum 1991.
    Nefnd á vegum fjármálaráðherra hefur hins vegar gert tillögu um að mæta fjárhagsvanda þeirra veitna með skuldbreytingu. Flutningsmenn þessarar tillögu telja að sú aðgerð ein og sér leysi engan veginn rekstrarvanda veitnanna.
    Svo segir í þessari grg. En sagan er þessi, að tveimur hitaveitum, sams konar hitaveitum, var fyrir tveimur árum veitt þessi fyrirgreiðsla. Það eru Hitaveita Hvalfjarðar og Hitaveita Varmahlíðar, eins og hér kom fram. Þær fengu þessa fyrirgreiðslu og ég hef kynnt það fyrir þingheimi að Ríkisendurskoðun telur að þessar sem ég hef hér talið upp séu sambærilegar og eigi þá sama rétt á að fá þessa niðurfellingu. Það er kannski eðlilegt að hv. þm. Árni Johnsen rísi úr sæti þegar hér er komið í kafla ræðu minnar og gangi á dyr því ég tel þetta svik á loforðum, bæði frá fjárlaganefndarmönnum og ekki síður hæstv. núv. ráðherrum sumum og fyrrv.
    Fyrir tveimur árum lögðust mjög í þessa baráttu, hv. þm. Eggert Haukdal og Guðmundur Bjarnason ásamt mér. Þá ræddum við ekki síst við iðnrh., sem þá var Jón Sigurðsson, sem tók okkar erindi ágætlega og taldi þetta ekki óeðlilega beiðni, enda um heilmikinn rekstrarvanda að etja og sanngirnismál. Sá

fyrrv. ráðherra lét skoða þetta mál í iðnrn. og það varð til þess að fyrir tveimur árum og ekki síst fyrir beiðni hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, sem er þingmaður Sunnlendinga, af því að hann taldi þetta einnig sanngirnismál, þá féllumst við á það að þessu máli yrði frestað þá en ráðuneytin og fjárln. næðu saman um það. Þessi barátta hélt áfram því að þegar kom að síðasta hausti hafði ekkert verið gert í málinu. Þá fór það svo hér, hæstv. forseti, að í þinginu var settur kafli inn á 6. gr. fjárlaga þar sem þetta var heimilað og í framhaldi af því var skipuð nefnd þessara ráðuneyta og einnig úr fjárln. til að fara yfir málið. Niðurstaðan liggur nú fyrir, að ekkert er lagt til að gera í málinu. Jú, eins og hér kom fram, skuldbreyting sem litlu breytir fyrir þessar veitur. Svo getur núv. hæstv. ríkisstjórn gumað á stórum stundum og sagt frá því að hún ætli að beita sér fyrir jöfnun húshitunar. Hún getur ráðist í það þegar stórar veitur í þéttbýli eiga hlut að máli, þá er farið í aðgerðir til þess að bjarga þeim. En þegar það eru dreifbýlisveitur sem fólk í sveitum fær hitann frá þá er ekki komið nálægt málinu. Þess vegna er auðvitað staðan sú að við erum neyddir hér við þessa umræðu til þess að láta reyna á það hvort vilji Alþingis er með sama hætti og þessarar hæstv. ríkisstjórnar og fjárln.
    Ég vænti þess að menn kynni sér þessa brtt. og skoði þau rök sem hér eru lögð fram og styðji þetta litla mál. Það skiptir miklu fyrir hitaveiturnar í landinu. Það er forkastanlegt af meiri hluta fjárln. að hafa haft þetta erindi að engu, hafa dregið fólk á asnaeyrunum í tvö ár ásamt hæstv. ráðherrum. Það er að mínu áliti vítavert.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að orðlengja þetta frekar en koma að landbúnaðarmálunum eins og ég sagði, ja, kannski ég víki mér aðeins að fjárln. áður en ég geri það. --- Hv. þm. Egill Jónsson sést nú ekki enn í sæti sínu, hæstv. forseti, en það er þingmaður sem ég hefði gaman af að hafa í stólnum sínum þegar ég ræði landbúnaðarmál því gjarnan minnir hann mig á Jón sterka. Það er alveg sama hversu mikið hann er niðurlægður, hvort sem það er fjárln. sem gerir hans óskir að engu eða hæstv. ráðherrar sem skella honum í drulluna, hann rís alltaf jafnbrattur upp og segir: Sástu hvernig ég tók hann? Þannig að málflutningurinn er náttúrlega fyrir neðan allar hellur hjá hv. þm. eins og ég býst við að flestir hafi séð hér fyrir hádegi.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti biður hv. þm. að gæta orða sinna, nota kurteislegt orðalag.)
    Ég sagði ekki eitt einasta orð í garð Egils Jónssonar annað en menn sáu hér í morgun, hæstv. forseti. Það voru ekki nein smáorð og það bað enginn þá hv. þm. að gæta orða sinna. En ég fer fram á það af hæstv. forsetum að við þingmenn séum hér jafnir fyrir þingsköpunum. Ég er að verða ósáttur við það hvernig sumum leyfist að tala hér en aðrir hafa ekki til þess frelsi.
    Ég ætlaði að minnast á hv. fjárlaganefndarmenn. Mér þótti mátulegt á þá hvernig þeir voru teknir í karphúsið hér í gær við þessa umræðu. Það var tímabært. Ég var búinn að halda því hér fram í mörgum ræðum að þessir nefndarmenn, meiri hluti fjárln., væru að misbjóða þinginu með vinnubrögðum sínum og gengju mjög langt í hroka sínum hvað þingið varðar og yfirgengju oft og tíðum þingmenn hér með málflutningi sínum. Auðvitað var það tímabært að hv. þm., aldursforseti þingsins, Matthías Bjarnason, minnti þessa menn á að þeir eru ekkert yfirvald. Þeir eru ekki yfir ráðherrum, þeir eru ekki yfir þingkjörnum stjórnum og þeir eru ekki yfirnefnd þingsins þótt þeir telji sér trú um það öðru hvoru.
    Það var nú svo, hæstv. forseti, að þessi stuttbuxnadeild Sjálfstfl. fékk duglega á baukinn hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. Auðvitað sá maður í gegnum þau átök að styrkur hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar er heilmikill. Hér varð að fresta þingfundi og halda sérstakan fund í þingflokknum og ég sé að máttur hv. þm. hefur verið slíkur að allt sem þessi hv. þm. gagnrýndi er horfið úr nál. Þannig að fjárlaganefndarmenn Sjálfstfl. hafa harkalega verið minntir á það hvernig þeir væru að misbjóða þinginu. Gamli járnkarlinn sigraði í þessari glímu.
    En þeir voru samt tveir sem ærðust í þinginu í gær yfir málsmeðferð fjárln. Hinn var hv. þm. Egill Jónsson. Hann hafði ekkert síður stór orð hér uppi í ræðustólnum en hv. þm. Matthías Bjarnason. En ég sé nú ekki betur en að svo hafi farið að ekkert hafi gengið né rekið hjá hv. þm. Agli Jónssyni. Hans gagnrýni hefur ekki átt hljómgrunn. Það hefur engu verið breytt af því sem hann lagði til í sínum flokki. Staðan er enn sú að í nál. eru jarðræktarlögin tekin úr gildi með svohljóðandi setningu, hæstv. forseti: ,,Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.``
    Hvaða aðilar eru þetta? Það eru hæstv. ráðherrar, hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., og auðvitað fjárlaganefndarmennirnir sem lýsa þessu yfir og þessu fékk hv. þm. Egill Jónsson ekki breytt þó hann léti illa í gær. En hann komst í fjölmiðlana fyrir lætin í sér. Og kannski halda einhverjir bændur á Austurlandi og víðar að hann hafi verið að berja eitthvað í gegn fyrir landbúnaðinn. En málið er það að landbúnaðurinn er í sömu súpunni og hann var í gær og þó að hv. þm. hafi flutt langa og háværa ræðu í morgun um öll svikin þá hefur hann enn ekki náð neinu fram. Þeir eru athyglisverðir þessir tveir öldungar, annar fær allt sitt, hinn ekkert.
    Það er nú svo að hinar góðu bókmenntir Íslendinga koma manni oft til hugar eftir að hafa hlýtt á umræður eins og voru hér í gær og í morgun. Mér varð hugsað til Íslandsklukkunnar bæði út af þeim persónum sem tengdust þessum átökum og ekki síður vegna landbúnaðarins sjálfs. En á einum stað þar sem þeir Arnas Arnæus og herra Úffelen ræða saman þá segir á þessa leið, með leyfi forseta: ,,Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armslengd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þótt tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.``
    Þetta minnir mig á þá stöðu sem íslenskur landbúnaður er í og hefur verið í tíð núv. ríkisstjórnar. Hv. þm. Egill Jónsson hefur rakið það í nál. með landbn. að svikin við landbúnaðinn séu upp á 700--800 millj. Hann hefur sagt það á fundi nefndarinnar að til viðbótar sé heill milljarður framan af tímabilinu sem ekki er getið um í þessari greinargerð.
    En landbúnaðurinn mun lifa þrátt fyrir þau fantatök sem núv. ríkisstjórn hefur á honum tekið og hvernig búvörusamningurinn hefur verið svikinn. En von landbúnaðarins liggur í því að þessi ríkisstjórn fari frá, að ný ríkisstjórn með öðruvísi áherslu í atvinnulífi og hugsun taki völd á Íslandi. Sá tími mun koma eftir 8. apríl í vor. Þangað til verðum við þrauka og berjast. En ég trúi að svo verði.
    Svo segir áfram í þessari góðu bók, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ef varnarlaus smáþjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita. Ég veit þið hamborgarmenn munduð færa oss íslenskum maðklaust korn og ekki telja ómaksvert að svíkja á oss mál og vog. En þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði? Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.``
    Nú er það svo að þessir tveir hv. þm., Egill Jónsson og Matthías Bjarnason, eru báðir tveir barðir þrælar í sínum flokki. Þær hafa verið flokksþrælar undir aktygum Valhallarliðsins um áratugi en þó með misjöfnum hætti. Mismunurinn er sá að frelsið býr í brjósti hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Hann rís upp og sigrar þegar honum er ofboðið. Hann nær þess vegna sínu fram. Það er hans styrkur og þess vegna hefur hann setið hér og jafnan haft eindrægna kosningu í sínu kjördæmi.
    Hins vegar minnir hv. þm. Egill Jónsson mig meir og meir bæði á barinn þræl og latan þjón sem gefst upp þegar á móti blæs. Og því miður hefur það gerst nú í þessum átökum um hvort landbúnaðurinn fái að njóta réttar síns í þessari fjárlagagerð þá hefur hv. þm. gefist upp. Hann hefur gefist upp fyrir hæstv. fjmrh., hann hefur gefist upp fyrir stuttbuxnadeildinni í Sjálfstfl. og hann hikar ekki við að ætla að ganga til kosninga þegar það liggur staðfast plagg frá honum um að skuldalistinn við íslenskan landbúnað er upp á 700 millj. kr. og eldri svik upp á milljarð. Og hv. þm. hefur komið hér upp í morgun og blásið og hann hefur sagt að eini sigur sinn sé sá að hann sé búinn að brjóta málið upp. Brjóta hvaða mál upp? Hann hefur ekkert brotið neitt mál upp að ég sé. Hann fékk engu breytt með sínum mótmælum hér í gær og enn þá blasa þessi svik við. Enn þá er staðan sú að textinn sem hann gagnrýndi harðast og mest eða þessi, hæstv. forseti: ,,Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum``, stendur þarna skýr og hreinn enn þá eins og hann var í gær. Þingmaðurinn hefur því ekkert brotið upp og engu náð í gegn. En hv. þm. Egill Jónsson hann hikaði ekki við að segja að samdráttur sauðfjárbænda væri eigi að síður á einhverju tímabili á launalið upp á 47%. Þó lætur hann þá ríkisstjórn sem hann styður fram í rauðan dauðann svíkja þessa stétt einu sinni enn.
    Og hv. þm. sagði það vissulega rétt þegar hann orðaði það svo, með leyfi forseta, í sinni ræðu, að ríkisstjórnin hefði bætt einu svipuhöggi við til að afnema jarðræktarlögin. Þetta var heiðarlegt af hv. þm. Einu svipuhöggi til til að afnema jarðræktarlögin. Þau eru orðin mörg svipuhöggin sem íslenskur landbúnaður hefur orðið að þola undir tíð núv. ríkisstjórnar. Það er kannski sorglegt að menn hafa talið sér trú um að hæstv. landbrh. væri að vinna einhverja sigra þegar hann hefur verið að taka á hæstv. utanrrh. sem oft hefur verið ómaklegur því miður og átt það skilið. En það hafa ekki verið sigrar í krónum eða aurum. Það hafa ekki verið sigrar í réttindum eða nýjum draumum fyrir íslenskan landbúnað. Það hafa verið tungunnar átök sem þá hafa farið fram og hæstv. landbrh. er sleipur á því sviði. En verkið er jafnóunnið og það var.
    Hæstv. fjmrh. leyfði sér að koma hér upp í andsvari við hv. þm. Egil Jónsson og segja sem svo að hann stæði að þessum texta og teldi hann góðan. Ekki svaraði hv. þm. Egill Jónsson einu orði. Hv. þm. sat eins og hrúga í sínu sæti og mótmælti þá engu. Það er nefnilega ekki nóg, og það vita bændur þessa lands og þeir sem unna íslenskum landbúnaði, að tala hátt úr ræðustól Alþingis og látast vera að vinna verkin. Menn spyrja eftir árangri fyrst og fremst. Og því miður kann nú svo að fara að Austfirðingar einnig, þessu fáu prósent sem hafa leyft sér þann munað að kjósa Egil Jónsson til þings í gegnum kosningalagabreytingar og ýmis áföll, kæri sig ekki um það miklu lengur að styðja hann eða hans flokk sem þannig rústar landsbyggðina, eins og hv. þm. Egill Jónsson hefur sjálfur best lýst.
    Það er nú svo að jarðræktarlögin standa eins og stafur á bók. Þau eru í lögbók landsins. Þau eru fyrirheit og þau eru staðfesting á því að Alþingi Íslendinga hefur sett lög þar sem það felur heilli stétt að rækta og byggja þetta land. Og þessi lög eru í gildi, hæstv. dómsmrh. Þau eru í gildi og það ber að fara eftir þeim. En eigi að síður er staðan sú að þau eru brotin og skuldirnar eru miklar sem ekki nást fram. Það á nefnilega að standa við lög og gerða samninga eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur fyrir hádegið. ( Gripið fram í: Var dómsmrh. að brjóta lögin?) Hæstv. dómsmrh. hefur ekki tjáð sig um annað en að hann muni styðja bæði þennan texta og þá smámuni sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta í þennan málaflokk. Mér skilst að skuldir samkvæmt jarðræktarlögum séu að verða þriggja ára gamlar og nemi 200--300 millj. Hér hefur það gerst að hreinir smámunir fást fram. Að vísu þá styð ég það fullkomlega að það náist fram en það eru hreinir smámunir sem eiga að ganga til þeirra sem hafa verið að byggja haughús. Vegna breyttra reglna í heilbrigðismálum sem hæstv. heilbrrh. hefur sett hafa menn orðið að fara í þessar framkvæmdir og svo hitt vegna vatnsveitna. En það eru mörg fleiri atriði sem skuldir standa út af vegna og þarf ég ekkert að rekja það hér.
    Hv. þm. Egill Jónsson minntist á það í morgun að hann hefði kallað hina og þessa til sín. Einn morgunn gerðist það í fjárln. að hann kallaði kornbændur til sín af Suðurlandi og hann kallaði til sín framleiðendur á graskögglum norðan úr Skagafirði (Gripið fram í.) Á landbúnaðarnefndarfundi átti ég við, hv. þm. Hafi mér orðið á mismæli tók ég ekki eftir því sjálfur en þakka fyrir hversu vel þingmaðurinn hlustar og vænti þess að hann hafi tekið eftir fyrri parti ræðu minnar sem sneri að hrokanum í hv. fjárln. ( Gripið fram í: Það væri gott að heyra það aftur.) En þessir menn voru kallaðir úr öllum landsfjórðungum til þess að gefa þeim fyrirheit um að lítil og falleg upphæð upp á einhverjar milljónir mundi koma í gegnum fjárlögin til styrktar kornræktinni. Þar fór hv. þm. og formaður landbn. Egill Jónsson mjög yfir það á þeim fundi hvernig aðrar þjóðir styrktu sínar kornbændur og greiddu niður kornið. Auðvitað mundi það svo gerast hér eins og á mörgum öðrum sviðum að þessi grein yrði undir í atvinnulífinu ef ekki yrði brugðist við með sama hætti. Það á nefnilega við á svo mörgum sviðum og þess vegna erum við Íslendingar að tapa tökum. En þegar kemur að lokum umræðna um fjáraukalögin þá er ekkert komið inn hvað þennan lið varðar. Þetta verkefni eins og mörg önnur verða kannski í höndum Dana eða Þjóðverja eða Breta eða einhverra annarra enn þá fjarlægari þjóða. Það er nefnilega skaði hvernig Alþingi lætur reka á reiðanum, hvernig Alþingi lætur ónýta ríkisstjórn komast upp með að starfa. Það ættu þingmennirnir sem alla vega styðja þessa stjórn að gera sér grein fyrir að þar þarf að vera breyting á.
    Það er mikilvægt við þessa umræðu að hæstv. landbrh. útskýri hvernig hann ætlar að standa að þessu máli í þinginu, hvernig hann ætlar að fara frá því að skuldir ríkisins við landbúnaðinn séu upp á 700--800 millj. en hér eigi að veita litlar 60--70 millj. upp í dæmið og þætti mér vænt um ef hæstv. ráðherra vildi útskýra það fyrir þingheimi.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að lengja ræðu mína öllu meira en ég hygg að það verði svo að íslenskir bændur munu margir fá að sjá það álit sem fór frá hv. landbn. til fjárln. Þar er skuldalistinn tilgreindur, þar er sýnd mynd af Íslandi og svörtum byggðum sem geta liðið undir lok ef menn ekki standa við búvörusamninginn og ýmsa viðauka við hann sem var mikilvægt. Það er nefnilega undarlegur hlutur, hv. þm. Sturla Böðvarsson, að þetta skuli vera með þeim hætti. Búvörusamningurinn var gerður í góðri trú um að hér yrði næg atvinna en samdrátturinn og atvinnuleysið hefur gert það að verkum að þeir bændur sem hugðust snúa sér að öðrum verkum hafa ekki haft til þess tækifæri í tíð núv. ríkisstjórnar vegna atvinnuástandsins. Þetta hefur gert það að verkum að þeir hafa orðið að halda í búskap sinn og þeir hafa orðið fyrir áföllum vegna þess að hæstv. landbrh. hefur hvað eftir annað, alla vega í sauðfjárræktinni, farið í flatan niðurskurð sem greinist í þá átt sem hv. þm. Egill Jónsson sagði í morgun að gæti numið 47% af launalið á samningstímanum. Þess vegna var það mikilvægara en nokkru sinni fyrr vegna þessa ástands að menn stæðu við búvörusamninginn og ekki síst viðauka hans um að skapa atvinnu í hinum dreifðu byggðum.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá farið yfir þau atriði sem ég vildi koma inn á og vil ekki lengja mál mitt öllu meira en vænti þess að stjórnarliðar sjái það að hér er komið í mikið óefni og það er ekki of seint að flytja brtt., ef ekki við þetta fjáraukalagafrv. þá við fjárlögin sjálf.