Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:06:16 (3018)


[14:06]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig merkilegt að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli við þessa umræðu víkja sér undan því að ræða málefnalega um þær brtt. og um það fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu og grípi þess í stað til þess ráðs að lesa upp úr Íslandsklukkunni.
    En það sem við erum að fjalla um hér er aðalatriðið, þ.e. aukin framlög til íslenska landbúnaðarins. Hvers vegna nefndi hv. þm. það ekki? Það er vegna þess að hann treystir sér ekki í þá umræðu. Hann treystir sér ekki til þess að vekja athygli á því að við 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 1994 erum við að fjalla um aukin framlög til íslensks landbúnaðar. Þess í stað velur hv. þm. þann kost að ræða um allt aðra hluti. Það er auðvitað mikilsvert og jafnan ánægjulegt þegar vitnað er í nóbelsskáldið og ekki síst þegar lesið er upp úr Íslandsklukkunni en ég held að hv. þm. hefði átt að nota þessa tilvitnun til þess að rifja upp þátt Framsfl. gagnvart íslenskum landbúnaði og nota líkinguna um maðkað mjöl til þess að rifja upp með hvaða hætti Framsfl. hefur staðið að landbúnaðarmálum og hvernig hann hefur staðið við bakið á íslenskum bændum í gegnum árin.
    En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það, hæstv. forseti, en vildi aðeins nefna það sem hv. þm. talaði um, litlar hitaveitur, og mundi í seinni hluta þessa tíma sem ég hef í andsvari fara örlítið yfir það.