Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:08:21 (3019)


[14:08]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þarna sáum við kannski þann hroka sem við höfum glímt við í málflutningi þegar hv. þm. leyfir sér að telja þetta auknar fjárveitingar. U.þ.b. 10% af því sem hv. þm. Egill Jónsson og landbn. skilaði frá sér kallar hv. þm. auknar fjárveitingar. Það eru aðeins 10% af því sem landbúnaðurinn á inni sem á að skila honum. Það kann að vera svo, hv. þm., að á tímum atvinnuleysis og samdráttar sé mikilvægara en fyrr að ríkisvaldið veiti aðstoð og hleypi lífi í atvinnulífið. Þar á ég bæði við landbúnaðinn og aðrar greinar. Við skulum gera okkur grein fyrir því þegar við erum að ræða þetta mál og búið er að flytja annað frv. um vistvæna framleiðslu þá stöndum við þannig núna þegar það blasir við í heiminum að fólk spyr eftir slíkri vöru. Norska ríkið með kratann Gro Harlem Brundtland, sem ég er ekki sérlega hrifin af, en sá forsætisráðherra hefur haft mátt í sér til þess að láta 600 millj. í norska landbúnaðinn til þess að þróa vistvæna leið. Hér hefur ekki fengist króna. En hér á að fara að setja ný lög sem sjálfsagt á að svíkja eins og jarðræktarlögin.
    Ég kippi mér ekki upp við þó að hv. þm. kalli málflutning minn ekki málefnalegan. En það hafa fleiri og þar á meðal hans flokksbróðir, hv. þm. Egill Jónsson, flutt svipaða ræðu hér í morgun. Hann kallaði þetta svik og ég hygg að sjálfstæðismenn um allt land muni taka undir þá ræðu (Forseti hringir.) þó þeir undrist eins og ég, hæstv. forseti, að hv. þm. Egill Jónsson skuli gefast upp í hverju máli.