Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:12:56 (3021)


[14:12]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því ef niðurfelling getur átt sér stað á gömlu söluskattsskuldunum eins og hv. þm. fullyrðir. ( StB: Hún hefur ekki átt sér stað, það er misskilningur.) Nei, muni eiga sér stað, segir hv. þm. Ég hygg að hv. þm. Sturla Böðvarsson hljóti að vilja hjálpa til í því máli því ef hv. þm. ekki gerir það þá liggur sá grunur á honum að hann hafi troðið veitunni í Hvalfirði í gegn eins og gerðist fyrir 2--3 árum. Hann hlýtur að vera sammála Ríkisendurskoðun um það að hinar veiturnar njóti réttar síns.
    Þingmaðurinn minntist hér á þær upphæðir sem eiga að koma til sauðfjárræktarsvæðanna. Ég hygg að 50 millj. hossi nú ekki hátt. Það kemur fram í áliti frá formanni landbn. og landbn., hv. þm., að hvað þessa stöðu varðar ætti landbúnaðurinn að vera búinn að fá þarna til uppbyggingar annarra verkefna 230 millj. kr. Það hefði kannski dugað til einhverrar annarrar atvinnuuppbyggingar og leyst sárasta vanda sauðfjárræktarinnar. En þetta er bara dæmi um það að menn eru að hrópa og berja sér á brjóst og segjast vera komnir með nýtt fjármagn þegar nefndar eru 50 millj. en skuldirnar og fyrirheitin sem voru brostin eru mörg hundruð millj. en hefðu skipt mjög miklu máli ef við þær hefði verið staðið.
    Ég hef ekki tíma, hæstv. forseti, til þess að fara yfir svikin sem hafa átt sér stað nú í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar hvað búvörusamninginn varðar. En það skiptir hundruðum millj. Og það hefði skipt sköpum fyrir bændur landsins og atvinnulífið í þorpunum, ekki síst, hefði verið staðið við þær fjárveitingar.