Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:20:15 (3024)


[14:20]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef í engu hallað máli á hv. þm. Egil Jónsson, nema síður sé. En það kom hér fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar að hann hefur valið sér nýjan leiðtoga lífs síns og það óska ég honum til hamingju með að veita Agli Jónssyni þá hefð. Egill Jónsson minntist hins vegar á það í ræðu fyrr í dag að hann líkti málflutningi hv. þm. Guðna Ágústssonar við gelt. Ekki ætla ég að fara nánar út í það. ( SvG: Það var reyndar gjamm.) Gjamm eða gelt, það munar ekki miklu. ( SvG: Það munar nokkru.) Nokkru, rétt er það. Þetta kallar þingmaðurinn og er einkennileg sjálfslýsing að varpa kögglum kaplataðs að Agli Jónssyni hv. þm. Það voru ekki mín orð, það voru orð hv. þm. Guðna Ágústssonar sjálfs um hann sjálfan. Ég hef að sjálfsögðu fjallað um mál litlu hitaveitnanna á ýmsum fundum á Suðurlandi en ekki lýst því eins og Guðni Ágústsson gerir enda er hann ekki mjög nákvæmur í því að greina frá hvorki mönnum né málefnum og hefur sinn stíl í því og það virði ég út af fyrir sig en ekki getur hann gert mér upp orð. Um þetta mál hefur verið fjallað, það liggja fyrir ákveðnar staðreyndir í málinu en þó vantar eitt sem Guðni Ágústsson hv. þm. sagði að væri til staðar. Það liggur ekki fyrir úttekt á hverri veitu fyrir sig. Það er mismunandi samsetning á mörgum þáttum og það liggur hreinlega ekki fyrir hvorki hjá Ríkisendurskoðun né öðrum og það þarf að gera. Til þess verks þarf að ganga áður en hægt er að ljúka þessu máli vonandi með sæmd.