Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:59:03 (3032)


[14:59]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru örfá atriði. Í fyrsta lagi varðandi jarðræktarlögin. Þó að það sé búið að tala nóg um þau þá segir skýrt og skorinort í breytingunni sem gerð var í janúar 1992 orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.``
    Ég held að þetta tali alveg sínu skýra máli. Rétturinn er háður fjárveitingu Alþingis og það er hún

sem markar þennan rétt.
    Í öðru lagi vegna viðaukans með samningum við bændur þá hefur fjmrn. talið að ekki sé nauðsynlegt að um fjárframlag úr ríkissjóði sé að ræða en fulltrúar fjmrn. komu að þessum samningi á sínum tíma. Það er hins vegar ekki bannað og það er núna verið að setja peninga í þetta beinlínis úr ríkissjóði. Þetta er umdeilanlegt en álit sumra hverra sem komu að samningnum á sínum tíma er að ekki sé nauðsynlegt að um beint framlag sé að ræða. Lánveiting gæti komið til greina og það er vitnað til orðalagsins þegar þetta er sagt því það er öðruvísi í þessum viðauka en öðrum viðaukum og í samningnum sjálfum.
    Loks um hallann. Ég vil taka það fram að það er ekki hægt á þessari stundu að segja hver hallinn er. Það eru fjárheimildirnar sem er verið að afla með fjáraukalögunum. Fjáraukalagafrv. kemur aftur fram í febrúarbyrjun. Ég tel að greiðsluhallinn á yfirstandandi ári verði undir fjárlagatölunni og það er líklega í fyrsta sinn um langan aldur sem það gerist. Ómögulegt er að segja enn hvað kemur fram í ríkisreikningi því þar á eftir að taka tillit til efnahagsreiknings og hvernig reikningsgrunnurinn kemur út. En þetta skýrist að sjálfsögðu fljótt á næsta ári og ég held að menn verði að sýna þolinmæði þangað til einfaldlega vegna þess að það er uppgjör um áramótin sem ræður endanlega greiðsluhallanum.