Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 15:04:40 (3035)


[15:04]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það voru einmitt þessi ummæli hv. þm. fyrr í dag sem urðu mér að umtalsefni vegna þess að þau eru ekki réttmæt, þau eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Staðreyndin er sú að í minni tíð sem landbrh. voru ákvæði jarðræktarlaganna ekki skert með þeim hætti sem gerðist bæði áður og síðar. Eitt af mínum fyrstu verkum var einmitt að breyta þannig framkvæmd ákvæða jarðræktarlaganna að það myndaðist ekki réttur umfram fjárveitingar á hverju ári. Ég skal að vísu fúslega viðurkenna að það reyndist óhjákvæmilegt að draga verulega úr styrkjunum í takt við það fjármagn sem þar var á ferðinni, en það var þó öll árin veitt samkvæmt umsóknum nokkurt fé til styrkja vegna þeirra verkefna sem skilgreind voru sem mikilvægust á hverjum tíma. Þar nefndi ég til að mynda bæði skjólbeltarækt, vatnsveitur og byggingu áburðarkjallara. En til viðbótar var á þessum tíma ráðist í það verk að gera upp allar skuldirnar þannig

að þegar menn skoða heildarfjárveitingu á þessu árabili mun koma í ljós að hún var einmitt með mesta móti síðari hluta þess tíma sem ég sat í landbrn. vegna þess að þá var verið að gera hvort tveggja í senn: veita talsverða styrki samkvæmt hinu breytta fyrirkomulagi og gera upp skuldirnar sem safnast höfðu á undanförnum árum. Ég frábið mér það og afþakka félagsskapinn þó hann sé að öðru leyti ágætur að vera einn af þeim þremur landbúnaðarráðherrum sem hv. þm. spyrðir hér saman. Ég held að þegar sagan verði skoðuð þá komi það í ljós að það var öðruvísi staðið að þessum málum á mínum tíma og þá var einmitt tekið til í þessum málaflokki eftir draslaragang undangenginna ára sem ég veit vel að var ekki forvera mínum að kenna og ekki vegna þess að hann vildi ekki vel heldur því að hann fékk því ekki ráðið í þeim ríkisstjórnum sem hann sat. Einkum og sér í lagi seig á ógæfuhliðina í samskiptum hans við hæstv. núv. utanrrh.