Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 15:07:31 (3037)


[15:07]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þarf ekki að hafa ýkja mörg orð en ég vildi gjarnan að hæstv. landbrh. heyrði mál mitt.
    Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með þessari umræðu og það hefur verið erfið fæðing á þessum fjáraukalögum. Það er þó ljóst að meiri hluti fjárln. hefur farið að ráðum hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, og skammast sín. Þeir hafa beygt sig og tekið út hina hrokafullu yfirlýsingu þar sem þeir ætluðu að yfirtaka ekki einasta Byggðastofnun heldur forsrn. líka. Það er út af fyrir sig gott að stórmennskubrjálæðið er að renna af þeim og vonandi halda þeir áfram á réttri braut. Það kom nýtt nál. og þeir hafa étið ofan í sig þau fyrirmæli sem þeir þóttust vera að gefa Byggðastofnun. En þetta dugir þó ekki til vegna þess að klausan um jarðræktarframlögin stendur eftir.
    Hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson, á nefnilega ekki eins mikið undir sér og hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason. Hv. þm. Egill Jónsson hefur ekki getað fengið þá heimskulegu klausu sem stendur í nál. um landbrn. útmáða úr hinu endurprentaða nál. Það kann að vera að það hafi verið örðugra fyrir hv. 3. þm. Austurl., Egil Jónsson, að fá þetta út þar sem í ljós hefur komið og formlega viðurkennt í þessum umræðum og tekið fram í nál. að hér er um að ræða samning sem hæstv. landbrh., Halldór Blöndal, gerði við hæstv. fjmrh. Venjulega er það þannig að hæstv. utanrrh. blandar sér í mál af þessu tagi en hann er staddur úti í löndum og talar bara í gegnum þá hæstv. ráðherra Sjálfstfl. sem eru á vettvangi og þeir hlýða honum alveg, þeir eru fjarstýrðir. Þeir hlýða honum alveg og gera þá samninga sem hæstv. utanrrh. vill að þeir geri.
    Úr því að þetta stendur svona í nál. og birt sem formlegt samkomulag núv. hæstv. landbrh. og núv. hæstv. fjmrh. þá er ekki hægt að líta á annað en að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar, það er stefna þessara tveggja stjórnarflokka sem eru að fara í kosningar. Þetta er sem sagt kosningastefnuskrá Sjálfstfl. og Alþfl. að haga því svo til sem segir í nál., með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti fjárln. hefur ákveðið í samráði við landbrh. og fjmrh. að leggja til 40 millj. kr. framlag vegna áburðarhúsa og vatnsveitna sem byggð voru á árunum 1992 og 1993 enda uppfylli jarðarbætur þessar skilyrði jarðræktarlaga um greiðslur framlags. Jafnframt vilja sömu aðilar`` --- þ.e., frú forseti, meiri hluti landbn., hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. --- ,,láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.`` --- Búið spil. Aldrei framar framlög samkvæmt jarðræktarlögum.
    Þetta er það sem hv. 3. þm. Austurl. var að reyna að blása sig út yfir í ræðustól fyrr í dag og kalla markleysu. En þetta er nákvæmlega það sem hann fer heim með á bakinu í sína kosningabaráttu í vor. Þetta er það sem 1. þm. Vesturl., Sturla Böðvarsson, fer með í farangri sínum um Vesturlandskjördæmi. Þetta er það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson fer með um Vestfjarðakjördæmi. Þetta er það sem séra Hjálmar Jónsson kemur til með að hafa í preststöskunni þegar hann fer að ferðast um Norðurlandskjördæmi vestra. Þetta er það sem hæstv. landbrh. leggur til málanna og fer með í sína kosningabaráttu. Aldrei framar peningar til jarðræktar. Svona mætti lengur telja. Meira að segja kemur þetta niður á frú Drífu sem bráðum ætlar að verða hv. þm.
    En sem betur fer hafa Sjálfstfl. og Alþfl. ekki stofnað þúsund ára ríkið enn. Þar af leiðir að það kann að vera pínulítið til í því sem hv. 3. þm. Austurl. Egill Jónsson sagði í morgun að þetta sé markleysa. Þó að hann hvorki vilji né geti gert það að markleysu. En það getur fólkið í landinu og það getur

það gert með því að koma í veg fyrir að þessir herrar stjórni landinu eftir kosningar.
    Ég lýsi því yfir að Framsfl. er ekki aðili að þessu samkomulagi og Framsfl. mun ekki telja sig bundinn af því að fara fram með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Samkvæmt jarðræktarlögum á eftir að standa við greiðslu á líklega nálægt 130 millj. til þess að standa við lögboðin framlög til jarðarbótaframkvæmda fyrir árin 1992 og 1993. Hérna koma 40 millj., og það ber að þakka, upp í þessa skuld en fjárlögum verður auðvitað að breyta til þess að þetta komi allt. Alþingi verður að taka tillit til þess. Þetta er að vísu of lítið og of seint en þó er brýnt að þessir fjármunir komi vegna þess, og það er ég ekki viss um að menn hafi komið nógu vel til skila, að bændur sem ekki hafa fullkomið vatnsból og ekki hafa fullkomin áburðarhús eiga það á hættu að verða sviptir framleiðsluleyfi á mjólk. Og það er beinlínis verið að koma í veg fyrir að þessir menn geti dregið fram lífið og stundað atvinnu sína ef þeim er gert ómögulegt að bæta úr því sem ábótavant er hjá þeim.
    Það er ekkert upp í framkvæmdir ársins 1994 en sem betur fer vonast ég til þess að ný ríkisstjórn verði komin til valda þegar við göngum næst til fjárlagagerðar og þá er hægt að líta á það atriði.
    Ég tel að það væri mikið glapræði að fara fram eins og hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, lagði til að breyta jarðræktarlögunum. Það er nýlega búið að breyta þeim og þau eru í skikkanlegu horfi. Það er að vísu ákveðið eins og hér hefur komið fram í umræðunum að framlögin skuli ákveðin með fjárlagagerð á hverjum tíma, það er alveg rétt og að því leyti til hefur Alþingi málið á valdi sínu, en það væri fráleitt að fara að breyta jarðræktarlögunum jafnvel þó að einhverjir miður heppilegir náungar hafi slysast til þess að yfirtaka Stjórnarráðið um fjögurra ára skeið.
    Varðandi sauðfjárræktina þá langar mig til að fara um hana örfáum orðum. Það er lofsvert sem hv. meiri hluti leggur til að leggja fram nokkra fjármuni til þess að endurbæta sláturhús þannig að þau geti sinnt útflutningi, 50 millj. kr., en það dregur þó skammt. Það eina sem getur bjargað sauðfjárræktinni er að það þyrfti að koma á marktækum útflutningi á dilkakjöti. Það eina sem getur bjargað. Útflutningur dilkakjöts er mögulegur. Það hefur verið unnið stórmerkilegt starf undir forustu hv. 2. þm. Suðurl., Jóns Helgasonar, fyrrv. landbrh., og með mjög öflugum stuðningi margra manna í þjóðfélaginu. Ég nefni sérstaklega til sögunnar Baldvin Jónsson sem hefur verið óþreytandi að afla markaða og kynna lífræna landbúnaðarframleiðslu. Þar eru vissulega möguleikar. Það er hægt að flytja út umsýslukjötið, það hefur tekist að fá fyrir það nokkurt verð. Það er gerbreytt ástand frá því að útflutningsbætur voru afnumdar á sínum tíma. Þá bjuggum við við mikla verðbólgu og framleiðslan varð dýrari ár frá ári. Nú er þessu breytt og ef bændur fengju nokkra aðstoð og höftunum yrði aflétt þá gætu þeir stundað hagkvæma framleiðslu og flutt út. Útflutningsbætur mætti náttúrlega ekki greiða eins og gert var, þ.e. vissa krónutölu á kíló. Ég hugsa mér að það yrði gert með þeim hætti að menn fengju prósentur af því verði sem þeir gætu náð fyrir vöruna erlendis og það yrði svipað á útflytjendur til að reyna að ná sem hæstu verði. Ef þetta er ekki gert þá blasir við atvinnuleysi, þá blasir við sárasta fátækt og neyð á sauðfjárræktarsvæðum landsins og hjá sauðfjárbændum. Eignir manna eru gerðar upptækar, þeim er gert ómögulegt að framleiða. Vitnisburðurinn um stjórn landbúnaðarmála undir hæstv. núv. landbrh. kom fram hjá hv. 3. þm. Suðurl. fyrr í umræðunni þar sem hann réttilega vakti athygli á því að tekjur sauðfjárbænda hafa á búvörusamningstímanum dregist saman um hvorki meira né minna en 47% og fækkun ársverka í sauðfjárframleiðslu er 5 þúsund manns. Flest af bændafólkinu er enn við búskap, það er að klára eignir sínar, það er að éta þær upp. Það hefur að engu að hverfa í því atvinnuástandi sem er í þéttbýlinu. Og því ekki að lofa bændum að bjarga sér og lofa þeim að framleiða? Þar af leiðir að við þurfum að styrkja og efla þennan útflutning og við munum flytja þær brtt. við fjárlögin, við hv. þm. Jón Helgason, um það að verja hluta af jöfnunargjöldunum sem koma til með að innheimtast samkvæmt GATT-samningnum til að styrkja útflutning landbúnaðarafurða. En það er mál sem ég mun gera grein fyrir síðar.
    Hvað varðar jarðræktarframlög, þá sjá menn það náttúrlega í hendi sér að bændur, sem hafa á undanförnum fjórum árum orðið fyrir 47% tekjuskerðingu, hafa ekki mikið aflögu frá nauðþurftum til þess að verja til endurbóta eða viðhalds á jörðum sínum. Og jarðirnar um allt land eru að drabbast niður og það er alvörumál.
    Það eru fleiri jarðabætur en vatnsveitur og áburðarkjallarar sem eru mikilvægar. Skurði þarf t.d. á mýrlendi að endurgrafa á svona 15--20 ára fresti ef túnin eiga ekki að verða ónýt og það þarf að endurrækta túnin o.s.frv.
    Frú forseti. Ég vildi láta þetta koma fram í þessari umræðu. Ég tel að hæstv. ráðherrar, hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. hafi verið að vinna ill verk og ekki staðið sig neitt nálægt því sem skyldi. Eina varanlega lækningin er að láta þá hætta í Stjórnarráðinu í vor.