Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 15:23:53 (3038)

[15:23]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995. Fjárln. hefur lokið störfum fyrir 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1995. Ýmsar tillögur voru dregnar til baka og var fjallað um þær að nýju ásamt hefðbundnum verkefnum er lúta að 3. umr. Vissulega hefur mikið vinnuálag fylgt störfum nefndarinnar og ég vil endurtaka þakkir mínar frá því við 2. umr. til samnefndarmanna og starfsfólks og allra þeirra aðila annarra sem hafa lagt sig fram um að greiða götu nefndarinnar. Ég vil sérstaklega geta þess að mikil vinna er fólgin í að ganga frá ýmsum afgreiðslum, skýringum og undirbúningi að prentun þingskjala og fleira.
    Nefndin hefur haft fjárlagafrv. til athugunar frá því við 2. umr. sem fór fram 13. des. sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Pósts og síma, Ríkisútvarpsins, Rafmagnsveitna ríkisins, Húsnæðisstofnunar og Vegagerðar. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar komu og á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frv. og horfur í þjóðarbúskapnum. Samkvæmt venju mættu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar til viðræðna við nefndina fyrir 3. umr. og gerðu grein fyrir efnahagshorfum. Þar kom fram að það lítur út fyrir að þróun efnahagsmála á þessu ári og horfur fyrir næstu ár eru talsvert hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun sem lögð var fram á Alþingi í haust. Tillögur meiri hluta er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til hækkunar útgjalda að fjárhæð 3 milljarðar 211 millj. 700 þús. kr. Framvindan á því ári sem nú er senn liðið virðist ætla að verða nokkru hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Þannig er talið að útflutningur vöru og þjónustu verði talsvert meiri en áætlað var eða aukist um 6,6% að magni til miðað við 2% í þjóðhagsáætlun. Þessi munur stafar af meiri framleiðslu en búist var við í flestum greinum útflutnings og minnkun birgða. Þróun í útflutningi og þjónustu hefur orðið meiri og hagstæðari en gert var ráð fyrir. Að hluta má skýra þá hagstæðu þróun með bata í efnahagslífi á alþjóðavettvangi. Viðskiptakjör hafa batnað meira undanfarna mánuði en búist hafði verið við. Munar þar mestu um hækkun á verðlagi sjávarafurða. Verð á ýmsum öðrum útflutningsafurðum hefur einnig hækkað meira en gert var ráð fyrir. Afgangur á viðskiptajöfnuði stefnir í að verða meiri á þessu ári en búist hafði verið við. Reiknað er með að afgangurinn verði um 6 milljarðar kr. borið saman við 3 milljarða kr. í þjóðhagsáætlun eða sem svarar 1,4% af landsframleiðslu.
    Þjóðhagsstofnun spáir að landsframleiðsla aukist um 2,1% á ári komanda. Þetta er um 0,7% meiri aukning en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsáætlun frá því í haust. Áætlað er að þjóðarútgjöld aukist um 3,3% á árinu 1995. Þetta er mun meiri aukning en í þjóðhagsáætlun. Þar var gert ráð fyrir 2% aukningu.
    Vegna aukinna umsvifa í þjóðarbúskapnum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki samanborið við þjóðhagsáætlun úr 4,8% í 4,6%. Í þjóðhagsáætlun hafði verið reiknað með tveggja milljarða kr. afgangi af viðskiptajöfnuði en nú er gert ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði hagstæður um 4,3 milljarða kr. á árinu 1995. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verði 0,5% meiri en í þjóðhagsáætlun.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku nefndaráliti. Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þskj.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1955 var reiknað með að tekjur ríkissjóðs yrðu 109,4 milljarðar kr. Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð. Hér er tvennt á ferðinni: Annars vegar breyttar þjóðhagsforsendur, fyrst og fremst á árinu 1994, sem skila sér í auknum tekjum bæði á árinu 1994 og 1995. Í grófum dráttum má meta þessi áhrif nálægt 2,5 milljörðum kr. umfram áætlun fjárlagafrv. Þetta er nokkurn veginn sama fjárhæð og kemur fram sem viðbótartekjur á árinu 1994 frá því sem spáð var í haust að teknu tilliti til heldur meiri hagvaxtar og þjóðarútgjalda árið 1995. Hins vegar eru ýmsar breytingar frá fyrri áætlun sem tengjast ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í skattamálum, svo sem sérstök fjáröflun til vegaframkvæmda, þ.e. bensíngjald og þungaskattur, niðurfelling ekknaskatts svonefnds, afnám tvísköttunar á lífeyrisgreiðslur, flýtifyrningar, óbreyttur afsláttur vegna hlutabréfakaupa og álagning hátekjuskatts. Þessi atriði eru ýmist til hækkunar eða lækkunar en samanlagt má meta þau til tæplga 200 millj. kr. lækkunar tekna frá fyrri áætlun. Þegar allt er lagt saman er áætlað að tekjur ríkissjóðs á árinu 1995 verði 112,1 milljarður kr. eða 2,7 milljörðum meiri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Vík ég þá, virðulegi forseti, að helstu skýringum við brtt. meiri hluta. Við 3. umr. gerir meiri hluti fjárln. tillögu um lækkun útgjalda að fjárhæð rúmlega 100 millj. kr. Ekki er fjallað um þá liði hér á eftir nema þar sem sérstök ástæða er til en þeir eru allir tilgreindir sérstaklega í nál. meiri hluta.
    Forsrn. Fjárlagaliður 221, Byggðastofnun. Í tillögum meiri hluta fjárln. við 3. umr. um fjáraukalög 1994 er lagt til að veitt verði 50 millj. viðbótarframlag til Byggðastofnunar til að fjármagna stuðning stofnunarinnar við atvinnuuppbyggingu á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir mestum samdrætti í sauðfjárframleiðslu og tengist viðauka við búvörusamning frá árinu 1991. Einnig gerði meiri hlutinn tillögu um 20

millj. kr. viðbótarframlag til að fjármagna stuðning stofnunarinnar við útgerðir smábáta með aflamark sem hafa sætt mikilli skerðingu á aflaheimildum. Nánari grein er gerð fyrir þessum tillögu í nál. meiri hlutans við 3. umr. fjárlaga frá 1994.
    Hér er lagt til að Byggðastofnun verði veitt 20 millj. kr. viðbótarframlag til hvors þessara verkefna um sig eða samtals 40 millj. kr. á næsta ári.
    Menntmrn. Fjárlagaliður 201, Háskóli Íslands. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um 70 millj. kr. hækkun framlags til Háskóla Íslands. Haft var samráð við háskólarektor um skiptingu þess fjár og er gerð grein fyrir henni hér á eftir. Af þessari fjárhæð eru 46 millj. ætlaðar til kennslu. Samkvæmt upplýsingum háskólans hefur virkum nemendum fjölgað nú í haust. Við það er miðað að háskólinn ráðstafi því fé sjálfur. Fjármálanefnd háskólaráðs notar tiltekna reiknireglu við skiptingu fjármagns til kennslu og verður henni beitt til að skipta fjárveitingu á einstakar deildir. Breytingar sem eru að eiga sér stað á samstarfsáætlunum ESB í menntamálum með tilkomu Sókrates- og Leonardo-áætlananna munu fela í sér aukna vinnu hér heima, bæði hvað varðar kynningu á þeim kostum sem þessar áætlanir bjóða upp á, svo og til framkvæmdar aðild Íslands á þessum vettvangi. Af hálfu menntmrn. mun alþjóðaskrifstofu háskólastigsins fyrirsjáanlega verða falin aukin verkefni í kjölfar þessa. Í ljósi þess er fjárveiting til skrifstofunnar hækkuð um 4 millj. kr. enda verði tryggt með endurskoðun samnings menntmrn. og Háskóla Íslands um alþjóðaskrifstofuna að hún þjóni öllu háskólastiginu og að hlutaðeigandi aðilar fái aðild að stjórn skrifstofunnar.
    Loks er gert ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun til sameiginlegra útgjalda. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsókna- og vísindamálum hefur verið lögð áhersla á að efla vísindarannsóknir í landinu og mun þessari fjárhæð skipt þannig að 15 millj. kr. renni til þess að koma á fót sérstökum stöðum rannsóknaprófessora og 5 millj. eru ætlaðar til Rannsóknasjóðs háskólans.
    Fjárlagaliður 223, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Í ljósi þess að fyrir liggur frv. til laga um framhaldsskóla þar sem mikil áhersla er lögð á að efla rannsóknir og mat á skólastarfi þá leggur meiri hluti fjárln. til að veita 1 millj. kr. til að standa straum af einni rannsóknarstöðu framhaldsskólakennara við Rannsóknastofnun uppeldismála.
    Framlag til fjárlagaliðarins 999, Ýmis framlög, lækkar um sömu fjárhæð þannig að ekki er um heildarhækkun að ræða.
    Fjárlagaliður 355, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Lögð er til hækkun á tækjakaupafé Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum en fjárhæðin er sérstaklega ætluð til kaupa á fjarskiptatækjum fyrir Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum sem er hluti framhaldsskólans.
    Fjárlagaliður 507, Stýrimannaskólinn í Reykjavík. Þar er einnig gerð tillaga um hækkun upp á 2,5 millj. til tækjakaupa.
    Fjárlagaliður 359, Verkmenntaskólinn á Akureyri, viðfangsefni 6.02, sjávarútvegsbraut á Dalvík. Þar er einnig gerð tillaga um hækkun framlaga um 2,5 millj. til tækjakaupa sjávarútvegsbrautarinnar á Dalvík.
    Fjárlagaliður 518, Fiskvinnsluskólinn. Í greinargerð með fjarlagafrv. kemur fram að framlag til Fiskvinnsluskólans lækki um 40% milli ára þar sem ekki er gert ráð fyrir kennslu á vorönn. Ástæða þess er að starfandi er nefnd sem er ætlað að endurskoða sjávarútvegsnám í heild sinni, þar með talið nám Fiskvinnsluskólans. Forsvarsmenn skólans komu á fund fjárln. og óskuðu eftir fjárveitingu til að geta sinnt námskeiðahaldi meðan mál skólans væru í óvissu. Yrði þetta gert bæði til að nýta starfskrafta skólans og aðstöðu. Gerð er tillaga um að skólanum verði veittar 2 millj. kr. til þessa.
    Fjárlagaliður 872 Lánasjóður ísl. námsmanna. Lögð er til 20 millj. kr. lækkun á framlagi ríkisins til Lánasjóðs ísl. námsmanna og ég mun víkja nánar að þessari breytingu í umfjöllun um B-hluta fjárlaga.
    Fjárlagaliður 902, Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til verndunar gamalla húsa hækki um 18 millj. kr. vegna margra og víðtækra verkefna við endurbyggingu húsa í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Hluti af hækkuninni er vegna Hússins á Eyrarbakka.
    Árið 1992 var gerður samningur um framtíðarskipan umsjónar og reksturs Hússins á Eyrarbakka. Ríkissjóður festi kaup á húsinu og greiddi tiltekið fé til endurbóta á grundvelli kostnaðaráætlunar en Þjóðminjasafninu var falið að annast endurbæturnar í samráði við héraðsnefnd Árnesinga og Eyrarbakkahrepp. Þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt 10 millj. kr. viðbótarframlag til verksins í fjárlögum ársins 1994 vantar enn nokkurt fé til að ljúka framkvæmdunum. Því þarf að semja að nýju við héraðsnefnd Árnesinga um lok þessa verks og hlut ríkisins í því.
    Fjárlagaliður 905, Landsbókasafn -- Háskólabókasafn. Miklar umræður hafa átt sér stað um það rekstrarfé sem Landsbókasafni -- Háskólabókasafni er ætlað á næsta ári. Að höfðu samráði við menntmrh. leggur meiri hluti fjárln. til að rekstrarfé safnsins verði hækkað um 30 millj. kr.
    Almennt um safnliði ráðuneyta. Í fjárlögum eru allnokkrir safnliðir þar sem færðar eru ósundurliðaðar fjárveitingar til ýmissa mála svo sem til listamála, til ýmissa heilbrigðismála o.s.frv. Undanfarin ár hefur fjárln. skipt þessum liðum og sent bréf til viðkomandi ráðuneytis þar sem sú skipting er tilgreind. Um þetta hafa skapast nokkrar deilur og eru ekki allir á eitt sáttir um hvort ráðuneytinum væri skylt að hlíta ákvörðun fjárln. Því var leitað álits ríkislögmanns til að fá úr þessu skorið. Það er mat hans að bréf þessi hafi ekki lagalegt gildi þar sem sundurliðunin er ekki samþykkt við afgreiðslu fjárlaga og ekki birt í fjárlögum. Því er nú sýnd skipting þessara safnliða í brtt. meiri hluta fjárln. og munu yfirlit þessi birtast í fjárlögum hliðstætt og tíðkast hefur með sundurliðun stofnkostnaðar viðfangsefna. Það er skoðun mín að mjög

sé til bóta að viðhafa þessa aðferð þegar við framlagningu fjárlaga og lokaafgreiðslu fjárlagafrv. grein fyrir skiptingu þeirra safnliða sem fjárln. hefur skipt um. Nokkrir þessara liða hækka en flestir liðir eru óbreyttir en ekki er fjallað hér frekar um einstaka liði.
    Viðfangsefni 980, Listskreytingasjóður. Við gerð fjárlagafrv. var ákveðið að fella niður framlag til listskreytingasjóðs þar sem skipaður hafði verið starfshópur til þess að endurskoða lög um listskreytingar. Þessi starfshópur hefur ekki enn skilað áliti og að mati meiri hluta fjárln. er ekki rétt að fella framlagið alfarið niður meðan á þessari endurskoðun stendur. Lagt er til að veittar verði 4 millj. kr. m.a. til að gera sjóðnum kleift að standa við fyrri skuldbindingar.
    Fjárlagaliður 982, Listir, framlög, Íslenska óperan. Lagt er til að framlag til Íslensku óperunnar verði hækkað um 12 millj. kr. Samkomulag ríkissjóðs og Íslensku óperunnar rennur út á næsta ári og viðræður eiga sér stað milli fulltrúa menntmrn., fjmrn. og Íslensku óperunnar um gerð nýs samnings.
    Fjárlagaliður 999, Ýmislegt. Lagt er til 1 millj. kr. framlag til hverarannsókna í Hveragerði. Hér er um að ræða samstarfsverkefni milli Hveragerðisbæjar og Iðntæknistofnunar.
    Utanrrn. Fjárlagaliður 101, Utanrrn., aðalskrifstofa, varnarmálaskrifstofa. Lagt er til að framlag til varnarmálaskrifstofu verði fært undir aðalskrifstofu utanrrn. í stað þess að vera á sérfjárlagalið. Einnig eru nokkur viðfangsefni sameinuð undir yfirstjórn aðalskrifstofunnar. Þessar breytingar hafa ekki í för með sér hækkun á fjárveitingum.
    Fjárlagaliður 401, Alþjóðastofnanir. Lögð er til 22 millj. kr. hækkun vegna þátttöku Íslendinga í friðargæslu í Bosníu-Hersegovínu. Um er að ræða tvo lækna og tvo hjúkrunarfræðinga sem mundu fara utan 1. mars nk. og vera fyrst tvo mánuði í þjálfun í Noregi en dvelja síðan sex mánuði í Bosníu-Hersegovínu. Gert er ráð fyrir að annar hópur fari utan í byrjun september.
    Landbrn. Fjárlagaliður 190, Ýmis verkefni. Framlag til Landgræðslusjóðs er fellt niður þar sem uppbyggingu á aðstöðu Landgræðslusjóðs vegna jólatrjásölu er lokið. Sjóðurinn hefur því verulega aukið svigrúm til ráðstöfunar eigin fjár.
    Fjárlagaliðir 211, RALA, og 236, Aðfangaeftirlit ríkisins. Lagt er til að stofnaður verði nýr fjárlagaliður sem fái heitið Aðfangaeftirlit ríkisins. Hér er um að ræða nýja stofnun sem var áður deild hjá RALA og hafði eftirlit með innfluttu fóðri og áburði. Stofnunin er alfarið fjármögnuð með sértekjum en vegna EES-samningsins þarf að aðgreina þessa starfsemi frá RALA. Við afgreiðslu fjárlaga 1994 var framlag til RALA hækkað um 1,5 millj. kr. til að mæta afborgunum af lánum vegna framkvæmda við tilraunastöðina á Stóra-Ármóti. Þetta framlag hefur ekki verið skert og því munu greiðslur til Stóra-Ármóts verða með sama hætti á næsta ári.
    Fjárlagaliður 233, Yfirdýralæknir. Lagt er til að undir fjárlagalið yfirdýralæknis verði stofnað nýtt viðfangsefni, Heilbrigðiseftirlit með sláturhúsum. Inn á liðinn komi 45 millj. kr. sem önnur gjöld og 45 millj. kr. sem sértekjur Hér er um breytt fyrirkomulag á gjaldheimtu að ræða. Í stað þess að sláturleyfishafinn greiði dýralækni sjálfur fyrir að annast heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum þá er gert ráð fyrir að innheimt verði gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð. Eftirlitsgjaldið miðist við raunkostnað, þó ekki hærra en 2,50 kr. á kg kjöts. Á undanförnum árum hafa komið athugasemdir frá eftirlitsaðilum heilbrigðisyfirvalda í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum um að nauðsynlegt sé að breyta því fyrirkomulagi sem hér gildir um greiðslu fyrir heilbrigðisskoðun, kjötskoðunar dýralækna og aðstoðarmanna þeirra. Með breyttu fyrirkomulagi er verið að rjúfa þau tengsl sem eru á milli eftirlitsaðila og þess sem eftirlitið er haft með eins og venja er nú. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að nauðsynleg lagabreyting komi inn í lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995.
    Fjárlagaliður 841, Fiskeldisrannsóknir. Meiri hluti fjárln. leggur til 7 millj. kr. lækkun fiskeldisrannsókna. Ríkissjóður veitti 35 millj. kr. hlutafjárframlag til Stofnfisks hf. í ár og var það fé nýtt til að greiða upp öll afurðalán fyrirtækisins. Fjárþörf Stofnfisks hf. minnkar því verulega milli ára vegna minni fjármagnskostnaðar. Þá hafa umsvif fyrirtækisins minnkað í kjölfar minni umsvifa í rekstri hafbeitarstöðva.
    Fjárlagaliður 851, Greiðslur vegna riðuveiki. Lækkun greiðslna vegna riðuveiki er í samræmi við endurskoðun á áætlun um tíðni riðuveiki.
    Sjútvrn. Fjárlagaliður 202, Hafrannsóknastofnun. Lagt er til að veittar verði 15 millj. kr. til karfarannsókna suður og vestur af landinu. Mjög mikilvægt er að Ísland hafi traust gögn um veru karfastofnsins í íslenskri lögsögu þegar kemur til eiginlegra samningaviðræðna um skiptingu hans. Ráðgert er að Hafrannsóknastofnun fari í leiðangur til að kanna stærð og dreifingu stofnsins í febrúar og mars á næsta ári.
    Fjárlagaliður 204, Fiskistofa. Lagt er til að framlag til Fiskistofu hækki um 3,5 millj. vegna lækkunar sértekna. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að innheimta sérstakt veiðieftirlitsgjald vegna afla krókabáta. Það náði ekki fram að ganga og því er lögð til framangreind lækkun á sértekjum.
    Dóms- og kirkjumrn. Fjárlagaliður 111, Kosningar. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að breyta kosningalögum og draga þannig úr auglýsingakostnaði vegna alþingiskosninga á komandi ári. Fallið hefur verið frá þeim áformum og því er lagt til að framlag til kosninga verði hækkað um 15 millj. kr.
    Fjárlagaliður 302, Rannsóknarlögregla ríkisins. Lögð er til 4,5 millj. kr. hækkun á framlagi til Rannsóknarlöreglu ríkisins þannig að unnt verði að fjölga lögreglumönnum í skattrannsóknadeild um tvo.
    Fjárlagaliður 395, Landhelgisgæsla ríkisins. Framlag til stofnunarinnar hækkar um 35 millj. Hækkunin er ætluð til að standa straum af tryggingum á nýrri björgunarþyrlu og til að tryggja rekstur hennar að

öðru leyti.
    Fjárlagaliður 416, Sýslumaðurinn á Patreksfirði, og 490, Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannembætta. Lagðar eru til millifærslur frá safnlið sýslumannsembættanna í dómsmrn. til sýslumannsembættisins í Patreksfirði, en gert er ráð fyrir að sértekjur embættisins verði lægri á næsta ári en upphaflega var áætlað í fjárlagafrv.
    Fjárlagaliður 413--434, Ýmis sýslumannsembætti. Áætlað er að sértekjur nokkurra sýslumannsembætta hafi verið endurskoðaðar þar sem innheimtukostnaður við löggæslu verður minni en áður var ætlað. Fallið verður frá innheimtu hjá samkomuhúsum vegna löggæslu. Alls er gert ráð fyrir að lækkun sértekna nemi 7,8 millj. kr. og hækkar þá framlag til embættanna um sömu fjárhæð. Embættin og fjárhæðir eru sýndar í nál. meiri hluta.
    Fjárlagaliður 701, Biskup Íslands. Biskupsembættið flytur um þessar mundir aðsetur sitt í höfuðborginni frá Suðurgötu 22 að Laugavegi 31. Fyrirhugað er að ríkissjóður greiði fyrir fram húsaleigu fyrir biskupsstofu vegna nýja húsnæðisins með svipuðum hætti og gert var þegar Suðurgata 22 var keypt. Til að mæta þessum kostnaði er lagt til að framlag til embættisins hækki um 5 millj. kr. Gert er ráð fyrir að gerður verði nýr samningur um þátt ríkisins í húsnæðiskostnaði embættisins.
    Félmrn. Fjárlagaliður 275, Húsaleigubætur. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að öll sveitarfélög tækju upp greiðslu húsaleigubóta frá og með ársbyrjun 1995. Í ljós hefur komið að mörg fjölmenn sveitarfélög munu ekki greiða húsaleigubæur á næsta ári þannig að heildargreiðslur húsaleigubóta verða mun minni en ráðgert hafði verið. Af þeim sökum mun fjárþörf Tryggingastofnunar ríkisins aftur á móti ekki minnka jafnmikið og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Því er lagt til að framlag til húsaleigubóta lækki um 80 millj. kr. en framlag til lífeyristrygginga hækki um 30 millj. kr. Heildarbreytingin er því 50 millj. kr. lækkun.
    Fjárlagaliður 400, Málefni barna og ungmenna. Lögð er til breyting á framsetningu fjárlagaliðarins Málefni barna og ungmenna en heildarfjárveiting breytist ekki. Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna og byggist þessi tillaga á framsetningu á þeim skipulagsbreytingum sem felast í frv.
    Fjárlagaliður 701, Málefni fatlaðra, Reykjavík. Gert er ráð fyrir að rekstur tveggja sambýla í Reykjavík hefjist á næsta ári en rekstur þeirra getur í fyrsta lagi hafist næsta haust þar sem gert er ráð fyrir að byggt verði sérhannað húsnæði. Kostnaður á næsta ári er áætlaður 5,8 millj. kr. miðað við að sambýli taki til starfa í september eða október. Á vegum Reykjavíkurborgar eru rekin tvö heimili fyrir fatlaða sem kostuð eru af ríkissjóði. Þar er um að ræða skammtímavistun á Álfalandi 6 þar sem allt að sex fötluð börn á aldrinum 0--12 ára geta dvalið í einu og sólarhringsvistun að Akurgerði 20 þar sem allt að fjögur börn á aldrinum 6--12 ára geta dvalið samtímis. Í fjárlögum undanfarinna ára hefur sá kostnaður sem af þessum heimilum hlýst verið vanáætlaður en hefur svo verið gerður upp í allsherjaruppgjöri ríkis og Reykjavíkurborgar á ári hverju. Félmrn. hefur lagt áherslu á að gerður verði samningur milli ríkis og Reykjavíkurborgar um rekstur þessara heimila og nú liggja fyrir drög að samningi sem borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt. Vegna þessa er lögð til hækkun til þessara tveggja heimila til samræmis við samningsdrögin.
    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld gert stórátak í aðstoð við fatlaða og aðstandendur þeirra. Heimilum fatlaðra hefur fjölgað ár frá ári og úrræðin orðið fjölbreyttari til að mæta fötlun af ólíku tagi. Engu að síður eru biðlistar eftir úrræðum einkum í Reykjavík og á Reykjanesi, en á næstu árum verður uppbygging þjónustu á þessu svæði forgangsverkefni í málefnum fatlaðra.
    Með aukinni þátttöku Framkvæmdasjóðs fatlaðra í rekstri stofnana hefur tekist að veita meiri þjónustu og skjótari úrlausn en ella. Meiri hluti fjárln. styður þá stefnu og leggur til að veitt verði heimild til að fara af stað með rekstur tveggja nýrra sambýla í Reykjavík á komandi ári og nýrrar skammtímavistunar á Reykjanesi. Þetta er gert í trausti þess að Framkvæmdasjóður fatlaðra taki þátt í rekstri þessara nýju stofnana eins og lög um sjóðinn heimila. Gert er ráð fyrir að byggð verði tvö sérhönnuð sambýli fyrir fatlaða í Reykjavík með það í huga að rekstur þeirra geti hafist í september/október á næsta ári. Áætlaður rekstrarkostnaður er samkvæmt því um 5,8 millj. á næsta ári.
    Fjárlagaliður 702, Málefni fatlaðra, Reykjanesi. Gert er ráð fyrir byggingu nýrrar skammtímavistunar þar sem leitast er við að létta álagi af fjölskyldum og aðstandendum mikið fatlaðra einstaklinga og gera þeim þannig kleift að hafa einstaklingana lengur í heimahúsi en ella. Viðræður standa nú yfir við Kópavogsbæ um hentuga lóð fyrir skammtímaþjónustu sem ætlað er að þjóna Kópavogi og norðurhluta Reykjaneskjördæmis. Starfsemi hennar getur í fyrsta lagi hafist haustið 1995 og miðast áætlaður rekstrarkostnaður að fjárhæð 3,7 millj. við að starfsemin hefjist í október á ári komanda.
    Fjárlagaliður 703, Málefni fatlaðra, Vesturlandi. Allveruleg fjölgun hefur orðið á fötluðum börnum á Snæfellsnesi sem fyrr en síðar mun kalla á skammtímavistun þar. Til þessa hefur verið hægt að mæta þörfum foreldra með þjónustu leikfangasafns. Brýnt er hins vegar að efla starfsemi safnsins og með 0,6 millj. kr. viðbótarframlagi sem hér er lagt til verður hægt að sinna aðkallandi verkefnum.
    Fjárlagaliður 704, Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Fyrir nokkrum árum var þjónusta við fatlaða á Vestfjörðum að verulegu leyti takmörkuð við starfsemi Bræðratungu á Ísafirði. Veruleg breyting hefur orðið á því síðustu 3--4 árin. Áhersla hefur verið lögð á að færa þjónustu út í heimabyggðir og í því skyni hefur verið komið fót útibúum í Strandasýslu, Vestur-Barðastrandarsýslu og Austur-Barðastrandarsýslu. Viðbótarfjárþörf vegna starfsemi þessara útibúa er áætluð 0,7 millj. kr. og er hér lagt til að liðurinn hækki sem því nemur.
    Fjárlagaliður 801, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Hækkun til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða hækkun um 36 millj. kr. til samræmis við breytta tekjuáætlun en 1,4% af skatttekjum ríkissjóðs renna til sjóðsins. Hins vegar er um að ræða hækkun vegna aðgerða til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna sameiningar. Í mars á þessu ári var gert samkomlag milli ríkisstjórnarinnar og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um að jöfnunarsjóður legði fram 300 millj. kr. á árunum 1995--1998 vegna þessa eða allt að 75 millj. kr. árlega. Þessum auknu útgjöldum sjóðsins á að mæta með 35 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði árlega en 40 millj. verða teknar af ráðstöfunarfé sjóðsins. Það láðist hins vegar að gera ráð fyrir ríkissjóðsframlaginu í fjárlagafrv. og er því lögð til 35 millj. kr. hækkun til sjóðsins.
    Fjárlagaliður 984, Atvinnuleysistryggingasjóður. Lögð er til 398 millj. kr. hækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs en ég vík nánar að þessu í umfjöllun um brtt. við B-hluta fjárlaga.
    Heilbr.- og trmrn. Fjárlagaliður 204, Lífeyristryggingar. Eins og fram kom í máli mínu í umfjöllun um félmrn. er lagt til að framlag til lífeyristrygginga hækki um 30 millj. í tengslum við breytingar á framlagi til húsaleigubóta.
    Fjárlagaliður 206, Sjúkratryggingar. Áætlun um útgjöld sjúkratrygginga fyrir árið 1995 hefur verið endurskoðuð. Miðað við útkomu fyrstu tíu mánaða ársins 1994 að viðbættum áætluðum vexti útgjalda á milli ára og að frádregnum áformuðum sparnaði stefna útgjöld sjúkratrygginga í að verða 160 millj. kr. hærri en talið var í fjárlagafrv. Þar til viðbótar hækka útgjöldin um 100 milj. vegna þess að ekki verður af áformum í fjárlagafrv. um að flýta gildistökuákvæðum nýrra laga um verðlagningu og sölu á lyfjum. Þannig stefna heildarútgjöld sjúkratrygginga í rúma 10 milljarða kr. Til lækkunar kemur að Framkvæmdasjóði aldraðra er ætlað að leggja 30 millj. til að fjármagna rekstur hjúkrunarheimila eins og á yfirstandandi ári. Þá eru færðar 35 millj. af sjúkratryggingum á fjárlagalið 510, Heilsuverndarstöðin í Reykjavík, vegna reksturs læknavaktar, sem færist til stöðvarinnar um áramót. Jafnframt eru 25 millj. kr. færðar yfir á fjárlagalið 371, Ríkisspítalar, vegna kaupa á hjartagangráðum og öndunargrímum, en spítalinn hefur séð um innkaup á þeim og innheimt kostnað hjá sjúkratryggingum. Samanlagt hækka sjúkatryggingar því við 3. umr. fjárlaga um 170 millj. kr. frá frv. eftir 2. umr.
    Sjúkrahús Suðurlands. Við lok afgreiðslu fjárln. fyrir 3. umr. barst erindi frá Sjúkrahúsi Suðurlands þar sem vakin var athygli á nokkrum fjárhagsvanda. Ekki voru tök á að ljúka athugun á því máli. Því er gert ráð fyrir að heilbrrn. taki málið til meðferðar og gangi til samninga við stjórn sjúkrahússins með sama hætti og gert var á þessu ári með Sjúkrahús Akraness og Neskaupstaðar.
    Fjárlagaliður 350, Sjúkrahúsið Akranesi. Lagt er til að sértækjuáætlun sjúkrahússins lækki um 5 millj. kr. vegna þess að ekki er gert ráð fyrir hækkun á tekjum vegna breytinga á gjaldtöku fyrir ferliverk.
    Fjárlagaliður 358, Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Það sama á við um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en þar lækkar sértekjuáætlun um 10 millj. kr. vegna þess að ekki er gert ráð fyrir hækkun á tekjum vegna breytinga á gjaldtöku fyrir ferliverk. Þá er framlag til nýbygginga við sjúkrahúsið lækkað um 5 millj. kr. til að færa til samræmis við samning um framkvæmdina og verður því 35 millj. kr.
    Fjárlagaliður 370, Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Lagt er til að liðurinn hækki um 54 millj. kr. Undir þennan lið var í fjárlagafrv. færður 100 millj. kr. sparnaður sem átti að ná með endurskipulagningu á sjúkrahúsum. Gert var ráð fyrir að sparnaðurinn yrði færður á viðkomandi stofnanir og liðurinn hækkaður á móti. Í reynd næst einungis 80 millj. kr. af sparnaðinum fram sem kemur til hækkunar á þennan lið. Frá þeirri fjárhæð dregst hækkun sem orðið hefur á framlagi til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði samtals að upphæð 26 millj. kr. sem samþykkt var við 2. umr. fjárlaga.
    Fjárlagaliður 371, Ríkisspítalar. Í samkomlagi um fjárhagsvanda spítalans er lagt til að fjárframlög til hans hækki um 195 millj. kr. Þar af eru 46 millj. vegna yfirtöku bráðavaktar frá Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti. Um 50 millj. er vegna leiðréttingar á mati á kjarasamningum. Þá eru 15 millj. til reksturs vinnuheimilisins að Gunnarsholti og loks eru 84 millj. til móts við aðra þætti í rekstrinum. Þrátt fyrir að fallið hafi verið frá almennri innheimtu á gjöldum fyrir ferliverk er lagt til að Ríkisspítölum verði ætlað að ná sparnaði í rekstri og auknum sértekjum sem nemur samtals 50 millj. kr. eða jafnhárri fjárhæð og áætluð er í tekjur af ferliverkum í fjárlagafrv. 1995. Loks eru færðar 25 millj. kr. af sjúkratryggingum yfir á tækjalið spítalans en Ríkisspítalar hafa séð um innkaup á hjartagangráðum og öndunargrímum og innheimt kostnaðinn hjá sjúkratryggingum. Er breytingin gerð í samráði við stjórnendur spítalans og Tryggingastofnunar og er mjög til einföldunar. Alls hækkar því framlag til Ríkisspítala um 220 millj.
    Fjárlagaliður 375, Sjúkrahús Reykjavíkur, Borgarspítalinn og St. Jósefsspítalinn, Landakoti. Lögð er til sú breyting að framlög til spítalanna verði færð undir einn fjárlagalið, lið 375, Sjúkrahús Reykjavíkur. Fjárveitingar til sjúkrahúsanna eru þó áfram aðgreindar á viðfangsefni þangað til endanleg sameining hefur farið fram. Lagt er til að framlag til spítalans hækki í samræmi við samkomulag um lausn á fjárhagsvanda hans um 100 millj. kr. tímabundið á árinu 1995. Þá er lögð til 22,7 millj. kr. hækkun á framlagi til Borgarspítala og 6,9 millj. kr. hækkun á framlagi St. Jósefsspítala, Landakoti vegna endurskoðunar á kostnaði vegna kjarasamninga við heilbrigðisstéttir. Þrátt fyrir að fallið hafi verið frá almennri innheimtu á kostnaði fyrir ferliverk er lagt til að Sjúkrahúsi Reykjavíkur verði ætlað að ná sparnaði í rekstri

og auknum sértekjum er nemur 30 millj. kr. eða jafnhárri fjárhæð og áætluð er í tekjur af ferliverkum hjá Borgarspítala og Landakotsspítala í fjárlagafrv. 1995.
    Fjárlagaliður 400, St. Jósefsspítali Hafnarfirði. Lagt er til að sértekjuáætlun sjúkrahússins lækki um 5 millj. kr. vegna þess að ekki er gert ráð fyrir hækkun tekna af innheimtu gjalda fyrir ferliverk.
    Fjárlagaliður 500, Heilsugæslustöðvar, almennt, og 950, Rekstrarhagræðing. Framlag til heilsugæslustöðva almennt hækkar um 40 millj. kr. þar sem ekki er útlit fyrir að áformaður sparnaður í sjúkraflutningum náist nema að hluta á næsta ári og áform um 50 millj. kr. sparnað í rekstri heilsugæslustöðva muni ekki skila árangri fyrr en á árinu 1996. Samanlagt hækkar liðurinn því um 90 millj. kr. Á móti er lagt til að framlag til rekstrarhagræðingar lækki um 15 millj.
    Fjárlagaliður 510, Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að færa umsjón með læknavakt í Reykjavík frá Tryggingastofnun ríkisins til heilsuverndarstöðvarinnar frá og með næstu áramótum. Viðræður hafa staðið yfir um breytinguna við Læknavaktina hf. í Reykjavík. Er því gerð sú tillaga að 35 millj. kr. verði fluttar frá sjúkratryggingum til stöðvarinnar.
    Fjmrn. Fjárlagaliður 381, Uppbætur á lífeyri. Lækkun um 20 millj kr. vegna uppbóta á lífeyri er samkvæmt endurskoðun á áætlun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Fjárlagaliður 402, Fasteignamat ríkisins. Lagt er til að stofnað verði nýtt viðfangsefni á fjárlagalið Fasteignamats ríkisins. Þar verði fært 2 millj. kr. framlag til yfirfasteignamatsnefndar. Hér er um tilfærslu milli liða að ræða og veldur ekki breytingum á fjárhæðum.
    Fjárlagaliður 481, Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Lagðar eru til nokkrar breytingar við 6. gr. fjárlaga og eru þær sýndar í brtt. meiri hluta fjárln. Vegna þeirra er lögð til 100 millj. kr. hækkun á útgjöldum samkvæmt heimildarákvæðum. Vil ég hér geta sérstaklega tveggja þessara atriða.
    Annars vegar er heimild fyrir fjmrh. til að kaupa húsnæði fyrir Háskólann á Akureyri. Í því sambandi hefur verið rætt um að háskólinn fái húsnæðið á Sólborg á Akureyri til umráða og að nauðsynlegar endurbætur verði gerðar til að gera þann flutning mögulegan. Hins vegar er heimild til að greiða allt að 25 millj. kr. til sérstaks átaks um þróun á vistvænum landbúnaðarafurðum enda komi sama fjárhæð úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
    Þá hefur borist erindi um styrk vegna lítilla hitaveitna sem lítillega komu til umræðu áðan við umræðu um fjáraukalög. Á vegum iðnrn., fjmrn. og Ríkisendurskoðunar hefur verið lögð fram skýrsla um málið. Þar er gerð tillaga um lengingu lána og frestun afborgana. Meiri hluti fjárln. hefur fallist á þær tillögur en gert ráð fyrir því að litlar hitaveitur njóti auk þess aðstoðar á grundvelli heimildar í 6. gr. fjárlaga, liðar 510.
    Fjárlagaliður 801, Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Áætlun um vaxtagreiðslur af lánum ríkissjóðs á árinu 1995 hefur verið endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði. Erlendir skammtímavextir hafa haldið áfram að hækka og vextir í útboðum ríkissjóðs á skammtímalánum hafa hækkað úr 4,7% í 5,5% frá því í september sl. og útlit er fyrir að þeir kunni að fara eitthvað hækkandi í samkeppni við skammtímavexti erlendis. Þá hefur verið tekið tillit til þess að halli á fjárlögum 1995 verður nokkru meiri en í fjárlagafrv.
    Fjárlagaliður 990, Ríkisstjórnarákvarðanir. Til þess að unnt verði að fylgja eftir framkvæmd EES-samningsins af Íslands hálfu er nauðsynlegt að fjölga fulltrúum ráðuneyta í Brussel. Þau ráðuneyti sem æskilegt er að eigi fulltrúa í Brussel hafa komið sér saman um sameiginlegan fulltrúa. Er gert ráð fyrir að stofna fjögur ný störf í Brussel vegna þessa. Því hækka launaútgjöld nokkurra aðalskrifstofa eins og gerð er nánari grein fyrir í nál. Heildarkostnaður er 20 millj. kr. og er lagt til að helmingur hans komi til lækkunar í framlagi á þessum fjárlagalið.
    Fjárlagaliður 999, Ýmislegt. Breytingar á þessum fjárlagalið eru tvær. Lagt er til að framlag til ýmissa endurgreiðslna hækki um 20 millj. kr. Hækkunin er vegna endurgreiðslu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts til björgunarsveita vegna innflutnings þeirra á björgunartækjum. Inn í þennan lið bætast flotvinnubúningar fyrir sjómenn þar sem styrkur til endurgreiðslu nemur jafnvirði virðisaukaskatts. Við 3. umr. um fjáraukalög var lögð til 10 millj. kr. hækkun vegna þess vanda sem björgunarsveitirnar standa frammi fyrir á yfirstandandi ári vegna endurnýjunar tækja. Báðar þessar breytingar eru í samræmi við álit nefndar sem fjmrh. skipaði til að fjalla um þessi mál. Í nefndinni voru fulltrúar fjmrn., dómsmrn., Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar. Henni var ætlað að kanna ástand og umfang tækjabúnaðar, fjármögnun hans, hve stór tækjafloti væri nauðsynlegur og hver væri eðlileg endurnýjun. Jafnframt var nefndinni ætlað að gera tillögur um árlega endurgreiðslu opinberra gjalda vegna endurnýjunar tækjanna. Við afgreiðslu fjáraukalaga 1994 var leitað eftir 3 millj. kr. heimild til greiðslu verðjöfnunargjalda við útflutning á sömu vöru og nú eru lögð á verðjöfnunargjöld við innflutning.
    Tillaga um 5 millj. kr. framlag í fjárlögum 1995 er af sama toga og er áætlaður kostnaður á heilu ári. Hér er einkum um að ræða sælgætisframleiðslu. Framleiðendum er nú víða gert að greiða verðjöfnunargjöld við innflutning til Evrópulanda sem nemur mismun á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði í markaðslandinu. Tilgangurinn með greiðslu verðjöfnunargjalda við útflutning er að gera framleiðendur eins setta og ef þeir hefðu keypt hráefni í framleiðslu sína á heimsmarkaðsverði.
    Samgrn. Fjárlagaliður 211, Vegagerðin. Ríkisstjórnin hefur samþykkt sérstakt átak í vegamálum á árunum 1995--1999 og er lögð til 1.250 millj. kr. hækkun á fjárlagalið Vegagerðar. Alls er áætlað að átakið kosti 3,5 milljarða kr. og er það fjármagnað til helminga með sérstakri hækkun á bensíngjaldi og þungaskatti og til helminga með framlagi úr ríkissjóð. Áhersla er lögð á framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og áður segir er framlag á næsta ári áætlað 1.250 millj. en þess er vænst að hækkun tekjustofna skili um 300 millj. kr. þannig að nettóframlag úr ríkissjóði á næsta ári nemur tæpum 1 milljarði kr. Að auki eru lagðar til tilfærslur milli liða á fjárlagalið Vegagerðar en þær hafa ekki í för með sér breytingu á heildarfjárhæðum.
    Hafnamál. Samkvæmt hafnalögum er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um hafnamál, þar á meðal um skerðingu framlags til einstakra hafna á grundvelli 27. gr. hafnalaga. Ekki hefur verið sett ný reglugerð um hafnamál og liggur því ekki fyrir með hvaða hætti skerðingarákvæðin verða á grundvelli nýrra laga. Við afgreiðslu fjárlaga eru fjárveitingar til hafnagerðar miðaðar við óbreyttar reglur um skerðingu á framlögum til einstakra hafna. Þá er gert ráð fyrir að þegar reglugerð hefur verið sett taki uppgjör mið af henni, þó þannig að skerðingar í ár verði ekki meiri en þær sem nú gilda hjá einstökum höfnum. Gert er ráð fyrir að reglur um skerðingu verði byggðar á úttekt um hafnaþarfir.
    Fjárlagaliður 472, Flugvellir. Framlag til reksturs flugvalla hækkar um 17 millj. kr. og verður 284,7 millj. Hækkunin skýrist sem hér segir: 4,8 millj. kr. fara til Egilsstaðaflugvallar til að unnt verði að völlurinn þjóni sem alþjóðavaraflugvöllur, 2,6 millj. kr. fara til aukins eftirlits og viðhalds vita, 3,8 millj. til aukinnar kostnaðarhlutdeildar Flugmálastjórnar í alþjóðlegri eftirlitsskyldu, 3,8 millj. vegna launahækkunar slökkviliðsmanna í kjölfar kjarasamninga og loks 2 millj. kr. til flugminjasafns að Hnjóti.
    Fjárlagaliður 651, Ferðamálaráð. Lagt er til að veittar verði 5 millj. kr. til viðhalds fjölsóttra ferðamannastaða, svo og að lögbundið framlag til ferðamála hækki um 20 millj. kr. og er það ætlað til skuldbreytinga hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið.
    Iðnrn. Fjárlagaliður 371, Orkusjóður, 399, Ýmis orkumál. Lagt er til að styrking dreifikerfis í sveitum hækki um rúmlega 85 millj. kr. og verði 100 millj. Framlagið er jafnframt fellt niður hjá Orkusjóði og fært á safnlið iðnrn.
    Ýmis orkumál. Nefnd um viðskipti ríkissjóðs og Rariks, arðgreiðslur, rafdreifikerfi í sveitum o.fl., hefur skilað iðn.- og viðskrh. sameiginlegum niðurstöðum, en í nefndinni voru fulltrúar iðn.- og viðskrn., fjmrn. og Rariks. Meðal tillagna er að arðgreiðslur Rariks í ríkissjóð árið 1995 og 1996 verði 100 millj. kr., eða tæplega 1% af eigin fé, en því fé verði haldið inni í fyrirtækinu og varið til styrkingar og endurnýjunar rafdreifikerfis í sveitum. Ég vík nánar að þessu í umfjöllun um B-hluta fjárlaga.
    Umhvrn. Við 2. umr. fjárlaga var fjárlagaliðurinn 401, Náttúrufræðistofnun Íslands, hækkaður um 2,5 millj. kr. sem ætlað er til tölvu- og gagnakerfis. Í ræðu minni kom þó ekki fram að einungis er um hluta framlags að ræða en áætlaður heildarkostnaður er um 7 millj.
    Fjárlagaliður 190, Ýmis verkefni. Lögð er til 20,5 millj. kr. fjárveiting vegna lokafundar til undirbúnings ráðstefnu gegn mengun frá landsstöðvum. Fundurinn verður haldinn hér á landi í byrjun marsmánaðar á næsta ári.
    Fjárlagaliður 301, Skipulagsstjóri ríkisins. Lagðar eru til tilfærslur á milli liða í fjárlagalið skipulagsstjóra ríkisins sem hafa ekki í för með sér breytingar á heildarfjárhæðum.
    Fjárlagaliður 410, Veðurstofa Íslands. Verulegur kostnaðarauki hefur orðið hjá stofnuninni vegna kjarasamninga sem yfirstjórn hennar gerði við starfsmenn sína í kjölfar uppsagna veðurfræðinga snemma á árinu 1993. Þegar þeir samningar voru gerðir var því lýst yfir af hálfu stofnunarinnar að þeir mundu rúmast innan ramma óbreyttra fjárveitinga. Þá hefur umhvrh. ætlað stofnuninni að mæta auknum útgjöldum vegna breytinga á ráðningarkjörum ákveðinna starfshópa með niðurskurði á öðrum sviðum, eins og það var orðað í greinargerð fjárlagafrv. fyrir árið 1994. Þetta hefur ekki gengið eftir og virðist því óhjákvæmilegt að leggja stofnuninni til 5 millj. kr. hækkun framlags til að mæta auknum launagreiðslum.
    Eins og við 2. umr. gerir nefndin tillögu um nokkrar tæknilegar breytingar og er gerð grein fyrir þeim í lok umfjöllunar um 4. gr. í nál. Hér er einungis um að ræða leiðréttingar á gjaldategundum en ekki neinar efnisbreytingar og því ekki fluttar um þær brtt.
    Skýringar við einstakar breytingar B-hluta. B-hlutaáætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frv. til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga og nýrra upplýsinga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða á næsta ári. Í framhaldi af því gerir meiri hluti fjárln. tillögu um breytingar á 13 áætlunum í B-hluta. Tillagan gerir ekki ráð fyrir gjaldskrárhækkunum umfram það sem fram kom í fjárlagafrv.
    Menntmrn. Fjárlagaliður 872, Lánasjóður ísl. námsmanna. Eins og fram kemur í nál. er áætlun Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrir næsta ár breytt til samræmis við reynslu yfirstandandi árs, en gera má ráð fyrir að útlán verði rúmlega 2.700 millj. kr. á árinu. Álíka margir hafa sótt um lán fyrir skólaárið 1994--1995 eins og á síðasta skólaári. En líklegt er að tekjur námsmanna og maka þeirra hafi dregist saman á árinu 1994. Því er lagt til að gengið verði út frá því að veita 2.900 millj. kr. til útlána á næsta ári í stað 3.070 millj. eins og miðað er við í fjárlagafrv.
    Í annan stað er nú gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs standi undir 51% af námsaðstoðinni og er þá miðað við 6% reiknivexti. Undanfarin ár hefur þetta hlutfall miðast við 54% en eins og fram kom í greinargerð með fjárlagafrv. var skipaður starfshópur til að meta að nýju þetta styrkhlutfall ríkissjóðs að

fenginni reynslu af framkvæmd laga og reglna um sjóðinn og er breytingin í samræmi við niðurstöður starfshópsins. Að lokum er gert ráð fyrir að ríkisábyrgðagjald falli niður. Við það lækkar lántökukostnaður úr 4% í 2%. Það hefur í för með sér um 80 millj. kr. sparnað.
    Að teknu tilliti til framangreindra atriða er lagt til að framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna lækki um 20 millj. kr. og verði 1.480 millj. á næsta ári.
    Fjárlagaliður 974, Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í 2. umr. fjárlaga var framlag til hljómsveitarinnar hækkað um 6 millj. kr. vegna kjarasamninga við hljóðfæraleikara. Þar sem ríkissjóður greiðir 56% rekstrarkostnaðar hækkar útgjaldagrunnur hljómsveitarinnar um 10,7 millj. miðað við þessa breytingu. Sú hækkun er að mestu færð á laun en einnig á önnur rekstrargjöld. Er þá miðað við að áætlun fjárlaga sé sem næst raunverulegum útgjöldum hljómsveitarinnar og að henni takist að halda sér innan þeirra marka sem fjárhagsáætlun setur.
    Utanrrn. Fjárlagaliður 101, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvellli. Talið er að sala Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli verði um 20 millj. kr. minni á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Stafar það af því að aukin samkeppni milli fríhafna hefur leitt til lækkaðrar álagningar sem aftur leiðir til þess að skil í ríkissjóð verða 20 millj. kr. lægri.
    Félmrn. Fjárlagaliður 270, Byggingarsjóður ríkisins, húsbréfadeild. Endurmat á forsendum sem lagðar voru til grundvallar fjárlagatillögum sjóðsins í fjárlagafrv. hefur í för með sér að gera þarf nokkrar breytingar í áætlun sjóðsins, einkum varðandi vaxtagreiðslur og lánahreyfingar. Greiddir vextir hækka um 10 millj. kr. og innheimtir um 135 millj. Greiddar afborganir hækka um 70 millj. og innheimta um 55 millj. Þá aukast aðrar tekur um 33 millj. kr. Samanlagt leiða þessar breytingar til sjóðsaukningar að fjárhæð 143 millj.
    Fjárlagaliður 271, Byggingarsjóður ríkisins. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 var litið fram hjá innbyrðis viðskiptum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í reynd selur Byggingarsjóður ríkisins skuldabréf og endurlánar Byggingarsjóði verkamanna. Vegna þessa hækka tekin lán Byggingarsjóðs ríkisins um 300 millj. kr. Jafnframt þarf að gera nokkrar leiðréttingar á áætluðum vaxtagreiðslum og lánahreyfingum vegna skekkju sem varð í útreikningum við gerð fjárlagatillagna. Þannig verða greiddir vextir um 538 millj. kr. hærri en í frv. og innheimtir vextir verða 231 millj. kr. lægri. Greiddar afborganir lækka um 949 millj kr. og innheimtar um 500 millj. Útstreymi af sparimerkjareikningum lækkar um 100 millj. kr. frá frv. Loks aukast lánveitingar til Byggingarsjóðs verkamanna um 80 millj. vegna endursölu- og almennra kaupleiguíbúða.
    Fjárlagaliður 272, Byggingarsjóður verkamanna. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 var gert ráð fyrir að sjóðurinn selji skuldabréf beint. Í reynd er það Byggingarsjóður ríkisins sem selur skuldabréfin og endurlánar síðan Byggingarsjóði verkamanna. Af þessum sökum hækka tekin lán um 300 millj.
    Þá eru gerðar leiðréttingar á nokkrum skekkjum sem urðu í útreikningum við gerð fjárlagatillagna. Þannig hækka greiddir vextir um 222 millj. frá frv. og innheimtir vextir um 84 millj. Aðrar tekjur lækka um 18,6 millj. en þá breytingu má rekja til vaxta og uppgjörs vegna framkvæmdalána. Afborganir lána lækka um 301 millj. kr. en innheimtar afborganir hækka um 56 millj. Þá hækka lánveitingar um 580 millj. og í lántökum bætast við 80 millj. vegna endursölu- og almennra kaupleiguíbúða við þær 300 millj. sem áður voru nefndar.
    Fjárlagaliður 984, Atvinnuleysistryggingasjóður. Endurskoðuð áætlun um sjóðinn gerir ráð fyrir að heimilt verði að verja allt að 62 millj. til lánveitinga og styrkja og til að kosta námskeiðahald. Einnig er áformað að draga úr kostnaði við þá þjónustu sem úthlutunarnefndir, sýslumenn og greiðsluaðilar hafa með höndum í tengslum við sjóðinn. Sá kostnaður er nú áætlaður 50 millj. Þá hefur náðst samkomulag við Samband ísl. sveitarfélaga um áframhaldandi samvinnu um átaksverkefni til að draga úr atvinnuleysi og er stefnt að því að þau verði ekki minni að umfangi en í ár. Samkvæmt samkomulaginu munu sveitarfélögin hins vegar ekki leggja sjóðnum til sérstakt 600 millj kr. framlag vegna þeirra verkefna eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Loks bendir ný spá um atvinnuleysi fyrir árið 1995 til þess að það verði 0,3% minna en áður var gert ráð fyrir, eða 4,6% að meðaltali í stað 4,9%. Að samanlögðu er nú miðað við að framlag úr A-hluta ríkissjóðs hækki um 394 millj. af framangreindum ástæðum.
    Fjmrn. Fjárlagaliður 402, Fasteignamat ríkisins. Gerð er sú breyting á framsetningu varðandi Fasteignamat ríkisins að yfirfasteignamatsnefnd fær nú sérstakt viðfangsefni í A-hluta fjárlaga. Við það lækkar launaliður stofnunarinnar í B-hluta um 2 millj. og jafnframt lækka framlög úr ríkissjóði um sömu fjárhæð.
    Samgrn. Fjárlagaliður 101, Póst- og símamálastofnun. Rekstraráætlun fyrirtækis hefur verið tekin til endurskoðunar. Er nú áætlað að rekstrargjöldin aukist um 235 millj. kr. en að auknar rekstrartekjur muni vega það upp og bæta afkomuna um 107 millj. Þá er talið að greiðsluafgangur frá yfirstandandi ári verði 350 millj. kr. meiri en áætlað var með fjárlagafrv. Fyrirhugað er að þessi afkomubati verði nær allur nýttur til aukinnar fjárfestingar. Þyngst vegur 300 millj kr. fjárfesting í sæsímastrengnum Canus milli Kanada og Bandaríkja Norður-Ameríku sem er framhald af Cantat-3 ljósleiðarastrengnum milli Evrópu og Kanada. Afgangnum verður að mestu varið til framkvæmda við ljósleiðarakerfi innan lands og sjálfvirkt tilkynningakerfi.

    Fjárlagaliður 110, Söludeild Póst- og símamálastofnunar. Tekjur og gjöld söludeildar Póst- og símamálastofnunar breytast einnig í samræmi við endurskoðaða rekstraráætlun. Meginbreytingin er sú að hagnaður fyrirtækisins er nú talinn verða 31 millj. kr. en var áætlaður 41 millj. í upprunalegu frv.
    Fjárlagaliður 330, Hafnabótasjóður. Framlag A-hluta til Hafnabótasjóðs lækkar og verður 40,6 millj. í stað 128 millj. eins og áætlað var í upprunalegu frv. Er það í samræmi við breytingu sem gerð var við 2 umr. fjárlaga. Tilfærslur úr Hafnabótasjóði lækka um samsvarandi upphæð.
    Iðnrn. Fjárlagaliður 321, Rafmagnsveitur ríkisins. Sú breyting er gerð á þessum fjárlagalið að tekið er framlag úr ríkissjóði, 100 millj. kr., sem verður varið til styrkingar dreifikerfa í sveitum. Á fjárlagalið Orkusjóðs í A-hluta er gert ráð fyrir 14,6 millj. kr. framlagi til þess verkefnis í fjárlagafrv. en nú er miðað við að hann falli niður. Þetta þýðir því í raun hækkun um 85,4 millj. Þessi breyting leiðir til 100 millj. kr. hækkunar á fjárfestingarlið rafmagnsveitnanna og verður hann þá 640 millj. kr.
    Fjárlagaliður 371, Orkusjóður. Framlag til viðfangsefnisins 621, Styrking dreifikerfis í sveitum, 14,6 millj. kr. fellur niður í A-hluta eins og áður er getið og lækkar því framlag til Orkusjóðs í B-hluta um sömu fjárhæð og verður 28 millj.
    Virðulegi forseti. Í ljós hefur komið villa í framsetningu B-hluta fjárlaga. Sparnaðartillögur fjárln. gera ráð fyrir 7 millj. kr. lækkun á framlagi til fiskeldisrannsókna sem er í B-hluta fjárlaga. Láðst hefur að breyta framsetningu tekna og gjalda laxeldisstöðva ríkisins í B-hluta til samræmis við þessa lækkun á framlagi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. Það má öllum ljóst vera að ábyrgð á meginstefnumiðum í frv. hvílir að sjálfsögðu á stjórnarþingmönnum. Um leið og ég ítreka þakkir til samnefndarmanna minna vil ég ljúka máli mínu með því að leggja til að tillögur meiri hluta fjárln. verði samþykktar og fjárlög fyrir árið 1995 verði samþykkt sem lög frá Alþingi með þessum breytingum.
    Undir nál. meiri hlutans rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Árni Mathiesen, Gunnlaugur Stefánsson og Einar K. Guðfinnsson.