Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 18:00:58 (3058)



[18:00]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi skattabreytingar liggur fyrir í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni að gert er ráð fyrir því að undirbúa upptöku fjármagnstekjuskatts þannig að eignatekjur verði skattlagðar og ég tel því að það mál sé í eðlilegum farvegi.
    Varðandi það sem kom fram í ræðu hv. þm., Guðmundar Bjarnasonar, um vanda daggjaldastofnana, tel ég að það mál sé meðal margra sem þurfi að vinna að og ég held að þar eigi að fara svipaðar leiðir og ríkisstjórnin hefur gert varðandi einstök sjúkrahús, þ.e. að ganga til samninga við stjórnendur spítalanna og ná niðurstöðu um rekstur þeirra þannig að miðað sé við aðstæður og eðli hverrar stofnunar og reynt að ná tökum á rekstri sjúkrastofnana án þess að það sé gert í fjárlögum. Það á að byrja á því að ganga til samninga og ná niðurstöðu og mér sýnist að samningar, sem heilbrrh. hefur staðið fyrir gagnvart stóru sjúkrahúsunum og reyndar fleiri sjúkrahúsum á þessu ári, séu vísbending um það hvað hægt er að gera og hvað eigi að gera. Ég tel að það ætti að líta til þess einnig hvað varðar daggjaldastofnanirnar.
    Varðandi heimildir 6. gr. tel ég að það sé í fyllsta máta eðlilegt að inn í heimildum á 6. gr. sé sala hlutabréfa og breytingar eins og t.d. á SKÝRR, að eignarhluta ríkisins verði breytt í hlutafé í því fyrirtæki. Hins vegar liggur alveg fyrir að meðeigandinn er Reykjavíkurborg. Það þarf því tvo til að gera fyrirtækið að hlutafélagi þannig að R-listinn í Reykjavík á væntanlega eftir að fjalla um það mál.