Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 18:03:16 (3059)


[18:03]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka yfirlýsingu hv. 1. þm. Vesturl. um það að þrátt fyrir það sem hann sagði í fyrra andsvari sínu að það sé að finna yfirlýsingar hjá hæstv. ríkisstjórn og núverandi stjórnarflokkum um skattahækkanir þannig að það sé ekki bara stjórnarandstaðan eins og mátti skilja á fyrra andsvari hans sem hefur lagt til hugmyndir í þá veru. Enda er þetta opinbert og kannski ekki ný yfirlýsing en það var ágætt að fá það staðfest hér út af því sem fram kom í hinu fyrra andsvari.
    Ég fagna því líka ef gengið verður til samninga og samkomulags við þær daggjaldastofnanir og þær aðrar heilbrigðisstofnanir sem eiga við verulegan rekstrarvanda að glíma, að fulltrúar ríkisvaldsins eða ráðuneytanna setjist niður með þeim aðilum sem fást við rekstrarvandamálin dag frá degi og hafa auðvitað verulegar áhyggjur af því að sjá fram á hallarekstur sem þeir eiga erfitt með að ráða við og nánast alveg útilokað að leysa öðruvísi en með þeim hætti sem ég rakti áðan, þ.e. að draga umtalsvert úr þjónustu stofnananna. Það er auðvitað óásættanlegt og alls ekki mögulegt í því ástandi sem ríkir á mörgum þessum stofnunum og eftirspurnin er mikil eftir þjónustu sem stofnanirnar veita. Ég vona sannarlega að gengið verði í það og að hv. 1. þm. Vesturl. beiti sér fyrir því að slíkt verði gert meðan hann hefur aðstæður til.
    Að lokum varðandi ákvæðin í 6. gr. sem ég gerði ekki sérstaklega að umtalsefni í ræðu minni áðan þá þarf ég ekki að ítreka það annað en segja og lýsa því yfir að ég er algerlega ósammáa því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. Ég tel að svona ákvarðanir um sölu ríkisfyrirtækja eigi ekki að taka í 6. gr. heimildum með lítilli umræðu og lítilli umfjöllun. Það sé miklu stærra mál heldur en svo. Það verði að fjalla um þau í hv. þingi ítarlega og af nefndum sem gefa sér tíma til þess að fara vel ofan í þau mál.