Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 20:50:42 (3069)


[20:50]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna ræðu hv. 6. þm. Vestf. vil ég nefna tvennt. Annars vegar varðandi húshitunarkostnaðinn. Það er staðreynd að niðurgreiðslur á húshitun á svokölluðum köldum svæðum hafa aukist á þessu kjörtímabili. Þær hafa aukist en hins vegar er það rétt sem hv. þm. sagði að það hefur tekist að lækka raunkostnað eins mikið eins og að var stefnt. Þess vegna er þessi grein 5.10 hér inni í 6. gr. fjárlaga. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að bæta við þær niðurgreiðslur sem nú þegar eru á köldu svæðunum varðandi húshitun. Einnig að ganga til samninga við orkufyrirtækin og þá sérstaklega Landsvirkjun um að Landsvirkjun lækki orkuverðið til húshitunar. Þetta er megininntak þessarar greinar og það er rík ástæða til að vekja athygli á því og einnig að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. þessa mánaðar er sérstök áhersla lögð á lækkun húshitunarkostnaðar og í ljósi þeirrar yfirlýsingar er þessi liður í 6. gr. fjárlaga kominn.
    Varðandi það atriði sem hv. þm. nefndi og varðar lóranmastrið á Gufuskálum þá er hér inni heimildarákvæði í 6. gr. um að Ríkisútvarpið kanni kaup á langbylgjusendi. Það er nú þannig að allt þarf sinn undirbúning og það þarf tíma til að vinna að þessu en það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur falið Ríkisútvarpinu að taka við mastrinu. Með þessu ákvæði í 6. gr. eru tekin af tvímæli, tekið af skarið um það að undirbúningur að kaupum langbylgjusendis verði hafinn á vegum Ríkisútvarpsins enda er það mikið öryggisatriði og mikið atriði fyrir flotann við ströndina að að þessu máli verði unnið og ég treysti hæstv. menntmrh. og fjmrh. til að vinna að því.