Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:27:53 (3074)


[21:27]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð því miður að leiðrétta þessar tölur hjá hv. þm. Ég fékk upplýsingar í fjmrn. í dag um að heildar virðisaukaskattur af húshitun sem innheimtur væri væri um 530 millj. kr. og það væru um 130 millj. sem væru endurgreiddar í gegnum virðisaukaskattskerfið þannig að um 400 millj. yrðu eftir í ríkissjóði. Við vitum að það voru tæpar 400 millj. á fjárlögum til niðurgreiðslna þannig að ríkissjóður fer út úr á núlli fyrir þetta ár sem nú er að líða og hann gerði það líka fyrir síðasta ár. Þannig að þar sluppu menn við niðurgreiðslurnar sem þeir höfðu greitt áður. Og þó svo að nú séu menn að ranka við sér og séu farnir að átta sig á því að þetta geti nú verið býsna hættulegt mál fyrir þá, að hafa ekki staðið sig betur en þetta og setji 50 millj. inn á 6. gr., þá held ég að það sé lítið til að hæla sér af og muni illa duga. En það er þó aldrei of seint að reyna að bæta úr þegar illa hefur til tekist eins og í þessu tilviki.