Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:30:17 (3076)


[21:30]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. hafi eitthvað misskilið mig ef hann hefur haldið að ég væri að halda því fram að þessi innheimta á virðisaukaskatti af köldu svæðunum dygði fyrir niðurgreiðslunni þar. Það er ekki það sem ég var að segja. Það eru til ódýrar hitaveitur, bæði hér í Reykjavík og líka víðar um landið og þær eru auðvitað að borga inn í þessa jöfnun. Ég er ekkert að setja út á aðferðina sem slíka, ég er bara að setja út á það að ríkissjóður skuli hafa verið látinn sleppa á núlli frá þessu, að menn skyldu hafa innheimt þetta allt saman af hitaveitunum til þess að jafna út og komast ekki lengra áfram en þetta, að vera í sama farinu úr því að allar tekjur voru nú farnar að koma inn með þessum hætti. Það er síðan auðvitað umhugsunarefni hvað menn ætla að gera núna, en ég tek bara undir það og sannarlega ætla ég ekki að draga úr því, að menn komi sér nú af stað í þetta verkefni. En það er ansi seint í rassinn gripið þegar kjörtímabilið er að verða búið að koma þá með góðar og frómar óskir um það að bjarga sér upp úr pyttinum. Það hefði verið ástæða til að taka á þessum málum fyrr og standa við stóru orðin. En betra er seint en aldrei, ég get fallist á það.