Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 21:31:52 (3077)


[21:31]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mergur málsins er náttúrlega sá að það er nú miklu minni munur á húshitunarkostnaði á köldu svæðunum og húshitunarkostnaði á svæðunum með lágt húshitunarverð heldur en var þegar hv. þm. sem hér talaði áðan hafði áhrif í ríkisstjórn.
    Það sem hefur gerst er að niðurgreiðslur ríkisins hafa aukist um u.þ.b. eða að mig minnir, hreinar niðurgreiðslur, yfir 60%. En á sama tíma hefur það gerst að þegar afsláttur Landsvirkjunar var í upphafi þess tímbils 1991 um 11 þús. kr. rúmar á vísitöluhúsið þá er hann nú ekki nema 9 þús. kr. Þannig að það hefur með öðrum orðum dregið úr afslætti Landsvirkjunar til húshitunar á köldu svæðunum á sama tíma og ríkið hefur verið að stórauka niðurgreiðslurnar. Ef Landsvirkjun hefði aukið afslátt sinn í hátt við það sem ríkið hefur aukið niðurgreiðslur sínar þá gæti ég trúað því að það væri u.þ.b. búið að ná því marki sem orkuverðsjöfnunarnefnd setti sér, sem er það að húshitunarkostnaður á köldu svæðunum væri ekki yfir 68 þús. kr. rúmar á ári fyrir vísitöluhús. En það að orkufyrirtækin hafi ekki fylgt ríkissjóði eftir veldur því að það er meiri munur en stefnt var að.
    En ég ítreka það, virðulegi forseti, sem er kjarni málsins, að það er nú meiri jöfnuður milli fólks á köldu svæðunum og fólks á ódýru hitaveitusvæðunum, það er minni munur á milli hitunarkostnaðar þessara aðila og miklu minni, meira að segja, heldur en var þegar hv. þm. sem hér talaði áðan hafði áhrif á stjórn landsins.