Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:01:53 (3082)


[22:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins um eitt atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Það varðar halla á ríkissjóði, greiðsluhalla og reikningshalla. Ég vil taka eftirfarandi fram.
    Fjárlög eru gerð upp á greiðslugrunni, sýna sjóðsstreymi, og það liggur nú fyrir væntanlega að í fyrsta skipti í langan tíma verður halli á fjárlögum yfirstandandi árs lægri heldur en var í fjárlögunum sjálfum, þ.e. halli ríkisfjármálanna. Í öðru lagi var breytt reikningsaðferð í uppgjöri ríkisreiknings árið 1989 og þá voru skuldir ríkisins færðar upp um eina 60--70 milljarða. Það þýddi auðvitað ekki að halli á því ári hefði verið 60--70 milljarðar heldur var þetta bara breyting á reikningsuppgjöri. Ég á von á því að ef við tökum mun á skuldum og eignum, eins og þær eru færðar upp í ríkisreikningi, þá sýni höfuðstóllinn skuldir upp á 178 milljarða í lok sl. árs. Það er eitthvað þar um bil þegar búið er að taka tillit til hvors tveggja

eins og það er fært upp í ríkisreikningi.
    Ríkisreikningsnefnd komst að niðurstöðu fyrir skömmu, hefur gefið út bók um það hvernig færa skuli ríkisreikning í framtíðinni, fjárlög og reyndar fjáraukalög. Allir voru sammála og ég tel að þetta starf komi til með að skila miklu í framtíðinni og geri mér vonir um að svo verði að sjálfsögðu.
    Það sem hins vegar er erfitt í þessum málum er það að það skortir að færa upp eignir og þegar rætt er um halla þá kemur t.d. í ljós að breyttar uppgjörsreglur geta vegið heilmikið. Ég nefni dæmi á sl. ári þegar breyttar uppgjörsreglur leiddu til þess að niðurfærsla skattkrafna varð 2,7 milljarðar og dráttarvaxtaniðurfærsla um 1,4 milljarðar, bara vegna breytinga á uppgjöri sem sýnir auðvitað að það er varhugavert að taka eitt ár út úr því að það getur vel verið að ein slík breyting eigi rætur að rekja til þess sem hefur gerst á mörgum árum.
    Þess vegna bið ég hv. þingmenn að taka með varúð þegar menn koma upp og eru að tala jöfnum höndum annars vegar um greiðsluhalla og hins vegar um reikningshalla.