Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:10:20 (3087)


[22:10]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir svörin og er alveg viss um að hann hefur veitt þau miðað við allar aðstæður rétt og sönn. En veruleikinn sem við Ríkisspítölum blasir er þessi: Það vantar þarna í reksturinn sennilega 250--350 millj. kr., bara miðað við óbreyttan rekstur vegna þess að þó að það sé verið að tala um að fjárlagafrv. tryggi eins og það lítur út núna óbreyttan rekstur þá er það ekki alveg rétt því að þá eru menn að ganga út frá því að stíga á bremsurnar talsvert mikið á Ríkisspítölunum á næsta ári, m.a. að því er varðar hjartaskurðlækningar. Það er verið að gera ráð fyrir því að fækka hjartaskurðlækningum úr 290 í 250 og það á að spara 50 millj. kr. ef ég man rétt. Ég er því alveg viss um að ef Ríkisspítalarnir eiga að reka sig með þessum peningum á næsta ári þá verður að loka þar einhverjum deildum og segja upp talsverðum fjölda fólks eins og þetta lítur út núna nema menn hafi einhver önnur ráð sem ég hef ekki áttað mig á.
    Í öðru lagi liggur það líka fyrir að línuhraðallinn og kóbalttækið eru ekki í góðu lagi, það gengur ekki að hafa þetta svona. Það er slæmt fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi að það spyrjist að hlutirnir séu ekki í nógu góðu lagi og ég veit að það er alveg hægt að treysta þeim mönnum og þeim tækjum sem þarna eru eins og sakir standa, en málin eru komin á hættulegt stig og þess vegna tel ég að það sé óhjákvæmilegt að taka núna ákvörðun um það snemma á næsta ári að kaupa línuhraðal til landsins sem kemst í gagnið í byrjun ársins 1996 og þess vegna legg ég á það áherslu að það mál fái einhverja afgreiðslu hér í þessari virðulegu stofnun áður en hún fer heim í jólaleyfi.