Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:12:26 (3088)


[22:12]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um það að hv. 9. þm. Reykv. mælir hér af heilindum þegar hann ræðir um áhyggjur sínar yfir fjármálum Ríkisspítalanna. En ég hlýt að álykta sem svo að þeir forsvarsmenn spítalans sem undirritað hafa samkomulag eða samning við heilbrrh. og fjmrh. geri sér fullt eins góða grein fyrir stöðu mála hjá spítölunum og þeir telja að sú hækkun sem spítalarnir fá á árinu 1994 og síðan á árinu 1995 muni duga til þess að reka spítalann eins og til er ætlast. Ég efast heldur ekkert um það að hann hefur lög að mæla þegar hann ræðir um tækin á Landspítalanum, sérstaklega kóbalttækið og línuhraðalinn, og ég hlýt einnig að álykta sem svo að forsvarsmenn spítalans hafi einhverja áætlun um það hvernig þeir ætli að leysa þetta mál miðað við það samkomulag sem þeir hafa undirritað. Ég hlýt að gera ráð fyrir því að embættismenn eða forsvarsmenn slíkrar stofnunar séu það ábyrgir fyrir því sem þeir gera og því sem þeir undirrita að þeir geri sér þetta ljóst og þeir ætli sér að ráða fram úr þessu innan þess ramma sem þeir hafa samþykkt.