Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:16:45 (3090)


[22:16]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil strax nota tækifærið til þess að greina frá málefnum skipaiðnaðarins af

því að þau hefur þegar borið á góma og ég tel rétt að greina frá þeim áður en lengra er haldið með umræðuna. Ég tek undir með hv. 9. þm. Reykv. í því sem hann sagði hér áðan að þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til í málefnum skipasmíðaiðnaðarins á árinu sem er að líða skiluðu mjög góðum árangri. Það var ekki aðeins um að ræða niðurgreiðslur á meiri háttar viðgerðarefnum heldur einnig styrki til þróunar- og markaðsrannsókna og til hagræðingaraðgerða og þetta hefur allt skilað sér mjög vel. Nú stendur yfir athugun á áhrifum jöfnunaraðgerðanna. Sú athugun fer fram undir forustu Þjóðhagsstofnunar með aðild iðnrn. og fjmrn. Því miður liggja ekki enn fyrir niðurstöður af þeirri athugun en ég er ekki í neinum vafa um það og er sammála hv. þm. um það að sú niðurstaða mun leiða í ljós að þessar aðgerðir voru jákvæðar og skiluðu verulegum fjármunum til þjóðarbúsins.
    Þann 1. jan. 1995 tekur hins vegar 7. tilskipun Evrópusambandsins um skipasmíðar gildi á Evrópska efnahagssvæðinu öllu. Tilskipun þessi varðar niðurgreiðslur vegna nýsmíða, breytinga og viðgerða á skipum. Tilskipunin heimilar að veita styrki til skipaeigenda sem hér segir:
    Vegna nýsmíða skipa undir 100 brúttórúmlestum: Enginn styrkur.
    Vegna nýsmíða skipa yfir 100 brúttórúmlestum:
    Ef smíðasamningur er undir 10 millj. ECU eða undir 850 millj. ísl. kr., þá er heimilt að veita styrki sem nema 4,5% af fjárhæðinni.
    Ef smíðasamningur er yfir 10 millj. ECU eða yfir u.þ.b. 850 millj. ísl. kr. er heimilt að veita styrki sem nema 9% af samningsfjárhæðinni.
    Breytingar á skipum undir 1.000 brúttórúmlestum að stærð. Þar er ekki heimilt að veita neina styrki.
    Breytingar á skipum yfir 1.000 brúttórúmlestir að stærð. Þar er heimilt að veita 4,5% styrki.
    Viðgerðir á öllum skipum. Þar er ekki heimilt að veita neina styrki.
    Breytingar á skipum yfir 1.000 brúttórúmlestir að stærð. Þar er heimilt að veita 4,5% styrki.
    Viðgerðir á öllum skipum. Þar er ekki heimilt að veita neina styrki. Að auki tekur tilskipunin til fjárfestingar og hagræðingarstyrkja til skipasmíðastöðva en þar er meginreglan sú að slíkir styrkir mega ekki verða til að auka afkastagetu í greininni.
    Þau ríki sem ekki nýta sér ofangreinda heimild til niðurgreiðslna geta á hinn bóginn krafist niðurfellinga á styrkjum til einstakra verkefna sem eru í samkeppni við skipaiðnað í viðkomandi ríki. ESA eða Eftirlitsstofnuninni er ætlað að hafa skjótt og öflugt eftirlit með því á EFTA-svæðinu að með slíkum kröfum sé tafarlaust orðið. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að skipaiðnaður á öllu EES-svæðinu búi við sömu samkeppnisaðstöðu hvort sem viðkomandi ríki beitir niðurgreiðslum eða ekki.
    Flest ríki á EES-svæðinu áforma að nýta sér umrædda heimild til niðurgreiðslna í skipasmíðaiðnaði. Ríkisstjórnin mun tryggja að íslenskur skipaiðnaður búi við fullt jafnrétti gagnvart samkeppnisaðilum á Evrópska efnahagssvæðinu eftir gildistöku umræddrar tilskipunar, þ.e. frá og með 1. jan. næsta ári. Af framkvæmdalegum ástæðum, þ.e. að okkur hafa ekki borist enn allar upplýsingar sem við þurfum á að halda til að geta valið á milli leiðanna, er ekki unnt að taka ákvörðun um það nú hvor leiðin verður farin, niðurgreiðsluleiðin eða kæruleiðin. Ríkisstjórnin mun á hinn bóginn taka ákvörðun þar um áður en tilskipunin tekur gildi um næstu áramót þannig að útgerðir og skipasmíðastöðvar verði ekki í vafa um samkeppnisreglur á næsta ári. Með öðrum orðum mun íslenskur skipasmíðaiðnaður frá og með næstu áramótum í fyrsta skipti í áratugi búa við nákvæmlega sömu aðstæður til samkeppni og skipasmíðaiðnaður í öðrum löndum innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Það eru mikil tíðindi og við það mun ríkisstjórnin standa. Ákvörðun hennar í þeim efnum verður tilkynnt fyrir næstkomandi áramót.