Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:24:53 (3093)


[22:24]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi að mörgu leyti tekið myndarlega á þessum málum. Menn verða að eiga það sem þeir eiga í því. Það er það fyrsta sem hefur gerst og er ánægjulegt að menn skuli hafa mannað sig upp í að taka á þessum málum þó seint sé og öll fyrirtæki í skipaiðnaði séu komin á höfuðið. Betra er seint en aldrei. En ég er hræddur um að þau lög sem sett voru til að koma í veg fyrir undirboð séu mjög þung í vöfum og hafi ekki virkað enn þá. Ég veit svo sem ekki hvort fyrirtæki almennt í sjávarútvegi þurfi á fyrirgreiðslu Fiskveiðasjóðs að halda í öllum tilvikum þegar farið er í klössun eða minni háttar viðgerðarverkefni. En ég veit þó a.m.k. að tvö skip komu til landsins í gær eða fyrradag úr svona klössun í Póllandi sem fór ekki fram útboð á. Auðvitað sækja menn þangað sem ódýrast er og menn eru svo sem ekki skyldugir til að bjóða út og geta þess vegna siglt sínum skipum erlendis til viðgerða. En það er alveg greinilegt að íslenskur skipaiðnaður getur ekki keppt við það sem er boðið upp á í Póllandi.