Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:30:02 (3096)


[22:30]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ég ætla að greina frá því til að menn hafi upplýsingar í höndunum um það hvers vegna við getum ekki tekið þessa ákvörðun. Þetta er það nýtt fyrir okkur að við höfum ekki haft tíma til þess að meta það t.d. aftur í tímann ef valin yrði niðurgreiðsluleiðin hver útgjöld ríkissjóðs hefðu verið á liðnum árum og hver útgjöld ríkissjóðs yrðu væntanlega á næsta ári miðað við þær fyrirætlanir um viðgerðir og breytingar sem við vitum um og nýsmíði. Þetta erum við að skoða núna og munum taka ákvörðunina fyrir áramót.
    Það er smámisskilningur í máli hv. þm. þegar hann talar um að tilskipunin nái ekki til viðgerða, hún gerir það. Viðgerðir eru í núllflokki. Því verður ekki heimilt eftir 1. janúar nk. á Evrópska efnahagssvæðinu að veita neina styrki til viðgerðarverkefna. Með öðrum orðum verða Norðmenn, sem hafa veitt 13% styrki til slíkra viðfangsefna, nú að fella þá niður innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar með standa Íslendingar jafnfætis Norðmönnum í útboði á slíkum verkefnum. Þetta eru viðgerðarverkefni bæði smærri og stærri þannig að það er aðeins í nýsmíðinni og breytingunum á stærri skipum sem einhver styrkur verður veittur á hinu Evrópska efnahagssvæði og þá miklum mun minni en verið hefur hingað til. Hér er því um að ræða í fyrsta skipti um áratugaskeið að íslenskur skipasmíðaiðnaður getur staðið jafnfætis skipasmíðaiðnaði í helstu samkeppnislöndunum í sambandi við útboð og verkefni.