Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:32:33 (3098)


[22:32]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi víkja að. Annað snertir hæstv. menntmrh. en þar sem hann er ekki í salnum í augnablikinu mun ég geyma það en víkja að öðru atriði. Það er 26. brtt. frá meiri hluta fjárln. á þskj. 465, b-liður, þar sem er lagt til að sértekjur yfirdýralæknisembættisins hækki um 45 millj. kr. Það kom fram í máli hv. framsögumanns meiri hluta fjárln. að þetta er byggt á brtt., sem hefur verið lögð fram við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 og er á þskj. 451 og er um breytingu á lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Þar er gert ráð fyrir að lagt verði á nýtt gjald, eftirlitsgjald, til að standast kostnað við heilbrigðiseftirlit dýralækna allt að 2,50 kr. á kg kjöts miðað við vísitölu framfærslukostnaðar í janúar 1995. Hér virðist mér vera um að ræða nýja skattlagningu á þá sem síst skyldi. Það mun í kannski í fljótu bragði vera erfitt að bera saman þann kostnað, sem er nú greiddur af sláturleyfishöfum beint til dýralækna, og það gjald sem hér er gert ráð fyrir að taka upp og er sett til þess að komast hjá því að dýralæknar séu á launum hjá sláturleyfishöfum sem ekki er talið samrýmast reglum Evrópska efnahagssvæðisins. En þau laun sem dýralæknar fá nú eru í mörgum liðum. Það er ákeðið gjald á hvern grip í krónutölu. Það er ákveðin greiðsla fyrir kvaðningu, að koma á staðinn. Síðan eru laun greidd eftir tímavinnu og einn liður mun þarna vera enn. En samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá stærsta sláturleyfishafanum þar sem öllum þessum gjöldum er deilt út á þau kíló af kindakjöti sem koma þar til sláturmeðferðar --- þau samsvara 80 aurum samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Sláturfélagi Suðurlands í dag --- er því gert ráð fyrir meira en þreföldun á kostnaði fyrir sláturleyfishafann, yfir 200% og hlýt ég að lýsa því yfir að ég er algerlega andvígur þeirri nýju skattlagningu sem gert er ráð fyrir að taka upp samkvæmt tillögum stjórnarflokkanna.
    Í máli hv. 3. þm. Austurl. fyrr í dag kom fram að tekjur sauðfjárbænda munu lækka á núverandi kjörtímabili um 47% og hann andmælti því þar að greiðslum jarðræktarframlaga væri háttað þannig að þeir mættu ekki við því að það lenti á sauðfjárbændum að þeir fengju engar greiðslur á sama tíma og aðrir ættu að fá þær og taldi að þeir mættu þar síst við. En hér er gengið lengra og búinn til nýr tekjustofn sem eftir þeim upplýsingum sem ég hef er yfir 200% aukning á sama tíma og talað er um að þurfi að draga úr sláturkostnaði og það hafa sláturleyfishafar reynt að gera á mörgum sviðum, m.a. þessum. Sú upphæð sem þarna er ef þessi reikningur er réttur er rúmlega 30 millj. kr. og við sjáum hvað þarna er um stóran lið að ræða ef við berum það saman sem verið var að ræða rétt áðan um greiðslu til skipaiðnaðarins, það voru 60 millj. á þessu ári og talið að það hefði skipt sköpum fyrir þessa atvinnugrein og þetta er helmingur af því.
    Líka er óhætt að fullyrða að tvöföldun á þessari tölu, rúmlega 30 millj., mundi skipta sköpum ef sauðfjárbændur fengju þann stuðning við að koma kjöti sínu á markað erlendis því sem umfram er og er það annað dæmi um það hvað hér er þó um háan lið að ræða. Í sambandi við það vil ég geta þess að ég hef ásamt hv. þm. Páli Péturssyni, sem er fyrri flm. að brtt. á þskj. 481 við frv. til fjárlaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta, að við 6. gr. komi nýr liður, 56, að verja hluta af jöfnunargjöldum sem lögð verða á samkvæmt ákvæðum GATT-samnings til stuðnings við sölu á landbúnaðarafurðum erlendis. Þetta er sá háttur sem allar þjóðir í kringum okkur hafa, þ.e. að þau jöfnunargjöld sem eru lögð á innflutning samkeppnisvara eru notuð til þess að styrkja aftur aðrar greinar til markaðssetningar í öðrum löndum.
    Ég vil undirstrika að ég er algerlega andvígur þessari nýju skattlagningu, tel hana rangláta og finnst það satt að segja miður að stjórnarflokkar, stuðningsflokkar núv. ríkisstjórnar, skuli telja að þetta sé eðlileg skattlagningarleið.
    Hitt atriðið sem ég vildi víkja að er til hæstv. menntmrh. Á árinu 1989 voru sett lög um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Samkvæmt þeim lögum skyldi myndaður sjóður til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofna og stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafnsins og samkvæmt tillögum þess. En í upphafi er ákveðið að sjóðnum skuli varið til að ljúka byggingu þjóðarbókhlöðu og því hefur fram að þessu ekki verið veitt af öllu fjármagni sem hefur komið til að greiða fyrir byggingu þjóðarbókhlöðunnar þó að sum árin hafi verið klipið af því misjafnlega mikið. En á þessu ári var talið ljóst að ekki mundi þurfa allar tekjur sjóðsins á næsta ári til þess að ljúka við allar framkvæmdir við Þjóðarbókhlöðuna og greiða þær skuldir sem safnast hafa vegna framkvæmda á þessu ári og því óskaði stjórn sjóðsins eftir því að hafa samráð við menntmrn. um ákvörðun á hagnýtingu þessa fjármagns á næsta ári. Því miður varð ekki úr því hvort sem það hefur stafað af því að menntmrn. ákvað að leggja til að hluti af þessum fjárfestingarsjóði með 40 millj. yrði varið til reksturs hins nýja Landsbókasafns -- Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni.
    Samkvæmt því sem nú hefur verið deilt út í fjárlagafrv. fara 240 millj. til að ljúka við byggingarkostnað þjóðarbókhlöðu, 40 millj. til rekstrar safnanna þar en öðrum upphæðum er skipt til annarra hluta og ég vil sérstaklega víkja að einni en það eru 15 millj. til verndunar gamalla húsa sem er fært undir Þjóðminjasafn Íslands. Samkvæmt lögunum um endurbótasjóðinn skal það vera verkefni stjórnar sjóðsins að veita fjármagn til verndunar gamalla húsa eða til annarra verkefna sem hún gerir tillögur um.
    En ég vildi sérstaklega beina þeirri ósk til hæstv. menntmrh. að þessum 15 millj. kr. yrði ekki úthlutað án þess að stjórn endurbótasjóðsins fengi tækifæri til þess að fjalla um þá skiptingu. Það er tekið fram í lögunum að það skuli gert samkvæmt ábendingum og tillögum frá Þjóðminjasafni. Að sjálfsögðu yrði það gert en ég tel að þetta sé prófsteinn á það hvort þessi lög hafi raunverulega nokkra þýðingu, þ.e. um sérstaka sjóðstjórn og þá tel ég jafnframt að það gæfi fyrirheit um það sem stjórn sjóðsins hefur óskað eftir að nú þegar í upphafi árs verði viðræður milli stjórnar sjóðsins og menntmrn. um hugmyndir að því hvernig þessu fjármagni yrði varið á árinu 1996.
    Ég vænti þess að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að gefa yfirlýsingu um þetta atriði.