Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:13:28 (3108)


[23:13]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hv. minnihlutamenn í fjárln. hafa farið hér ítarlega yfir álit minni hlutans að undanteknum örfáum atriðum sem ég vil drepa á í stuttu máli. Það er í fyrsta lagi að fulltrúar Húsnæðisstofnunar komu til viðræðna við fjárln. um húsnæðismál. Það var athyglisvert í þeim viðræðum að það kom fram, og ég vil benda á það sérstaklega, að það kerfi að selja húsnæðisbréf á frjálsum markaði er brostið með 5% vaxtamarkinu. Það sýnir að bæði lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar hafa ekki meiri trú á vaxtastefnu núverandi ríkisstjórnar en það að þessi fjármögnun er liðin tíð og hún er komin á opinbert framfæri aftur.
    Það kom einnig fram að umsóknum um greiðsluerfiðleikalán fer stöðugt fjölgandi. Þær eru nú 1.400. Húsnæðisstofnun hefur unnið að skuldbreytingum í samvinnu við bankana en það er nauðsynlegt að efla stofnunina til að sinna þessum verkefnum sem eru sífellt vaxandi vegna fjárhagserfiðleika fólksins í landinu og erfiðleika þess við að standa í skilum með sínar skuldbindingar.
    Fulltrúar Húsnæðisstofnunar greindu einnig frá miklum vandamálum í félagslega kerfinu varðandi

almennar kaupleiguíbúðir og erfiðleika við að standa þar í skilum. Minni hlutinn telur að frv. taki ekki með neinum hætti á þessum vandamálum.
    Atvinnuleysistryggingasjóður er hækkaður um 394 millj. kr. milli 2. og 3. umr. fjárlaga. Þetta stafar m.a. af því að það er nú hætt við að innheimta 600 millj. kr. gjald af sveitarfélögunum í sjóðinn til átaksverkefna. Þetta stafar einnig af því að Þjóðhagsstofnun hefur reiknað upp á nýtt horfur um atvinnuleysisprósentu á næsta ári og hún er talin vera 4,6%, lækkar eilítið og það veldur því að 394 millj. kr. bætast við til þess að bæta upp þær 600 millj. sem sjóðurinn missir í tekjum frá sveitarfélögunum. Þetta atvinnuleysisprósentustig er auðvitað mikilli óvissu háð eins og hér hefur komið fram í umræðum um fjáraukalög og um fjárlög og ég þarf ekki í rauninni að bæta neinu þar við. Þetta er einn af óvissuþáttunum í frv.
    Þau átök sem voru um þjónustuframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árið 1994 voru leyst til bráðabirgða með samkomulagi í byrjun desember við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga. 150 millj. kr. var velt áfram með lántöku Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Það liggur ekkert annað fyrir um það á hve löngum tíma þetta lán verður endurgreitt eða um skipan þessara mála á næsta ári en yfirlýsing um að koma málum þannig fyrir að jöfnunarsjóðurinn þurfi ekki að taka þessi vanskil á sig. Það er mjög brýnt, og það vil ég undirstrika, að ekki verði gengið um of á fjárhagsstöðu jöfnunarsjóðsins, ekki síst með það í huga að hlutverk hans er afar þýðingarmikið og fer vaxandi með auknu hlutverki sveitarfélaga í stjórnkerfinu og breyttri verkaskiptingu.
    Varðandi samgöngumálin vil ég minnast á tvö atriði sem hafa reyndar komið fram í umræðu áður. Ég tel algerlega ótímabært að skerða flugmálaáætlun og færa fjármagn þar úr framkvæmdaliðum í rekstur. Það hefur ítrekað komið fram að það er algerlega ótímabær aðgerð miðað við þau verkefni sem eftir eru í flugmálum, bæði á flugvöllum úti á landsbyggðinni og einnig á meginflugvelli innanlandsflugsins sem er Reykjavíkurflugvöllur. Hér bíða stórverkefni eins og annars staðar og ég óttast það að þessi skerðing verði inni áfram.
    Það hefur verið rakið hér varðandi það framkvæmdaátak sem fyrirhugað er í vegamálum að það er ætlunin að breyta skiptingu fjár og skipta því eftir höfðatölu. Þá kemur út sú niðurstaða að það bætist við fjármagnið í öllum kjördæmum nema á Austurlandi og Vestfjörðum, nema þar sem vegakerfið er dýrast og erfiðast. Þetta er sannarlega meistaraleg niðurstaða í þessu átaksverkefni og þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig er hægt að koma hlutunum fyrir.
    Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um Landhelgisgæsluna. Það er auðvitað óviðunandi að það sé ekki ætlað fyrir rekstri þyrlunnar. Það er til bóta að veita 35 millj. í varahlutina og átti það auðvitað að vera fyrirséð að þyrfti varahluti í þyrluna. En það þarf að reka þetta tæki og á því þarf auðvitað að finna lausn á næsta ári án þess að skera þar niður annan rekstur.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nál. Það hefur verið lagt fram og það hefur verið gerð grein fyrir sjónarmiðum minni hlutans varðandi það. Ég vil hins vegar víkja að brtt. við frv. til fjárlaga sem við flytjum á þskj. 490 hv. þm. Guðmundur Bjarnason, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Jón Kristjánsson og Finnur Ingólfsson, en við eigum sæti í fjárln. og í efh.- og viðskn. Þessar tillögur eru þannig til komnar að þær eru hugsaðar til þess að koma eilítið meira til jöfnunar lífskjara heldur en frv. gerir ráð fyrir. Við flytjum á þskj. 489 brtt. um tekjuöflun, sem verður gerð grein fyrir hér á eftir.
    Fyrsta brtt. á þskj. 490 er varðandi grunnskólana, að halda óbreyttum framlögum í þeim frá því sem var á síðasta ári, en m.a. er gerð á grunnskólana hagræðingarkrafa sem nær étur upp þá viðbót sem varð vegna aukins nemendafjölda.
    Við flytjum tillögu um að bæta 50 millj. við í jöfnun á námskostnaði. Það er í 2. lið og það veitir ekki af. Þetta er lágmark að við teljum til þess að það muni eitthvað um þessa aðstoð sem þarna er, sem vantar sárlega því að mismununin er mikil í þessu efni eftir því hvar fólk er búsett og hvað er langt í framhaldsskóla.
    Við leggjum til að við liðinn Kennslu- og vísindadeildir Háskóla Íslands verði bætt 100 millj. Það er til þess að koma til móts við þær beiðnir sem háskólinn sendi, og vel rökstuddar, til fjárln. en hlutu ekki náð nema að hluta. Það voru til bóta tillögur meiri hlutans en við teljum að það sé ekki nóg að gert. Sama er að segja um liðinn Þjóðarbókhlaða. Við teljum að það sé auðvitað ekkert vit í því annað en reka þetta myndarlega hús þannig að m.a. stúdentar í háskólanum sem lesa í þessu húsi geti átt þar aðgang á svipaðan hátt og þeir áttu að háskólabókasafni og við leggjum til að það verði bætt 82 millj. þar við.
    Við leggjum einnig til að listskreytingasjóður fái 8 millj. Við teljum að þessum sjóði eigi að halda áfram, það eigi að halda áfram starfi hans þó að það sé verið að endurskoða lögin. Það er til bóta að leggja til 4 millj. og við munum að sjálfsögðu styðja það ef þessi tillaga hlýtur ekki náð fyrir augum hv. þingmanna.
    Við flytjum tillögu um sérstakar greiðslur í landbúnaði, en það eru niðurgreiðsla á loðdýrafóðri, en því miður hefur verð á skinnum farið lækkandi á síðustu uppboðum og þess vegna eru rök fyrir því að halda þessari upphæð inni, sem er alger lágmarksupphæð, upp á 10 millj. kr.
    Við leggjum til að embættum héraðslækna í Reykjavík og héraðslækna á Norðurlandi eystra verði haldið áfram og fjármunir ætlaðir til þess. Annars staðar er fyrirkomulag óbreytt í þessum efnum, en við leggjum til að þessir liðir verði inni.
    Við leggjum einnig til að niðurgreiðsla á rafhitun hækki um 50 millj. kr. Ég þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð um það, þau mál hafa verið rakin hér í umræðum í dag og það auðvitað blasir við að ríkisvaldið hefur lagt á hitunarkostnað virðisaukaskatt þannig að tekjur ríkissjóðs af þeim skatti eru ívið meiri heldur en niðurgreiðslurnar. Það er auðvitað meiningin með þessari tillögu að jafna þennan aðstöðumun og þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um það.
    Að lokum flytjum við tillögu um það að bæta við liðinn Búnaðarfélag Íslands jarðræktarframlögum 50 millj. kr. til viðbótar við þær 40 millj. sem ákveðnar voru í tillögum meiri hlutans. Þessar 50 millj. kr. mundu nægja til þess að greiða helming þeirra skuldbindinga sem til hafa fallið á árunum 1992 og 1993 og við teljum það algert lágmark að gera það og stillum tillögugerð í hóf að þessu leyti og er ærinn hali sem er eftir þó að þessi tillaga verði samþykkt.
    Ég hef þá lokið að gera grein fyrir brtt. og þessar brtt. eru í algeru lágmarki. Það er flutt tillaga um tekjuöflun til að mæta þeim og heldur betur meira að segja. En við teljum að þetta séu lagfæringar. Það breytir ekki stöðu ríkissjóðs að samþykkja þessar tillögur og ætti ekki að vera tilfinnanleg skattlagning að mæta þeim í tekjum, enda gerum við tillögu um það á öðru þskj. sem hér verður gerð grein fyrir.