Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:34:03 (3110)


[23:34]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir lítilli brtt. á þskj. 481 frá okkur hv. þm. Jóni Helgasyni. Tillgr. hljóðar svo að við 6. gr., þ.e. heimildargreinina, bætist nýr liður er verði liður 5.6, svohljóðandi:
    ,,Að verja hluta af jöfnunargjöldum sem lögð verða á samkvæmt ákvæðum GATT-samningsins til stuðnings sölu á landbúnaðarafurðum erlendis.``
    Það liggur fyrir, frú forseti, að jöfnunargjöld falla til vegna GATT-samninganna. Við leggjum til að hæstv. fjmrh. fái heimild til þess að verja hluta þeirra til stuðnings sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum erlendis. Það ætti að vera áhættulaust fyrir hæstv. fjmrh. og hans menn að samþykkja þessa tillögu. Hæstv. fjmrh. hefur vald á því hvort hann notar heimildina meðan hann er í stóli fjmrh. og fari svo samkvæmt von minni að einhver annar sitji í stól fjmrh. að kosningum loknum þá hefði sá ráðherravald á því hvort hann notaði heimildina.
    Ég kom hér skoðun minni á framfæri fyrr í dag um nauðsyn þess að flytja út landbúnaðarafurðir og þá sérstaklega dilkakjöt svo að ég þarf ekki að orðlengja þetta meira en vonast eftir því að þessi tillaga fái góðar viðtökur og nái fram að ganga.