Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:36:00 (3111)


[23:36]
     Finnur Ingólfsson :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 489. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Bjarnason, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Jón Kristjánsson. Brtt. gengur út á tekjuöflun vegna þeirra útgjaldatillagna er framsóknarmenn hafa flutt á öðru þskj. fyrr við umræðuna. Tekjuöflunin felst í því ef við gerum ráð fyrir að hækka eignarskatta með því að breikka eignarskattsstofn þannig að allar eignir verði gerðar jafnar fyrir sköttum, peningalegar eignir jafnt sem aðrar, þannig áætlum við að afla tekna upp á 1.000 millj. kr. Um leið hækkum við fríeignamarkið og afnemum ekknaskattinn.
    Í öðru lagi gerum við ráð fyrir því til kjarajöfnunar að hækka vaxtabætur um 300 millj. kr., hækka barnabætur um 400 millj. kr. og gerum ráð fyrir því að hátekjuskatturinn verði óbreyttur frá því sem hann er nú en ekki lækkaður eins og gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
    Í fjórða lagi gerum við ráð fyrir því að hækka almennt verð á áfengi og tóbaki um 3--4% þannig að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skili 200 millj. kr. meira í ríkissjóð. Þannig höfum við flutt breytingartillögur til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð sem standa undir þeim útgjöldum er við lögðum til hér við umræðuna og rúmlega það.