Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:48:18 (3113)


[23:48]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafði áður í kvöld vikið að einni af tillögum meiri hluta fjárln. sem varðaði undirbúning að hverarannsóknum í Hveragerði, rannsóknum á lífríki hverasvæðanna, örverum og öðru tilheyrandi. Það var ástæðulaust hjá hv. þm. að gera þá tillögu eitthvað tortryggilega. Þar er um mjög gott mál að ræða og ég er glaður yfir því að þingmaðurinn lýsti því yfir að hún mundi styðja þá tillögu. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að stunda rannsóknir í stóru og smáu, ekki síst á íslenskum sérsviðum og þessar rannsóknir heyra þar undir. Einn af færustu vísindamönnum Íslendinga á því sviði, dr. Jakob Kristjánsson, jafnframt kunnur víða um heim fyrir rannsóknir sínar og þekkingu á líffræði hverasvæða, vinnur að því máli og er mjög spennandi að horfa til þess að nú loks verði gengið til þess að rannsaka hið sérstæða hverasvæði í hjarta Hveragerðisbæjar.
    Það er náttúrlega ástæða til þess að fagna því um leið að stjórnarflokkarnir og hæstv. ríkisstjórn hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að efla rannsóknir á öllum sviðum á Íslandi og hafa lagt þar mjög myndarlega til í stóru og smáu og ein af tillögunum í fjárlögum fyrir árið 1995 er til að mynda rannsóknarstaða fyrir framhaldsskólakennara við uppeldisstofnun í fræðslu- og uppeldismálum. Það mun ætlun hæstv. menntmrh. að kenna þá stöðu við dr. Brodda Jóhannesson, sem var einn af brautryðjendum íslenskra skólamanna í rannsóknum. Lagði mikið kapp á það að menn stunduðu rannsóknir og efldu þær og ekki síst lagði dr. Broddi heitinn kapp á það að þeir sem stunduðu rannsóknir þekktu vettvanginn sem þeir ættu að rannsaka. Þess vegna er það mjög spennandi fyrir íslenskt skólakerfi að framhaldsskólakennarar skuli nú í fyrsta skipti fá möguleika á því að stunda rannsóknir á sviði sem þeir eru gjörkunnugir á. Þetta er nýjung og því ber að fagna. Ég vil rétt aðeins leggja áherslu á það að það ber fyrst og fremst að fagna þeim miklu áföngum sem hafa komið í rannsóknum á Íslandi á undanförnum árum og þeirri áherslu sem hefur verið lögð á það af stjórnarflokkunum.