Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:52:57 (3115)


[23:52]
     Árni Johnsen (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það var óþarfi hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vera að leiðrétta eitthvað því að þess gerðist ekki þörf. Það hefur ekki fyrr verið sett á stofn staða á háskólasviði fyrir framhaldsskólakennara til að stunda rannsóknir. Steindór Steindórsson frá Hlöðum er kunnur vísindamaður á sinn hátt, á mörgum sviðum, og það mætti nefna marga sem eru ekki kannski mjög reyndir skólamenn. Ég nefni hér Kvískerjabræður, sem hver um sig hefur verið vísindamaður í rauninni á mörgum sviðum. Þannig að margir stunda rannsóknir. Málið snýst um það í þessu tilviki að það er skipuð staða sem framhaldsskólakennari getur unnið við á launum og eftir formlegum leiðum. Það er nýjung hvað sem hv. þm. segir.