Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 23:55:35 (3118)


[23:55]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í umræður um það hvernig göngustígar í Hveragerði urðu að örverum, en þegar örverurnar eru orðnar að framhaldsskólakennara þá fer nú skörin að færast upp í bekkinn. En erindi þeirra Hvergerðinganna og Iðntæknistofnunar er sjálfsagt hið ágætasta mál sem þarf að taka fyrir á réttum vettvangi. Hins vegar finnst mér alveg út í hött að heyra hv. þm. Árna Johnsen, 3. þm. Suðurl., hæla sér af afrekum ríkisstjórnarinnar í rannsóknum. Það vill nú svo til að umsóknir hafa komið til fjárln. um heilar 13 millj. í að rannsaka klak við Ísland fyrir Hafrannsóknastofnun. Það erindi hefur ekki fengið áheyrn hjá meiri hluta fjárln. í mörg ár. Og það kom bréf frá hv. þingflokksformanni Sjálfstfl. þar sem hann bað um 30 millj. kr. fyrir Hafrannsóknastofnun til þess að senda skip á Reykjaneshrygg til að kanna þar stofnstærð karfa. Þessu bréfi var stungið undir stól. Ég hef ekkert heyrt á það minnst. Það var ekkert afgreitt. (Gripið fram í.) ( ÁJ: Er ekki rétt að þingmaðurinn kynni sér þetta?) Já. ( Gripið fram í: Reykjaneshryggurinn átti þó fulltrúa í nefndinni.) Það var skorið niður um 15 millj. þetta erindi, þannig að ég vil nú ekki hlusta á þessar afrekasögur af hæstv. ríkisstjórn í rannsóknum og vísindum.