Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 00:05:23 (3122)


[00:05]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ótrúlega mikil umræða hér um verkefni sem er á upplýsingastigi, undirbúningsstigi og er margþætt og spennandi á sérsviði Íslands. Ég býst við að flestir hv. þm. þekki frá síðustu árum rannsóknir sem stóðu í Kolbeinsey á sérstæðu hveralífríki á því svæði og vöktu athygli vísindamanna á því sviði um allan heim, þegar fundust m.a. nýjar tegundir sem menn höfðu aldrei þekkt áður. Það er alveg ástæðulaust að vera að gera lítið úr slíkum rannsóknum á íslensku sérsviði, hverasviði. Það er auðvitað eitt af því sem við eigum að rækta, að sinna okkar sérsviðum og rækta garðinn heima. Það er rangt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að nokkru sinni hafi verið fjallað um það í fjárln. eða meiri hluta fjárln. að leggja fjármagn til göngustíga eða girðinga í Hveragerði. Það er beinlínis rangt. Í tillögum og hugmyndum bæjarstjórnar Hveragerðis frá sl. hausti, frá því í september, þá var í greinargerðum fjallað um svæðið og m.a. að það þyrfti að leggja göngustíga eða bæta þá og girðingar. En það kom aldrei til umræðu í fjárln. að það væri styrkhæft, enda er það ekki styrkhæft.
    Það er líka rangt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ekki hafi legið fyrir erindi. Það lágu fyrir tvö erindi, annað yfirlitserindi frá dr. Jakobi Kristjánssyni, (Gripið fram í.) mjög yfirgripsmikið, sem var dreift á borð þingmanna og er til umfjöllunar í fjárln. Það er líka rangt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að erindi um þetta hafi komið sama dag og það var ákveðið í fjárln. Erindið var komið löngu áður og er dagsett löngu áður, enda á þingmaðurinn að hafa haft það á borði sínu.