Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 00:07:41 (3123)


[00:07]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka nú þessar upplýsingar sem hafa komið fram í umræðunum frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og hv. þm. Árna Johnsen. Ég verð að viðurkenna vanþekkingu mína á tilurð tillögunnar. Hún er ekki komin frá ráðuneytinu. ( Gripið fram í: Nú.) Ég vænti þess að það eigi ekki að koma neinum á óvart miðað við hvernig umræður hafa hnigið hér um þetta mál. Þannig að ég lít nú ekki svo á að þetta sé fyrsta framlag til stofnunar einhverrar sýningarhallar. Ég á nú líka eitthvað erfitt með að

ímynda mér að það þurfi að byggja höll yfir örverur, en það má vel vera að það sé við hæfi. Ég get ekki ímyndað mér þetta þannig. Þannig að spurning til mín hvernig ég hyggst byggja þessa stofnun upp, það eru engar hugmyndir um það í mínum huga að fara að byggja upp einhverja stofnun utan um þessa einu milljón sem þarna er verið að veita að því er mér hefur skilist til þess að rannsaka þessar örverur og ég hef skilið það svo að þetta eigi ekki að renna til þess að byggja gangstíga. En það má vel vera. Ég kem að sjálfsögðu til með að kanna það hvernig þessari milljón kann að verða veitt, en ef við lendum í einhverjum vandræðum með það þá lít ég ekki svo á að það hvíli á mér lagaskylda að eyða þessari milljón.