Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 00:09:35 (3124)


[00:09]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til þess að upplýsa hæstv. menntmrh. um þetta mál og það er mjög fljótgert.
    Það liggur erindi frá bæjarstjórn Hveragerðis um samstarfsverkefni Hveragerðisbæjar og Iðntæknistofnunar um þetta mál. Erindið byggist á því að það er unnið að undirbúningi að stofnun fræðslu- og rannsóknamiðstöðvar í hverarannsóknum og í það er ætlað því fjármagni sem markað er á fjárlögum. Það er engin skuldbinding í þessu efni um byggingu vísindamiðstöðvar, en það er unnið að undirbúningi málsins. Og af hverju ættu menn að vera að gera lítið úr því? Hvaða hroki er þetta í garð íslenskra vísindamanna sem eru að vinna á íslenskum sérsviðum? (Gripið fram í.) Hvaða hroki er þetta? Hvaða vinnubrögð eru þetta? Ætli menn ættu ekki að taka þessu bara jákvætt og vel eins og tillaga meiri hluta fjárln. gerir ráð fyrir.
    Það má geta þess hér til að upplýsa menn að það eru kannski fleiri en íslenskir vísindamenn sem hafa áhuga á þessum rannsóknum. Það er væntanlegur til Íslands á komandi sumri fjölmennur hópur þýskra vísindamanna með verulega mikinn útbúnað þar sem þeir munu vinna að örverurannsóknum á hverasvæðum á Íslandi og ætli það sé þá ekki ágætt fyrir okkur líka að styrkja okkar eigin vísindamenn, sem eru heimskunnir, til þess að sinna þeim verkefnum. Það hvílir nefnilega lagaskylda að sinna þessu erindi eins og það er lagt fram á fjárlögum. Hitt er annað að það hafa spunnist skemmtilegar umræður um þetta mál og það er af hinu góða. Það er ekki oft að hér í þingsal sé rætt um lífríki hverasvæða eða örverur yfirleitt. Og svona til gamans er rétt að skjóta hér inn að þegar m.a. var fjallað um þetta mál í líflegum umræðum, eins og er um mörg mál í fjárln., þá skaut hv. þm. Guðrún Helgadóttir því fram að þetta væri nú bara hveratívolí Árna Johnsens. Það eru mörg góð skáld í fjárln., hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Jón Kristjánsson, enda var hv. þm. Jón Kristjánsson fljótur til og skaut fram eftirfarandi vísu:
          Í Tívolí allir gluggar glansa,
          glatt er enn í hveradalnum,
          Árni Johnsen er að dansa
          með amöbum í speglasalnum.
    En ég vil láta þessu máli lokið og vona að menn gantist ekki um of með alvarlegt mál sem um er að ræða, gott mál á sviði rannsókna á Íslandi.