Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 00:13:30 (3125)


[00:13]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að mín orð hafi ekki verið tekin hér sem einhver hroki í garð vísindanna, það var ekki ætlunin. Ég tek undir með hv. þm. að þetta hafa verið býsna skemmtilegar umræður sem hafa spunnist um þetta mál.
    En bara til þess að það sé alveg á hreinu, að þetta erindi, sem hér er gert að umræðuefni, það er, ef ég skil rétt, frá bæjarstjórninni í Hveragerði til fjárln. og það er ekkert óeðlilegt við það. En það er ekki hægt að ætlast til þess af mér að ég svari í smáatriðum hvað liggur þarna á bak við. Erindið er til fjárln. og það er afgreitt þar og ég hef í sjálfu sér ekki nokkurn hlut við það að athuga. Ég geri ráð fyrir að þetta sé viðfangsefni sem er áhugamál bæjarstjórnarinnar í Hveragerði, væntanlega í samvinnu við einhvern aðila, mér skilst að það sé Iðntæknistofnun. Þannig að þetta er ekkert sem ríkisvaldið, í þessu tilviki menntmrn., er að taka upp á sína arma. Það er ekki. Þetta er Hveragerðisbær sem þarna hefur frumkvæði. Ég vona að ég hafi skilið það rétt og það er --- ja, ég veit ekkert hvar þetta á upphaf sitt, ég get ekki svarað því, en erindið kemur frá Hveragerði. Ég vænti að það sé enginn vafi á því, erindið kemur þaðan. Það er Alþingis að ákveða hvort það vill styðja þessa hugmynd og meiri hluti fjárln. hefur tekið jákvætt í það og ég sé ekkert við það að athuga.