Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 01:18:38 (3135)


[01:18]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls er alveg ljóst að ef við ætlum að standast þær kröfur sem eru gerðar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum er alveg óhjákvæmilegt að höggva á þau tengsl sem eru á milli þess sem rekur sláturhúsið og þess sem metur kjötið. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa annan hátt á. Hér er lagt jöfnunargjald á sem á að standa undir dýralækniskostnaði, sem á að standa undir kostnaði aðstoðarmanns dýralæknis og sem á að standa undir þeim kostnaði sem er því samfara að athuga hvaða aðskotaefni eru í kjötvörum sem er óhjákvæmilegt ef menn eru að tala um útflutning á vistvænum landbúnaðarvörum sem eru í samræmi við það sem við erum að beita okkur fyrir. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að breyta því kerfi sem verið hefur og hafa þennan hátt á.